18.12.1986
Sameinað þing: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

185. mál, kaupleiguíbúðir

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þm. Alþfl. flytja hér till. um nýjan kost í húsnæðismálum, um aukið valfrelsi í húsnæðismálum milli séreignar og leigu. Við erum þeirrar skoðunar að þessi kostur, sem reynst hefur vel víða í grannlöndum okkar, henti sérstaklega vel ungu fólki og öldruðu og þá sérstaklega að því er varðar hugmyndir okkar um þjónustuíbúðir aldraðra og nýjar leiðir við fjármögnun þeirra. Við erum einnig þeirrar skoðunar að þessi nýi kostur í húsnæðismálum geti þýtt bætta nýtingu þess fjármagns sem varið er til húsnæðismála og vísa ég þá til óhóflegrar stærðar íbúðarhúsnæðis á undanförnum árum. Ég vek líka athygli á því að þessar till. eru settar fram með hliðsjón af mati okkar á mismun á ævitekjum einstaklinga og fjölskyldna og hins vegar útgjaldaþörf, þ.e. að miðað við ástand mála í húsnæðismálum hjá okkur er útgjaldaþörfin mest, að binda mikið fé og reisa sér hurðarás um öxl við skuldbindingar til lána vegna húsnæðisöflunar, einmitt á þeim tíma þegar fjölskyldan er ung og tekjuöflun minni en verður síðar á ævinni.

Ekki er ég hissa á því út af fyrir sig þó till. af þessu tagi veki upp mikla andstöðu og hv. 2. þm. Norðurl. e., ættarlaukur Engeyjarættar í pólitík, skemmti okkur með því að fara hamförum gegn þessum till. á þingi nú nýlega. Röksemdir hans eru víst aðallega tvenns konar. Fyrri röksemdin er með vísan til Hávamála um að það sé eðli eyjaskeggja að vilja vera sinn eigin herra, en hin röksemdafærslan er sú, eins og fram kemur af greinaflokki hv. þm., að leiguíbúðir hafi ekkert aðdráttarafl hjá ungu fólki, eins og hann orðar það af alkunnri málvísi sinni. Í raun og veru stendur og fellur allur hans rökstuðningur með þessum tveimur fullyrðingum, að séreignastefnan sé eðlisgróin Íslendingum og í annan stað að það sé engin þörf fyrir leiguíbúðir og að þær hafi ekkert aðdráttarafl fyrir ungt fólk.

Nú vill svo til, herra forseti, að um þetta þarf ekkert að deila. Fram hafa farið þrjár kannanir að undanförnu um þetta mál. Í fyrsta lagi könnun Félagsvísindastofnunar þar sem spurt var: Hver eftirtalinna atriða telur þú brýnast að leggja áherslu á í húsnæðismálum landsmanna á næstunni? og eru taldir upp fimm kostir. Niðurstaðan er sú, eins og þar segir, að 26,3% aðspurðra setja búseturéttaríbúðir eða almennar leiguíbúðir á oddinn meðan 29,2% telja einkabyggingar mikilvægastar.

Í annan stað hefur farið fram sérstök könnun á vegum framtíðarnefndar forsrn. á því hverjum augum ungt fólk um tvítugt lítur eigin framtíð og þar á meðal hvaða leiðir það vill fara í húsnæðismálum, aldurshóparnir 17-23 ára í framhaldsskólum sem og ungra félagsmanna í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Niðurstöðurnar eru þessar: Samanlagt 43% framhaldsskólanema, 46% ungs verslunarfólks telur byggingu leiguíbúða eða búseturéttaríbúða mikilvægasta framtíðarverkefni í húsnæðismálum.

Þriðja könnunin hefur nýlega verið birt í fréttabréfi Húsnæðisstofnunar. Þar er um að ræða könnun Húsnæðisstofnunar á þörf fyrir leiguíbúðir þar sem niðurstaðan er sú að það vanti 2500-3000 leiguíbúðir fram til ársins 1990. Þetta eru lokaniðurstöður úr könnun Húsnæðisstofnunar ríkisins á leiguíbúðaþörf og könnunin er gerð í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins í febrúar s.l.

Þörfin er nokkuð mismunandi eftir sveitarfélögum, en ég vek athygli manna sérstaklega á því að t.d. í Norðurlandskjördæmum, Austurlandi og Suðurlandi var þörfin nálægt meðaltali 10-13 íbúðir á hverja 1000 íbúa. Ef litið er á höfuðborgarsvæðið virðist þörfin vera um 640 íbúðir, en um 900 íbúðir ef litið er á þarfir almannasamtaka sem láta uppi slíkar óskir.

