17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

231. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Með þessu frv. er verið að reyna að koma til móts við fjárhagsvanda elli- og örorkulífeyrisþega sem skapast þegar maki þeirra vistast til langdvalar á stofnun og missir þar af leiðandi lífeyri sinn, svo og þegar maki sætir gæslu- eða refsivist sem varað hefur a.m.k. þrjá mánuði. Hér er vissulega tekið á mikilvægu máli og því ber að fagna, en ég er ekki sannfærð um að sú leið sem hæstv. heilbrrh. hefur valið til að koma til móts við þetta vandamál sé sú rétta.

Hér er farin sú leið að greiða mæðra- eða feðralaun til maka elli- og örorkulífeyrisþega. Út frá því sjónarmiði er eingöngu komið til móts við þá elli- og örorkulífeyrisþega sem eru með börn á framfæri þegar maki dvelur langdvölum á sjúkrastofnun en ekki þá elli- og örorkulífeyrisþega sem ekki hafa börn á framfæri en hafa engu að síður þunga framfærslubyrði þegar maki vistast á sjúkrastofnun til langdvalar og missir lífeyri sinn. Í þeim tilfellum getur einnig skapast mikill fjárhagsvandi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Ég nefni sem dæmi að þegar maki elli- og örorkulífeyrisþega vistast til langdvalar á sjúkrastofnun þarf makinn sem er á heimilinu engu að síður að greiða sömu húsaleigu og áður, rafmagn, hita, síma o.s.frv. sem getur orðið erfitt og kannske ekki viðráðandi þegar lífeyrir makans sem dvelst á sjúkrastofnun fellur niður.

Ég hygg að hæstv. ráðh. hafi tekið þetta mál upp í framhaldi af ábendingum landlæknis um þetta mál sem birtist í Alþýðublaðinu 13. nóv. s.l. þar sem landlæknir lýsir því hvernig margir aðstandendur langlegusjúklinga hafi leitað til landlæknisembættisins vegna þeirra aðstæðna sem upp koma þegar maki elli- og örorkulífeyrisþega vistast langdvölum á stofnun.

Ég hafði samband við landlækni og tjáði hann mér að hann hefði ekki síður átt við aðstæður maka elli- og örorkulífeyrisþega þótt barn væri ekki á framfæri einmitt af þeim ástæðum sem ég hér áður greindi frá þannig að málið er ekki nema að litlu leyti leyst með því frv. sem ráðherra nú leggur fram.

Ég tel að hægt hefði verið að leysa þetta mál með því að víkka út heimild sem er að finna í 13. gr. almannatryggingalaga um makabætur og tryggja með því við þessar aðstæður hagsmuni bæði elli- og örorkulífeyrisþega sem hafa börn á framfæri og eins þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem ekki hafa börn á framfæri en búa allt eins við slæmar fjárhagsaðstæður þegar lífeyrir maka fellur niður dveljist hann til langdvalar á stofnun. Um er að ræða ákvæði 13. gr. almannatryggingalaga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Greiða má maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 80% einstaklingslífeyris ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.“

Ég tel að þeirri lagagrein sem er að finna í frv. ráðherra hefði mátt bæta við þessa grein almannatryggingalaga og hún hefði þá hljóðað svo:

„Enn fremur er heimilt að greiða makabætur til elli- og örorkulífeyrisþega þegar svo stendur á að bætur bótaþega ganga að fullu til stofnunar sem bótaþegi er vistaður á, svo og þegar 60. gr. á við um hagi bótaþega, sbr. og 3. mgr. 14. gr."

Þessu ákvæði hefur verið beitt í þágu þeirra sem bundnir eru heima við vegna örorku eða langvinns sjúkdóms maka og geta af þeim sökum ekki aflað sér tekna. Í lagagreininni sjálfri er einungis talað um greiðslu þessara makabóta ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Án lagabreytinga hefði þessi grein líka getað náð til maka elli- og örorkulífeyrisþega við þær aðstæður sem um ræðir í þessu frv. Með breytingu á þessu ákvæði hefði verið hægt að láta þessar greiðslur einnig ná til makans væri hann sjálfur elli- eða örorkulífeyrisþegi, en eins og ákvæðið er nú fara ekki saman makabætur og lífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

Með þessari breytingu, sem ég hef hér greint frá, hefði tvennt áunnist umfram það sem er gert ráð fyrir í frv. ráðherra. Í fyrsta lagi hefði greiðslan einnig náð til maka elli- og örorkulífeyrisþega sem dvelst langdvölum á stofnun og lífeyrir hefur fallið niður af þeim sökum. Ég hef áður lýst því að þetta vandamál, sem hér er verið að leysa, getur verið eins þungbært fyrir maka elli- og örorkulífeyrisþega sem dvelst á stofnun þó að börn séu ekki á framfæri, bæði að því er varðar greiðslu á húsnæðiskostnaði og fleira, þegar tekjur annars makans falla niður.

