18.12.1986
Efri deild: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Í frv. til fjárlaga var tekið fram að stefnt væri að lækkun tekjuskatts á næsta ári. Áætlað var að lækka tekjuskatt samkvæmt þessari stefnumörkun um 300 millj. kr. Með því frv. sem hér er til umræðu er að því stefnt að fullnægja þessu markmiði. Samkvæmt þeim áætlunum sem Þjóðhagsstofnun gerði var reiknað með að meðaltekjubreyting á milli áranna 1985-1986 yrði 31%. Þessi tala hefur nú breyst við endurskoðun þjóðhagsáætlunar og mat á tekjubreytingum og er 34-35%. En við þær aðstæður sem við búum nú, þ.e. mjög mismunandi launabreytingar milli tekjuára, er erfitt að ákveða skattvísitölu sem leiðir til óbreyttrar skattbyrði. Því var gripið til þess ráðs að gera tillögur um breytingar á skatthlutföllum og skattstigum til þess að ná því marki sem hér er að stefnt. Í meðferð hv. Nd. hefur tillögum sem fram komu í frv. verið breytt í hátt við þær nýju forsendur sem nú liggja fyrir um tekjubreytingar á milli ára og þjóðhagshorfur á næsta ári.

Með þessu frv. eru allir frádráttarliðir laganna hækkaðir í samræmi við hækkun á álagningarstofninum, skatthlutföll í skattstiga eru lækkuð, persónuafsláttur, barnabætur og barnabótaauki hækka. Frv. felur einnig í sér að lagaákvæði um barnabótaauka verði gerð ótímabundin með þessum lögum en þau hafa verið tímabundin fram til þessa. Skattfrelsismörk eignarskatts eru hækkuð í hlutfalli við áætlaðar breytingar á fasteignamati. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem áður hefur verið mörkuð í því efni.

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess í upphafi þessarar umræðu að fara fleiri orðum um efni frv. Það hefur þegar fengið umfjöllun og afgreiðslu í hv. Nd. og ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.