17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur þegar ég ræði þetta mál. (Forseti: Það skal reynt að verða við þeirri ósk.)

Virðulegi forseti. Í frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er fjallað um auknar réttarbætur til handa opinberum starfsmönnum. Ýmis atriði þar orka tvímælis að áliti stærsta launþegasambands landsins, Alþýðusambands Íslands.

Eins og kunnugt er er það svo hjá mörgum ríkisstofnunum að þar vinna starfsmenn sem eru á samningum sem gerðir eru af aðildarfélögum Alþýðusambandsins en aðrir eftir kjarasamningum sem gerðir eru af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og félögum þess.

Við sem erum innanbúðar hjá ASÍ teljum að það þurfi að fá úr því skorið hvort það frv. sem hér er á ferðinni muni breyta réttarstöðu þeirra sem eru innan aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, hvort það er meiningin með þessum lögum að fjölga ríkisstarfsmönnum og hver er meginbreytingin. Mér virðist sem öll afmörkun á því skipulagi sem nú er um skiptingu á milli hins almenna vinnumarkaðar og starfssviðs hins opinbera sé horfin. Þetta gæti leitt til þess að félög opinberra starfsmanna og starfsmannafélög sveitarfélaga fari að gera tilkall til mun fleiri félagsmanna en nú er. Það má vera að hugsunin sé ekki þessi. Það þarf að fá úr því skorið til þess að ekki upphefjist landamærastríð, ef ég má orða það svo, milli helstu stéttasamtaka í landinu þar sem réttarstöðu almennra starfsmanna yrði stefnt í hættu en áhrif stéttasamtaka ríkisins eða ríkisstarfsmanna aukist þannig að ríkisstarfsmönnum fjölgi verulega frá því sem nú er.

Ég nota þetta tækifæri og spyr fjmrh. hver sé hugsunin í þessum efnum, hvort hugsunin sé að breyta þannig til eða hvort ætlunin sé að þau skil sem tíðkast hafa og hefð er fyrir muni haldast.