17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir er flutt vegna þess að hér er þess enn á ný farið á leit við hv. Alþingi að framlengt verði bráðabirgðaákvæði það sem er í niðurlagi laganna um heilbrigðisþjónustu frá 1983, en hv. alþm. kannast við að þetta ákvæði hefur verið framlengt hvað eftir annað vegna þess að Reykvíkingar hafa ekki verið tilbúnir að láta lögin um heilbrigðisþjónustu að því er fyrirkomulag heilsugæslu varðar taka gildi til fulls hér í borginni. Menn hafa ekki verið tilbúnir til þess að afnema í einni svipan það fyrirkomulag sem gildir um heimilislækna samkvæmt svokölluðu númerakerfi á vegum sjúkrasamlagsins. Vegna þess að önnur skipan hefur ekki verið ákveðin enn er þetta frv. flutt og bundið við áramót, en ég vil geta þess í þessu sambandi að tilbúið er til flutnings frv. um heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Það var unnið í tíð forvera míns, hæstv. núv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar. Það gerði ráð fyrir að verulega aukið vald væri fært til sveitarfélaga á þessu svæði í þessum efnum og opnað svigrúm fyrir sveitarfélögin til að semja við einkaaðila til að leysa þessi verkefni af hendi. Þetta frv. hafði ég hugsað mér að leggja fram sem næst því í óbreyttri mynd frá því sem það hafði verið unnið fyrir forvera minn þannig að Alþingi gæfist kostur á að fjalla um það mál og gera hugsanlega þær breytingar á því sem mönnum sýndust nauðsynlegar, en það er ljóst og var ljóst fyrir nokkru að þetta gæti ekki orðið fyrir áramót og því er nauðsynlegt að fá heimild Alþingis til að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði á meðan svo stendur. Ég mun leggja frv., sem ég nefndi, um heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu fram strax þegar Alþingi kemur saman á ný, er. að svo búnu máli legg ég til að frv. þessu verði hraðað í gegnum þingið, eins og raunar hefur gerst ár eftir ár, og leyfi mér, herra forseti, að leggja til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.