18.12.1986
Efri deild: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það virðist skynsamlegt miðað við þá tímatöflu sem við horfum fram á að lengja ekki um of umræðuna við 1. umr. um þetta frv. Þetta er orðin spurning um það núna hvort maður afgreiðir frv. fyrir eða eftir kaffi en tíminn sem við höfum til þess að skoða ítarlega jafnviðamikil mál eins og þetta er ekki ýkja mikill.

Ef ég á að segja álit mitt í sem fæstum orðum um þetta frv. tek ég undir með hv. 3. þm. Norðurl. v. að þessi skattalækkun er ekki annað en svokölluð skattalækkun þar sem hún er fyrst og fremst bara flutningur á sköttum. Í öðru lagi er það mjög áberandi að menn skuli ekki bregðast við því ranglæti sem öllum virðist nú vera orðið ljóst að skattakerfi okkar býr yfir. Þá á ég annars vegar við óréttlætið gagnvart einstaklingunum, þ.e. frv. uppfyllir ekki það markmið að jafna tekjur manna, þvert á móti virðist það stuðla mjög mikið að ójöfnuði. Það er upplýst samkvæmt könnun sem gerð var á sköttum þeirra sem laun þiggja hjá því opinbera að 42% starfsmanna hins opinbera hafa tekjur á bilinu 42 000-73 000 kr. og 49% þeirra afla 73 000 kr. tekna og meira. Það er þetta fólk sem ber aðalskattbyrðina. Af hverjum 100 kr. sem það vinnur sér inn á bilinu 42 000-73 000 kr. fara 40 kr. í skatta og af hverjum 100 kr. sem það vinnur sér inn umfram 73 000 kr. fara 49,50 kr. í skatta eða tæpar 50 kr. Þessu samfara horfir maður líka upp á það mikla ranglæti að fyrirtækin taka ekki nema sáralítinn þátt í þessari tekjujöfnun, tekjuskattar á fyrirtæki eru óheyrilega lágir á Íslandi. Ég nefndi það í umræðu um annað mál að af 10 600 framteljandi fyrirtækjum á Íslandi greiða aðeins 2800 þeirra tekjuskatt á líðandi ári.

Þessi heildarmynd öll segir manni það að þeir sem leggja fram frv. til laga eins og það sem við erum að ræða eru beinlínis að leggja það til að viðhalda þessu mikla ranglæti eitt ár í viðbót. Maður hlýtur að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum hafa þessir menn ekki tekið til hendinni og lagt fram nýtt frv. til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt til þess að breyta þessu ranglæti í eitthvað sem maður gæti þó kannast við að væri réttlæti? Hvers vegna á að viðhalda ranglætinu eitt ár til viðbótar?

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gagnrýndi þetta atriði einnig í ræðu sinni áðan. En það má náttúrlega með fullum rétti segja við hann að ranglætið sem það skattkerfi býr yfir sem við erum að tala um núna er ekki nýuppgötvað. Það hafa menn þekkt nokkuð lengi og gagnrýnt nokkuð lengi. Það má segja að gagnrýni af hans hálfu akkúrat á þennan þátt málsins sé e.t.v. ekki á mjög sterkum grunni byggð vegna þess að maður gæti þá spurt hann í því tilviki hvers vegna í ósköpunum hann tók ekki til hendinni þegar hann stýrði embætti fjmrh. eða stóð að ríkisstjórn.

Ég mun ekki, herra forseti, tefja tímann meira í umræðu um þetta frv. heldur reyna að stuðla að því að það komist sem allra fyrst til nefndar þannig að nefndin geti fjallað um það og gefið sér þann tíma til þess sem hún þarf.