17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

117. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Stofnfjársjóð fiskiskipa en frv. þetta er samið skv. tillögum nefndar til að endurskoða sjóðakerfi sjávarútvegsins. Samkomulag var í þeirri nefnd um efni frv. Þar áttu sæti fulltrúar sjómanna, útgerðarmanna, fiskvinnslu og fjögurra stærstu þingflokkanna á Alþingi. Helstu nýmæli þessa frv. eru einkum þrjú en þau eru eftirfarandi:

1. Hvíli ekki skuld á skipi hjá Fiskveiðasjóði er Stofnfjársjóði skylt að greiða til skipseiganda innstæðu á reikning þess án þess að sérstaklega sé óskað eftir því. Í þessu felst m.a. að sé skip með öllu skuldlaust við Fiskveiðasjóð skuli Stofnfjársjóður ekki hlutast til um að greiða gjaldfallnar afborganir af stofnlánum skips hjá Ríkisábyrgðasjóði og Byggðastofnun. Þetta er önnur regla en gildir skv. frv. í þeim tilvikum sem skip eru í skuld við Fiskveiðasjóð. Í þeim tilvikum er gert ráð fyrir að halda megi eftir innstæðu skips til greiðslu við Byggðasjóð og Ríkisábyrgðasjóð. Þetta er skv. tillögu nefndarinnar en að sjálfsögðu má draga í efa hvort rökrétt sé að gera það á þennan hátt. En þetta var tekið til athugunar í nefndinni og niðurstaðan var sú sama.

2. Sé skip með áhvílandi lán hjá Fiskveiðasjóði, Ríkisábyrgðasjóði eða Byggðastofnun, þó ekki í vanskilum, getur skipseigandi með sérstakri beiðni fengið endurgreitt fé af stofnfjársjóðsreikningi sínum. Fiskveiðasjóði er þó heimilt að halda eftir ákveðnum hluta fjárins til greiðslu á næsta gjalddaga eftir ákveðnum hlutfallsreglum miðað við tíma frá síðasta gjalddaga.

3. Innstæða á reikningi skips hjá Stofnfjársjóði á að njóta vaxta.

Í Ed. var gerð lítils háttar breyting, en sú brtt. kemur fram á þskj. 337. Þar kemur fram að Fiskveiðasjóður skuli færa til tekna á reikninginn vexti, sem hverju sinni eru ákveðnir með hliðsjón af fjármagnskostnaði skulda er á skipum hvíla hjá Fiskveiðasjóði, í stað þess að í frumvarpsdrögunum var gert ráð fyrir að það skyldi miðast eingöngu við viðkomandi skip. Þetta er að mínu mati eðlileg breyting, en eins og frv. var flutt þegar það var lagt fram í Ed. var það flutt nákvæmlega eins og nefndin skilaði því til sjútvrn. og er þessi breyting eðlileg að mínu mati.

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.