17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Það er gott að hafa hreinan skjöld eins og síðasti ræðumaður. En mér finnst hann ekki afar hreinn þegar hann veit ekki um hvað hann er að tala. Hann spyr forseta: Var ég ekki að ræða um þetta? ef ég hef skilið það rétt. Þetta líkar mér ekki.

Mér líkar heldur ekki að svo sé þvælst fyrir málum að það sé nánast ekki fundarhæft í þingsölum af því að ræðumenn séu að fafla. Ég verð að segja hreinlega að ég get einn ekki setið undir því að menn tali tóma staðleysu og vitleysur. En látum það vera.

Þar sem ég er orðinn nokkuð aldraður vil ég spyrja hæstv. forseta: Ég hef margsinnis rétt hér upp hendi að ónytju vegna þess að það eru ekki nógu margir í salnum. Í gömlum reglum frá Alþingi stendur að menn eigi að rétta upp hægri hönd. Það stendur þar. Nú á ég bágt með þetta stundum vegna þess að ég hef gigt í hægri öxl. Eru það nokkur afglöp að ég rétti upp vinstri höndina? Mér er satt að segja illa við það þó.