17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér fer fram þörf umræða um skattamál sem löngu er tímabært að hv. alþm. helli sér í og hefur sú góða skýrsla, sem hér hefur oft verið vitnað til, allt of lengi legið í þagnargildi. Það er í raun og veru allsérkennilegt að hér við 3. umr. skattalaga fyrir næsta ár skuli fyrst vera tekin á þessu almennileg rispa. Tilefnið er auðvitað sérstakt. Hæstv. ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluti hér á hinu háa Alþingi hefur bætt einni skrautfjöðrinni enn við sína skattastefnu með því að fella brtt., sem fluttar voru hér og gengu til atkvæða í dag, sem eru í beinu framhaldi, í rökréttu samhengi við niðurstöður skattanefndarinnar sem skilaði skýrslu og lögð var fram á Alþingi hinn 18. apríl s.l., fyrir réttum 8 mánuðum síðan eftir tæpar tvær klukkustundir.

Ferill þessarar hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum er að verða allskrautlegur og það er alveg ástæða til þess að rifja hann að nokkru leyti upp hér. Fyrstu umtalsverðu skattalagabreytingar hæstv. ríkisstjórnar voru að létta álögum af fyrirtækjum og eignamönnum í landinu. Þetta liggur fyrir skjalfest. Í þeim efnum voru í raun og veru skattalög ekki einfölduð heldur gerð flóknari með því að bæta við sérstökum frádráttarliðum fyrir fyrirtækin og fella niður aðra tekjustofna af þeim.

Í öðru lagi liggur enn fremur fyrir skjalfest, m.a. var það staðfest af hæstv. fjmrh. í sjónvarpsþætti í gærkvöldi, að hlutdeild ríkisins, opinber útgjöld eru hin sömu ef ekki hærri af þjóðartekjum og þau voru þegar hæstv. ríkisstjórn tók við. Það liggur því ljóst fyrir að einhverjum hefur verið gert að borga mismuninn, þann mismun sem skapast vegna þess að álögum hefur verið létt af fyrirtækjunum og hins að ríkisútgjöldin eru hin sömu og áður voru. Þessi mismunur hefur ósköp einfaldlega verið innheimtur hjá almenningi, hjá hinum almenna skattgreiðanda. Þetta liggur einnig ljóst fyrir, enda er það staðreynd að skattbyrði einstaklinga hefur þyngst í tíð þessarar ríkisstjórnar, sérstaklega nú á síðasta ári.

Þrátt fyrir þennan skrautlega feril og niðurstöður skattanefndarinnar fellir stjórnarmeirihlutinn brtt. eins og 4. brtt. á þskj. 342 um að ríkisskattstjóri skuli setja sérstakar reglur um takmörk fyrir því að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækja eða starfsmanna, sem óheimilt er að telja til rekstrarkostnaðar, og með ekki burðugri rökum en hv. 2. þm. Norðurl. e. reyndi að hafa í frammi. Það liggur nefnilega ljóst fyrir, það er almennt viðurkennt og ég held að ekki eitt einasta mannsbarn sé svo bláeygt að trúa fullyrðingum hv. 2. þm. Norðurl. e. um að þetta sé allt í himnalagi vegna þess að í skattalögum séu einhver ákvæði sem hægt sé að nota í þessum efnum. Ef svo er eru þau ákvæði ekki nógu góð og þá sýnist mér full þörf á að gefa skattayfirvöldum, ríkisskattstjóra eða öðrum slíkum aðilum, lagastoð til að setja ítarlegri reglur, nánari reglur til að tryggja skil í þessum efnum og koma í veg fyrir undandrætti.

Satt best að segja voru tilburðir hv. þm. til að gera lítið úr málflutningi annarra þm. og sérstaklega stjórnarandstæðinga harla broslegar. Hann sakaði þá hv. þm. sem hér hafa talað um að hafa ekki sett sig inn í málin og fara með bull og fleipur, en var svo sjálfur staðinn að því að kunna ekki þá skýrslu, sem hér hefur verið sérstaklega til umræðu, betur en svo að fullyrða að þar væri ekki minnst á það, þar væri því ekki haldið fram að það þyrfti að breyta skattalögum og setja skýrari reglur til að koma í veg fyrir skattsvik, ólöglega undandrætti, m.a. hvað þennan tiltekna lið varðar, persónulega eyðslu og risnu sem sett er undir rekstrarkostnað fyrirtækjanna og þannig dregur úr skattskyldum tekjum þeirra. Ég vil því vitna í skýrsluna, m.a. bls. 9 þar sem saman eru dregnar helstu niðurstöður nefndarinnar í stuttu og aðgengilegu formi og ætti því ekki að vera ofviða sæmilega læsum mönnum að kynna sér. Þar segir sérstaklega í lið 1.2.4:

„Helstu ástæður skattsvika teljum við vera þessar:

a. Flókið skattkerfi með óljósum mörkum milli hins löglega og ólöglega. Frádráttar- og undanþáguleiðir íþyngja mjög framkvæmd skattalaga og opna margvíslegar sniðgönguleiðir.

b. Skattvitund almennings er tvíbent og verður óljósari eftir því sem einstök skattaleg ívilnunarákvæði einstakra hópa aukast og skatteftirlitið versnar.“

Og síðan má fletta yfir á bls. 10 þar sem nefndin telur upp helstu tillögur sínar til úrbóta. Þar segir í lið 1.3.1.a.:

„Einfalda þarf skattalögin, fækka undanþágum og afnema margs konar frádráttarliði þannig að skattstofnar verði skýrir og afmarkaðir og greiðsluskylda auðreiknanleg.“ Út á þetta m.a. gengu sérstaklega brtt. sem hér voru fluttar í dag, að afnema frádráttarliði, sbr. 1. og 2. brtt. á þskj. 342, og setja reglur um annað, sbr. 4. lið, þar sem menn hafa ástæðu til að ætla að undan sé dregið eða með óheimilum hætti fært undan tekjum fyrirtækjanna.

