17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjálfsagt er að svara hv. þm. Svavari Gestssyni. Hann mun sitja í hliðarsal, er það ekki?

Ríkisstjórnin hefur vissulega tekið skattsvikaskýrsluna alvarlega og rætt um aðgerðir til að draga úr skattsvikum. Tilbúið er hjá hæstv. dómsmrh. frv. um stórhert viðurlög við skattsvikum sem gert er ráð fyrir að lagt verði fram á hinu háa Alþingi strax þegar þing kemur saman. Sömuleiðis starfa embættismenn að endurskoðun skattalaganna, ekki síst með tilliti til þeirra ábendinga sem fram koma í skattsvikaskýrslunni, þ.e. með það markmið að fækka mjög undanþágum og gera þær einfaldari eða m.ö.o. í fullu samræmi við ábendingar þeirrar nefndar sem vísað hefur verið til og kölluð hefur verið skattsvikanefndin. Þessi ríkisstjórn, þótt hún hafi ekki hv. þm. Svavar Gestsson innan borðs, hefur svo vissulega tekið á þessum málum og mun gera það og frv. verða flutt til að fullnægja þeim ábendingum sem koma fram í umræddri skýrslu.