Í öðru lagi er í frv. ráðherra um mjög lágar greiðslur að ræða sem í mörgum tilfellum mundu litlu breyta fyrir elli- og örorkulífeyrisþegann sem hefur börn á framfæri þegar lífeyrir maka fellur niður. Lífeyrir makans sem fellur niður þegar hann dvelst til langframa á stofnun getur verið nálægt 16 000 kr. Heimilið verður því af þessum tekjum. Í staðinn koma skv. frv. ráðherra greiðslur mæðralauna með einu barni rúmar 2400 kr., með tveim börnum 6488 kr. og með þremur börnum 11 507 kr. Kæmi til greiðslu makabóta, eins og ég hef hér lagt til, óháð því hvort börn væru á framfæri en aðstæður engu að síður metnar því hér er um heimildarákvæði að ræða, væru greiðslurnar í þeim tilfellum 12 300 kr. á mánuði, en makabætur eru nú 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu.

Ég tel, herra forseti, að þessa leið hefði verið eðlilegra að fara og vafalítið hefði orðið um heldur meiri útgjöld að ræða sem varla hefðu þó skipt sköpum því hægt hefði verið að meta fjárhagslegar og félagslegar aðstæður í hverju tilfelli þar sem hér er um heimildarákvæði að ræða. Hér er líka um að ræða rúmar 12 000 kr. sem máli hefðu skipt fyrir heimili sem býr við slíkar aðstæður í stað rúmlega 2400 kr. eins og er í frv. ráðherra væri um eitt barn að ræða.

Í annan stað vil ég líka benda á að ef það er hugmynd hæstv. ráðh. að láta þetta bara ná til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem hafa börn á framfæri og maka þeirra sem sæta refsivist og hafa börn á framfæri hefði verið miklu eðlilegri leið, að mínu mati, að breyta 14. gr. almannatryggingalaga sem kveður á um greiðslu barnalífeyris. Ég tel að sú leið hefði betur fallið að ákvæðum almannatryggingalaga sem fyrir eru. Í því sambandi bendi ég á að greiðsla mæðra- og feðralauna er nú bundin við einstakling, þ.e. einstæða foreldra, ekkjur og ekkla. Hér er því um einstaklingsbætur að ræða, en þeim forsendum á nú að breyta með frv. Öðru máli gegnir um barnalífeyri. Þar er um að ræða greiðslu bóta eða barnalífeyris ef börn missa annað hvort foreldri og einnig, og það skiptir máli í þessu sambandi, að barnalífeyrir er líka greiddur ef annað hvort foreldri er látið eða er örorkulífeyrisþegi, eða eins og segir í 14. gr. almannatryggingalaga:

„Heimilt er tryggingaráði að ákveða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sætir gæslu- eða refsivist, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.“

Hér getur því verið um að ræða greiðslu barnalífeyris þó báðir foreldrar séu framfærendur. Öðru máli gegnir um mæðra- og feðralaun sem bundin eru við einn framfæranda. Ég tel að sú breyting sem hæstv. ráðh. leggur hér til, þ.e. að greiða mæðraeða feðralaun til maka elli- og örorkulífeyrisþega og breyta þannig eðli greiðslna mæðra- og feðralauna, sé ekki rétta leiðin og eðlilegra hefði verið að fella þetta að ákvæðum um barnalífeyri í 14. gr. þar sem einmitt er kveðið á um greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega, svo og um greiðslu með barni þeirra sem sæta gæsluvist.

Í þessum tilfellum, sem hér um ræðir, hefði mátt greiða tvöfaldan barnalífeyri ef maki dvelst á sjúkrastofnun og lífeyrir fellur niður af þeim sökum. Barnalífeyrir er nú tæpar 4000 kr. en mæðralaun 2400 með einu barni þannig að hér hefði einnig verið um hærri bætur að ræða. Tvöfaldur barnalífeyrir hefði til að mynda gefið um 8000 kr. Þessa leið tel ég að hæstv. ráðh. hefði átt að fara ef ráðherra er á annað borð ekki samþykkur því, sem ég tel eðlilegast og best hefði leyst fjárhagsvanda þessa fólks, að fara að ákvæðum 13. gr. og greiða makabætur í þessum tilfellum.

Ég geri mér ljóst, herra forseti, að þetta mál hefur þegar hlotið afgreiðslu í Ed. og stutt lifir af þingtímanum fyrir jólaleyfi þm. þannig að vera má að erfitt sé um vik að breyta þessu í það horf sem ég hef hér mælt fyrir. Vissulega væri það þó hægt ef vilji væri fyrir hendi og vil ég hér í lokin óska eftir því við hæstv. heilbr.- og trmrh. að hann tjái sig um þær tillögur sem ég hef hér lagt fram. Telji ráðherra að athuguðu máli eðlilegra að fella þetta undir greiðslu barnalífeyris eða makabóta, sem hægt er í báðum tilfellum eins og ég hef lýst, tel ég að ekkert væri því til fyrirstöðu að nefnd sú sem fær málið til athugunar breyti því í það horf sem ég hef hér lýst.