17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér var í stól fyrr í kvöld hv. þm. Halldór Blöndal og hann lýsti því yfir að það væru nægar heimildir í lögum til að innheimta skatta á réttlátan hátt af fólki og fyrirtækjum og það væru nægar heimildir í lögum til að koma í veg fyrir að menn styngju undan. Þar með hefur hv. þm. þvegið hendur sínar, þ.e. löggjafarsamkomunnar, en hvers vegna, hv. þm., birtist okkur þá skýrsla eins og sú sem hefur verið vikið að fyrr í kvöld sem er úttekt á skattsvikum, skattsvikaskýrsla svokölluð? Hvers vegna birtist hún? Þá er ekki um margt að ræða. Ef það eru nægar heimildir í lögum gæti í fyrsta lagi vantað reglugerðir til að teygja heimildir til að stýra framkvæmdinni. Ef það vantar reglugerðir er skömmin ráðherrans. Kannske vantar starfsreglur. Kannske er skömmin ríkisskattstjórans. Kannske vantar að það sé almennilega staðið að framkvæmdinni sjálfri úti á vígvellinum. Kannske er skömmin skattstjóranna.

Það er kannske sama hvers skömmin er þegar þinginu sjálfu sleppir. Alltaf ber það að sama brunni að boltinn er þá hjá fjmrh. sem er yfirmaður þessa kerfis. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur lýst því yfir að það séu nægar heimildir laga, að löggjafarsamkundan hafi staðið við sitt. Hann segir þá að það séu fjármálaráðherrar sem ekki hafi staðið í stykkinu og það sé vegna vanefnda þeirra sem ástandið í skattamálum er þannig að skattsvikaskýrslan er til komin. Hv. þm. Halldór Blöndal ásakar fjmrh. um afglöp. Hv. þm. er beinlínis að gera árásir á fjmrh. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur þar með ráðist að Albert Guðmundssyni, sem var fjmrh. í byrjun starfstímabils þessarar ríkisstjórnar og sem er oddamaður Sjálfstfl. í stærsta kjördæmi landsins og einn af mestu áhrifamönnum flokksins, og með þessari ályktun sinni veitist hann sömuleiðis að núv. fjmrh. og formanni flokksins og oddvita hans á landsvísu. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur sagt: Það er allt í lagi með þessi mál af hálfu þingsins. Það sem á vantar er að framkvæmdarvaldið standi við sinn hlut. Hvort sem það er vegna reglugerða eða skorts á reglugerðum, skorts á starfsreglum eða skorts á harðfylgi þeirra sem þessum lögum eiga að fylgja er hv. þm. búinn að segja: Hvar kreppir? Vanræksla ráðherra. Og hann beinir spjótunum að tveimur valdamestu mönnum flokksins. Hann beinir spjótunum að oddamanninum í Reykjavík og oddamanninum á landsvísu, fjmrh. flokksins í núv. ríkisstjórn, og hann segir: Þeir hafa brugðist í skattamálinu vegna þess að við þm. höfum gefið þeim næg tæki, næg tól, en svo fáum við svona skýrslu í hausinn. Og hv. þm. Halldór Blöndal lætur kné fylgja kviði. Hann krefur formann fjh.- og viðskn. um meiri litteratúr. Hann krefst þess að fá bréf frá skattstjórum. Hann krefst þess að skattstjórar landsins beri vitni í þessu máli.

Reyndar er kominn í salinn hv. þm. Páll Pétursson, formaður fjh.- og viðskn., sem beint var til orðum fyrr í kvöld. Ég spyr hv. þm. Pál Pétursson, og ég óska að hann svari hér í stól á eftir, hvort hann muni fara að kröfu hv. þm. Halldórs Blöndals, hvort hann muni skrifa skattstjórum landsins og krefjast skýlausra svara um hvort ástandið í skattamálum, hvort skattsvikaskýrslan sé til komin vegna vanrækslu löggjafarsamkundunnar eða vanrækslu framkvæmdarvaldsins. Úr þessu verður að skera. Við verðum að vita hvort það vantar lög eða hvort það vantar framkvæmd. Ég tek undir þá kröfu hv. þm. Halldórs Blöndals að um þetta sé aflað vitneskju, að skattstjórar landsins beri vitni í þessu máli skriflega fyrir fjh.- og viðskn. sem þar með mundi sinna því hlutverki þingsins að fylgjast með framkvæmd laga. Ég tek undir með þeirri kröfu hv. þm. að þeim sé svarað og ég óska þess að hv. þm. Páll Pétursson, formaður nefndarinnar, noti tíma sinn nú þegar, áður en þingi lýkur, og ef það verður ekki hægt taki hann, eins og ég sagði áðan, tíma frá búsmala sínum milli hátíða og skrifi skattstjórunum og fái þessar upplýsingar. Ég óska þess að formaður nefndarinnar svari þessu á eftir og kvitteri þar með fyrir því að hafa móttekið þessi skeyti. Þar með getum við þm. vænst þess að fá úr því skorið hvort það vantar að þeirra mati lög eða hvort það vantar betri framkvæmd. Við verðum að vita hvar vanrækslan er. Reyndar eru þeir sem gera þessa skýrslu ekki í neinum vafa um það. Þeir telja á mörgum stöðum að það vanti skýrari lög og skýrari ákvæði til þess að það sé hægt að fylgja þessum málum þannig eftir að það traust og sá trúnaður, sem fólk þarf að hafa á þessu mikilvæga kerfi, fjáraflakerfi samfélagsins, sé varðveitt. Þeir sem skýrsluna gerðu telja að það vanti m.a. lög. Ég held því að það sé fyllsta ástæða til að hnykkja á í lagasetningunni og þess vegna greiddi ég atkvæði í dag með till. hv. þm. Svavars Gestssonar.