17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Vegna fsp. hv. 6. landsk. þm. vil ég taka þetta fram: Í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. frv. er kveðið á um að lögin taki ekki til starfsmanna þegar um kaup þeirra og kjör fer eftir kjarasamningum sem gerðir eru á grundvelli laga nr. 80/1938, þ.e. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í lögum nr. 62 frá 1985 er sams konar ákvæði um iðnaðarmenn, sjómenn, verkafólk og starfsfólk í iðjuverum. Sú breyting sem í 3. tölul. 1. gr. frv. felst er ekki þrenging ákvæðisins og breytir ekki frá því sem nú er eða takmarkar rétt starfsmanna til að vera í almennum stéttarfélögum sem ekki heyra undir lög skv. frv. og breytir ekki frá því sem nú er rétti slíkra stéttarfélaga til að semja fyrir félaga sína.

Niðurstaða mín er þessi:

Það frv. sem hér liggur fyrir breytir í engu því sem kallað hefur verið „landamæri“ á milli félaga opinberra starfsmanna og félaga á almennum vinnumarkaði innan Alþýðusambands Íslands.