17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér hafa orðið miklar og ótrúlega markvissar umræður um skattsvik og hefur verið mikið vitnað til skýrslu sem unnin var fyrir fjmrh. Þetta er fróðleg og merkileg skýrsla og verðugt umræðuefni. Það hefur verið farið fram á að ég kallaði til fundar alla skattstjóra í landinu. Ég hygg að skattstjórar séu sofnaðir og ég mun lofa þeim að sofa í nótt, en kl. hálfníu í fyrramálið hef ég boðað til fundar í fjh.- og viðskn. og vona þá að við höfum náð að ljúka þessum fundi og þar mun ég taka fyrir þær óskir sem fram hafa komið hér í umræðunum. Verði niðurstaða nefndarinnar sú sem ég vænti mun ég sem formaður nefndarinnar og í umboði hennar kalla til skattstjóra til viðræðna við nefndina. Ég get vel hugsað mér að nefndin fari vandlega ofan í þessa skýrslu því að ég held að hún sé slík að það sé ástæða til að ræða hana og ræða hana við sérfræðinga og síðan að breyta lögum á víðtækan hátt í framhaldi af þeim umræðum. Við eigum ekki að líða skattsvik og eigum að refsa fyrir þau. Ég tel t.d. að mjög sterklega komi til greina, ef um alvarleg og ítrekuð brot er að ræða, að svipta menn atvinnuleyfi fyrir skattsvik. Ég held að það yrðu engir ánægðari en við stjórnarsinnar ef það tækist að ná til skattsvikaranna því að ríkissjóð vantar nefnilega peninga á næsta ári og það er nauðsynlegt fyrir okkur, unnendur ríkissjóðs að reyna að drýgja tekjur hans sem mest. En ég vona, af því að við þurfum margt annað að gera í kvöld en ræða þetta frv., og vænti þess í allri vinsemd að þessari umræðu geti farið að ljúka.