17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

258. mál, norræn fjárfestingarlán

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingarverkefna. Með lögum nr. 77 frá 19. maí 1982, um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna, var ríkisstjórninni fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að ábyrgjast hluta Íslands, allt að fjárhæð 2 millj. 830 þús. SDR, gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna fjárfestingarlána og ábyrgða til verkefna utan Norðurlanda. Á grundvelli laganna gerði Ísland ábyrgðarsamning við bankann í júní 1982. Vegna aukinna umsvifa samþykkti ráðherranefnd Norðurlanda hinn 30. maí 1986 að gera breytingar á samþykktum bankans þannig að hækka mætti þá upphæð sem bankinn gæti veitt vegna fjárfestingarlána og ábyrgða til verkefna utan Norðurlanda úr 350 millj. í 700 millj. SDR fyrir Norðurlönd í heild. Á grundvelli samþykkis Alþingis er að því stefnt að gera nýjan ábyrgðarsamning Íslands og bankans það tímanlega að hann geti tekið gildi 1. jan. 1987. Önnur Norðurlönd hafa þegar samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja tekið ákvarðanir um þetta efni og miða þær við að gildistakan geti orðið 1. jan. n.k. Fyrir því er þess sérstaklega vænst að hv. þingdeild geti greitt fyrir framgangi málsins þannig að það geti hlotið afgreiðslu fyrir jólaleyfi þm.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.