17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Í svari sínu áðan gaf hæstv. fjmrh. í skyn að í rauninni hefði þinginu eiginlega verið ljóst að sá húsnæðisfrádráttur sem ég gerði að umtalsefni mundi ekki koma til framkvæmda vegna þess að nefndin hefði skilað af sér tillögum sínum, sem hér hefðu síðan verið til afgreiðslu, án þess að þetta atriði væri þar inni. En það er einmitt tekið fram í skýrslu nefndarinnar að hún eigi eftir að fjalla um þetta atriði. Það er tekið fram í fskj. með frv. til l. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér er vitnað til. Þar segir nefnilega:

„Nefndinni var skammtaður naumur tími til starfa og tók hún því í upphafi þá ákvörðun að einbeita sér að athugun á þeim hluta húsnæðissamkomulags samningsaðila sem lýtur að breytingum á hinu opinbera húsnæðislánakerfi og samningu tillagna um það efni.“

Síðan segir: „Í framhaldi af þessu mun nefndin fjalla um aðra þætti húsnæðissamkomulagsins og stefnir að því að ljúka gerð tillagna um þau efni hið allra fyrsta.“

Þetta var það sem hv. deild, hv. þm. höfðu fyrir sér þegar frv. til l. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var samþykkt á sínum tíma, að afstöðu og tillagna mundi vera að vænta um önnur atriði húsnæðissamkomulagsins. Það var forsenda undir þeirri afgreiðslu sem hér fór fram. Þess vegna verður því með engu móti haldið fram að þingið hafi talið að þetta mál væri úr sögunni. Þvert á móti kemur skýrt fram að að þessu máli eigi að vinna. Og í samkomulaginu eins og það var á sínum tíma er tekið fram að þetta skuli taka til ársins 1986. Og það er tekið fram í samþykkt ríkisstjórnarinnar og bréfi ríkisstjórnarinnar að hún fallist á grundvallaratriði þeirra hugmynda sem fram koma í yfirlýsingu samningaaðila. Þannig hefur enginn átt annars að vænta samkvæmt þessu en að staðið yrði við þetta fyrirheit.