Sér í lagi er þetta rökstutt með því á landsbyggðinni að þar er vísað til þarfa atvinnulífsins og á nokkrum stöðum taka menn svo djúpt í árinni að leiguíbúðaskortur standi öllu atvinnulífi fyrir þrifum á viðkomandi stað. Þar er fullyrt að leiguíbúðaskortur komi í veg fyrir að ungt fólk setjist að í byggðarlaginu og veigri sér við að setjast þar að af ótta við versnandi atvinnuástand og vilji því ekki binda fé sitt til að byrja með í húsnæði.

Þessar upplýsingar gera út af við meginmálflutning hv. þm. Halldórs Blöndals. Það er m.ö.o. hin mesta firra og öfugmæli að ekki sé þörf fyrir leiguíbúðir og hin mesta firra og öfugmæli að það sé með vitnun til Hávamála eðlisgróið Íslendingum að menn vilji ekki líta á þann kost sem leiguhúsnæði, skipulagt með skynsamlegum hætti fram í tímann út frá fjármögnunarhlið, býður fólki upp á.

Önnur meginröksemd hv. þm. er sú að tillögur um fjármögnun leiguíbúða feli í sér mismunun milli skattgreiðenda. Þetta er á vissan máta öfugmæli líka. Ef við lítum á þróun húsnæðismála er það alveg ljóst að á undanförnum árum hafa það verið leigjendur, sem engan þátt eiga í eignamyndun vegna lánveitinga, sem hafa greitt niður verulegan hluta af íbúðaöflun annarra sem hafa jafnvel fengið niðurgreidd lán til að byggja sér gífurlega stórt íbúðarhúsnæði. Þannig er ljóst að tekjutap ríkissjóðs vegna vaxtafrádráttar af íbúðabyggingum sem hafa verið jafnvel af stærðinni 250 upp í 500 m2 er gífurlegt, hleypur á hundruðum milljóna. Eignamyndunin kemur auðvitað í hlut þessara aðila, en það er m.a. það fólk sem ekki nýtur skattaívilnana vegna vaxtafrádráttar, leigjendur m.ö.o., sem ber kostnaðinn.

Þá er á það að líta að hingað til hafa sveitarfélög að sjálfsögðu ekki veigrað sér við því að leggja fram fé til að koma upp félagslegu íbúðarhúsnæði. Það á bæði við um verkamannabústaði og það á við um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Gallinn er bara sá að verkamannabústaðakerfið er í molum. Það er allt of lítið byggt af því og það er ekki staðið við markmiðslýsingu laga um að allt að þriðjungur íbúðarhúsnæðis skuli vera í félagslegu formi. Sér í lagi er ástæða til þess að vekja athygli á því að lánstími vegna leiguhúsnæðis ætti raunverulega að vera lengri en lána vegna séreignar þegar af þeirri ástæðu að leigjendur njóta ekki skattívilnana vegna vaxtafrádráttar, enda mun það vera víðast hvar svo. Þess vegna þyrfti þegar í stað að breyta því og lengja lánstímann. Það er líka eðlilegt að fjármögnun leiguhúsnæðis beri lægri vexti en lán til öflunar á eigin húsnæði vegna þess að vaxtafrádráttar nýtur ekki.

Herra forseti. Tími minn er víst því miður búinn að þessu sinni. Ég vil að lokum aðeins segja að þótt hv. þm. Halldór Blöndal hafi þessar sérskoðanir á húsnæðismálum á það ekki við um alla sjálfstæðismenn. Ég nota tækifærið til að rifja það upp að árið 1983 flutti hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, virðulegur forseti vor, tillögu ásamt með öðrum þm. Sjálfstfl. um sérstakt átak í byggingu leiguíbúða og gerði það eftir að hafa tekið mjög ljúfmannlega viðræðum fulltrúa Búseta t.d. þar sem sýnt var fram á þörf fyrir slíkt húsnæði. Ég leyfi mér þess vegna í allri vinsemd að láta í ljós þá von að sérskoðanir hv. þm. Halldórs Blöndals í þessum málum endurspegli ekki endilega meirihlutaskoðun þeirra sjálfstæðismanna og má kannske hnykkja á því með því að segja að reiði hv. þm. er auðvitað sprottin af öðru en beinlínis húsnæðismálafstöðu hans. Alkunna var að þeir sjálfstæðismenn voru miklir andstæðingar verkamannabústaða á sínum tíma. Það var ekki fyrr en Sjálfstfl. lét af fjandskap sínum við það byggingarform, félagslegar íbúðir, að honum tókst að afla sér fjöldafylgis. Nú vill svo til að ættarlaukur Engeyjarættar, með því að fara hamförum gegn slíkum sjónarmiðum, verður m.a. valdur að því að fylgi Sjálfstfl. fer þverrandi og það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Það er hætt við því að hempa þeirra miklu leiðtoga, Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, klæði illa slíkan mann.