17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég er alveg sammála ráðherranum um að menn ættu að skoða hug sinn vel í þessum efnum. Það er ekkert víst að það henti endilega sama fyrirkomulag á heilbrigðisþjónustu á þessu svæði og mönnum hefur fundist henta úti um land.

Það er annað sem gerist líka. Eftir því sem árin líða koma upp nýjar hugmyndir, bæði hugmyndir um gerbreytingu og hugmyndir um minni háttar breytingar á þessum efnum. Þess vegna er eðlilegt að menn vilji skoða hug sinn. Það er fullkomlega eðlilegt að menn spyrji núna hvort til þess komi yfirleitt nokkuð að heilbrigðisþjónustan á Reykjavíkursvæðinu verði færð til þess forms sem gert var ráð fyrir 1983.

Það er önnur hugsun sem leitar stundum á menn þegar svona mál koma upp hér í þinginu eins og núna um heilbrigðismál. Það er að við höfum fleiri dæmi um svona mál sem ekki vinnst tími til að vinna í og ekki fæst mikill tími til að tala um. Það er nefnilega orðið svo að eina umræðuefnið í pólitík á Íslandi er efnahagsmál. Mál sem eru um annað, mál sem eru af ýmsum félagslegum toga ýmist vekja ekki áhuga eða fást ekki unnin vegna tímaskorts eins og kallað er. Þetta er kannske það sem við fengum forsmekk af í máli hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar í viðtali á sjónvarpsstöð um daginn þar sem hann lýsti því að helstu viðfangsefni næstu ríkisstjórnar yrðu þau sem þessi ríkisstjórn hefði aldrei nennt að sinna, þ.e. mál af ýmsum félagslegum toga, skólamál, heilbrigðismál, tryggingamál kannske og e.t.v. var hæstv. forsrh. að tala um húsnæðismálin undir rós sem virðast þessa dagana aldeilis þurfa rækilegrar endurskoðunar við.