17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er vissulega á ferðinni frv. sem getur haft verulegar breytingar í för með sér, en með því að líta yfir þetta frv. má sjá að stofnunin getur verið nákvæmlega eins og hún er vegna þess að það er mjög breitt bil á milli þeirra sem eiga að nýta þessa starfskrafta. Ef t.d. væri kallað á yfirmatsmann í hvert skipti sem togari kæmi að landi er ég ansi hrædd um að þyrfti að fjölga starfsmönnum fljótlega aftur upp í sömu tölu. Ég held því að hér sé um allt of hrátt mál að ræða, það sé ekki búið að vinna nægilega að þeim skipulagsbreytingum sem þurfa að verða í kjölfarið á slíkri lagabreytingu og að frv. sé ekki nógu vel undirbúið til að verða að lögum eftir örfáa daga.

Það kemur fram í grg. að þetta mál var tilbúið 2. okt. s.l. Síðan fær hv. Ed. Alþingis málið til meðferðar þegar hún á aðeins einn starfsdag eftir fram að áramótum og hæstv. sjútvrh. segir að nefndin geti fengið þá menn til viðræðu sem málið varðar. Við höfum tvo tíma á morgun, á milli 10 og 12, því kl. 12 erum við upptekin á öðrum fundi hjá hæstv. ráðh., til að kynna okkur þetta mál og ræða við þá menn sem eiga að fara eftir lögunum þegar frv. verður að lögum. Hér er ekkert svigrúm. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það vanvirðing við hv. Alþingi að koma svo seint fram með mál þrátt fyrir að hér geti verið um gott mál að ræða, en það þarf að sjá fyrir endann á því hvernig á að framkvæma slíka lagabreytingu.

Það kemur líka fram í grg. að LÍÚ vill alfarið leggja Ríkismat sjávarafurða niður. Hvernig hefði verið að kanna til hlítar hvort það væri kannske betri leið en nú er farin? Hvernig væri að fá úttekt á því og umsögn um hvort það ætti að ganga alla leið og leggja stofnunina niður eða hvort eigi, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., að fara fiskvinnsluleiðina? Sjómenn vilja ganga enn skemmra. Vegna hvers sjómenn? Jú, vegna þess að ferskfiskmatið í dag er eiginlega verðlagning á fiski og kemur mjög við sjómenn þannig að það er eðlilegt að þeir hafi fyrirvara á slíku máli þegar ekkert er vitað um framkvæmdina.

Það kemur einnig fram í frv. að það sé veruleg lækkun á fjárlögum næsta árs vegna fyrirhugaðrar fækkunar, en fjárlög næsta árs miða þó við 48 millj. til stofnunarinnar. Ég tel það alldrjúga upphæð og vil beina spurningu til hæstv. ráðh.: Hvernig gekk eftir lagabreytingarnar 1984 að endurskipuleggja stofnunina og er það aðeins á þessu ári sem orðið hefur einhver árangur af þeim breytingum? Hafa þessar hugmyndir ekki verið að velkjast það lengi hjá hæstv. ráðh. að hann hefði a.m.k. getað kynnt þær eða komið þeim fyrr til hv. deildar til þess að menn hefðu yfir einn sólarhring a.m.k. til umhugsunar? Mér er ekki að skapi að vera á móti máli sem getur verið mjög gott, en það er ekki hægt að taka afstöðu stundum með svo stuttum fyrirvara. Og ég spyr líka hæstv. ráðh.: Getur hann ekki sætt sig við að gildistaka laganna frestist um hálft ár og að sett verði nefnd til að gera tillögur um hvernig að þessu verði staðið?

Ég held ég geymi mér frekari umræður um þetta mál þangað til eftir þennan tveggja tíma fund á morgun, ef við nýtum tímann alveg til fulls og göngum aðeins á tíma hæstv. ráðh. á næsta fundi, til að ræða við þá menn sem eiga eftir að vinna samkvæmt þessum lögum.