17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Í umræðunni hefur komið fram að frv. sem hér liggur fyrir er samþykkt hjá þingflokki Sjálfstfl. 24. nóv., ekki fyrr. Þrátt fyrir það er gengið frá fjárlögum með þeirri forsendu að ferskfiskmatsmönnum verði sagt upp, það verði fækkað um 43 stöður. Það eru skrýtin vinnubrögð að það sé raunverulega búið að ganga frá því á vissum stöðum og verkinu ekki haldið áfram. Það er látið liggja afskiptalaust frá því sjálfsagt í lok september og fram í seinni partinn í nóvember. En á þessum tíma er reyndar hæstv. ráðh. ekki alveg verklaus í þessu máli. Hann er að kynna það, bæði fyrir LÍÚ og fiskiþingi og líkast til þingi Sjómannasambandsins, ræða málið þar og gefa undir fótinn að þetta verði gert. Hann segir hér í ræðu sinni að það hafi verið haft samráð við þessa aðila, sem ég rengi ekki, og hann fullyrðir að þessir aðilar hafa allir verið sammála. Ég rengi það af því að það hefur alls ekki legið fyrir að sjómannasamtökin væru tilbúin að samþykkja þessa breytingu eins og hún er lögð hér til. En hitt er það að LÍÚ hefur verið tilbúið að samþykkja þessa breytingu og viljað gera jafnvel meira. Hlutirnir eru á þann veg að greinilegt er að það er nauðsynlegt að skoða þetta mál miklu betur, ræða þetta miklu betur, fjalla um það betur hjá hagsmunasamtökum og ekki aðeins í toppnum og á fundum og þingum sem hafa ekki fengið neinn undirbúning undir að um þessi mál verði fjallað á þeim fundum. Það er svipað eins og að koma með þetta mál inn á síðasta eða næstsíðasta degi þingsins og ætlast til að það verði afgreitt hér að reikna með því að eins eða tveggja daga þing geti afgreitt jafnstórt mál og þetta til fullnustu.

Ráðherra undirstrikaði reyndar í ræðu sinni á fundi LÍÚ að það væri nauðsynlegt að þetta mál væri vel undirbúið og að fjarstæða væri að ætla sér að afgreiða þetta mál án þess að það sem við ætti að taka væri skoðað. Ég ætla að leyfa mér að lesa smávegis úr ræðu hæstv. ráðh. og minna hann á hvað hann sagði þar og hvort það kemur ekki heim og saman við þá ósk okkar, sem hér höfum verið að leggja það til að málinu verði frestað og það betur skoðað.

Ég tel að flestir hv. deildarþm. séu jafnvel sammála því að ferskfiskmatið verði lagt niður og viðurkenna að á því hafi verið miklir gallar. En það borgar sig ekki að leggja það niður til að láta eitthvað óþekkt taka við.

Það sem hæstv. ráðh. sagði í sambandi við það að þessir hlutir yrðu samþykktir á fundi LIÚ var þannig, ég tek hér smákafla úr ræðu hæstv. ráðh., með leyfl hæstv. forseta:

„Í framhaldi af niðurstöðu þessa fundar“, ráðherra er á fundi LÍÚ, „verður lagt fram frumvarp á næstu vikum um að leggja skyldumat Ríkismatsins á ferskum fiski niður. Ríður því á að kaupendur og seljendur á ferskum fiski setjist niður og komi sér saman um það með hvaða hætti gæði ferskfisks skuli metinn í framtíðinni og hvaða áhrif það gæðamat hafi á fiskverð. Það er að sjálfsögðu forsenda þess að breytingin heppnist að menn komi sér saman um hvað koma skuli í stað hins eldra kerfis.“

Hvað er hægt að segja ákveðnar um að nauðsynlegt sé að koma sér saman um hvað skuli taka við þegar þetta kerfi er lagt af en það sem hæstv. ráðh. segir á fundi LÍÚ? Ég ítreka þessa skoðun. Það er nauðsynlegt áður en við göngum í að leggja ferskfiskmatið af að það sé búið að gera sér grein fyrir því hvað eigi að taka við. Það er ekki nóg að segja að hagsmunaaðilar muni koma sér saman. Það verður að ganga frá því og þeir verða að hafa tíma til þess að fjalla um þau mál áður en gengið er frá því að leggja þá aðferð niður í ferskfiskmati sem við höfum nú.