17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Aðeins til að svara þeim spurningum sem hér hafa verið fram bornar.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir, 8. landsk. þm., um hvað hefði verið gert hjá stofnuninni síðan lögunum var breytt. Það hefur vissulega margt verið gert. M.a. hefur afurðamatinu verið gjörbreytt og því komið í hendur hagsmunaaðilanna sjálfra að langmestu leyti, þó ekki síldarmatinu. Þannig hafa átt sér stað verulegar breytingar í þessari stofnun. Ég leyfi mér að fullyrða að það séu fáar stofnanir sem hafa legið undir jafnmikilli athygli og gagnrýni og þessi stofnun. Mér finnst stundum að aðrar eftirlitsstofnanir í þjóðfélaginu mættu gjarnan fá athygli t.d. þm. og ýmissa annarra. Ég verð ekki var við að Vinnueftirlit ríkisins eða hvað þær heita nú allar þessar eftirlitsstofnanir sem ganga hér í halarófu um landið, stundum sjávarútveginum til ama, séu undir mikilli gagnrýni eða aðhaldi. Ég sé ekki betur en útþensla þeirra sé stöðug og vaxandi. Því hefði ég haldið að það mundi verða fagnaðarefni að það skuli þó vera til sú stofnun í landinu sem er verið að draga saman og með því verið að minnka afskipti hins opinbera því auðvitað á hið opinbera ekki að sækjast eftir afskiptum af málum nema brýna nauðsyn beri til.

Vegna orða hv. 4. þm. Vesturl. um skoðun Sjómannasambandsins, þá kemur fram í grg. að 15. þing Sjómannasambands Íslands hafnar þeirri hugmynd að leggja Ríkismat sjávarafurða niður meðan ekki hefur komið fram nein haldbær tillaga um hvað leysa skuli Ríkismatið af hólmi. Þetta kom skýrt fram á þeim fundi sem var haldinn þann 2. okt., en síðan kemur: Þingið vísar því til sambandsstjórnar SSÍ að hún eigi frumkvæði og aðild að því að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi komi sér saman um framtíð fiskmatsins eða hvað koma skuli í stað þess. Á þessu hefur sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands tekið. Ég ætla ekki að fara að koma hér með neinar yfirlýsingar um hvað þeir hafa um þetta sagt, það er langeðlilegast að þeir geri það sjálfir, en ég veit ekki betur en að þeir geti vel fellt sig við það sem hér er að gerast.

Ég kannast mjög vel við það sem ég sagði á aðalfundi LÍÚ og þau orð standa enn. Það kemur skýrt fram í þessari grg. að hagsmunaaðilar þurfa að vinna sem best að þessu máli. Ég veit að þeir munu gera það, en ég vek athygli á því að hér er aðeins verið að afnema skylduna en það er ekki þar með sagt að það geti ekki myndast eðlilegur aðlögunartími til að standa að breytingunni á næsta ári. En til þess að breytingin geti átt sér stað, sú aðlögun hafist, verður að breyta lögum þannig að skyldan til að meta ferskan fisk verði afnumin.

Í sjálfu sér er frv. einfalt þótt ég taki undir að hér sé um afgerandi breytingu að ræða, en ég held að allir geti verið sammála um að það er langmikilvægast í því máli hvað þeir aðilar segja sem við þetta eiga að búa. Ef þeir eru sáttir við það held ég að Alþingi Íslendinga ætti vel að geta fallist á þá meðferð máls.