Ég er, herra forseti, enginn sérstakur skattalagasérfræðingur. Þó ég gæti talið fram fyrir sjálfan mig tel ég ekki að ég sé sérfróður á þeim sviðum. En ég leyfi mér engu að síður að hafa skoðun á þessu máli og það hefur almenningur í landinu. Ég held að það þurfi ekki að ræða við marga menn á götunni til þess að sannfærast um að í vitund almennings eru það ekki síst slíkir hlutir, sem við höfum gert hér að umtalsefni, sem stinga í augun. Einhver skýring er á því, herra forseti, að mikill meiri hluti fyrirtækja í landinu greiðir engan tekjuskatt og að sjálfstæðir atvinnurekendur upp til hópa greiða engan skatt eða svo lítinn að þegar gerð er á því könnun, eins og ágætt landsmálablað á Ísafirði gerði eftir að síðasta skattskrá kom út, kemur í ljós að þar í plássi greiddi tiltekinn hópur sjálfstæðra atvinnurekenda mun lægri tekjuskatt en hliðstæður fjöldi einstæðra mæðra á staðnum. Á þessu hlýtur að vera einhver skýring og á hinu að fyrirtækin í svo miklum meiri hluta lenda ekki í tekjuskatti. Hún er án efa til komin m.a. vegna slíkra hluta. Hvað sem hv. þm. Halldór Blöndal segir stríðir þetta gegn almennri vitund manna. Ég held að almannarómur ljúgi ekki hvað þetta varðar, allra síst í minni byggðarlögum þar sem nánast allir þekkja alla og það fer ekki fram hjá neinum hvernig lífsafkoma manna er og hvað menn veita sér í hinum margvíslegasta munaði. Það er almennt viðurkennt að allt of óljós mörk eru á milli persónulegrar reynslu ýmissa forráðamanna bæði hvað varðar beina eyðslu og önnur útgjöld, svo sem risnu sem ekki er eðlilegt að talin sé undir kostnað fyrirtækjanna. Þannig held ég að hv. þm. Halldór Blöndal, sem gerir sig hér að sérstökum skattalagasérfræðingi og telur sig þess umkominn að dæma ræður annarra hv. þm. sem hið mesta bull, verði að rökstyðja talsvert betur að ekki sé þörf á neinum úrbótum, að lögin séu fullnægjandi eins og þau eru og þetta sé allt í himnalagi, en öðruvísi var málflutningur hans tæpast skilinn áðan. Ég held því að það væri full ástæða til að menn endurskoðuðu hug sinn, m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hefur verið vitnað til úr nefndri skýrslu um skattsvik, hvort ekki sé ástæða til að breyta lögunum og færa inn í frv. brtt. sem væru í samræmi við niðurstöður skattsvikanefndarinnar og helstu tillögur nefndarinnar til úrbóta. Það er eins og mig rámi í að hæstv. fjmrh., sem er hér á faralds fæti og bregður fyrir í dyrum öðru hverju en gefur sér ekki tíma til að sitja undir þessari umræðu um skattalög, hafi sagt í sjónvarpsþætti í gærkvöld að hann hygðist beita sér fyrir því og það væri verið að vinna að því að nánast allar tillögur nefndrar skattsvikanefndar næðu fram að ganga, utan ein sem hann sérstaklega tiltók og varðaði skipulagsbreytingar innan skattakerfisins, á næstunni. Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvað með þessar helstu tillögur eins og hér hefur verið vitnað til um að einfalda skattalögin, fækka undanþágum og setja skýrari reglur um ýmsa frádráttarliði? Á að afgreiða þetta frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt án þess að taka þær að nokkru leyti til athugunar og hvaða framtíð var hæstv. fjmrh. að tala um þegar hann var að vitna til þess að tillögur nefndarinnar yrðu framkvæmdar?

Herra forseti. Væri ekki kristileg venja að hæstv. fjmrh. heiðraði okkur með nærveru sinni öðru hvoru ef maður skyldi vilja beina til hans orðum sínum? Ég þarf ekki að gera það í þessari ræðu minni, en það kann að vera að ég komi upp aftur áður en 3. umr. lýkur. Ég mælist til þess við virðulegan forseta að hann láti kanna hvort helstu hagsmunaaðilar ríkisstjórnarinnar á sviði skattamála megi ekki vera að því að heiðra okkur með nærveru sinni að verulegu leyti í kvöld þannig að greiða megi fyrir framgangi þessarar umræðu. (Forseti: Forseti mun verða við því að hafa samband við fjmrh.)