18.12.1986
Efri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

Afgreiðsla mála í efri deild

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Það er rétt sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði að hér eru miklar annir og mikið lagt á hv. þingdeildarmenn í hv. Ed. sem og neðri varðandi vinnutíma. En forseti hafði það á tilfinningunni að hv. þm. væru tilbúnir að leggja á sig nokkra vinnu ef það mætti verða til þess að hægt væri að ljúka þingstörfum í þessari viku. Forseti hafði skilið það svo að hv. þingdeildarmenn væru betur undir það búnir að koma til kvöldfundar en á fundinn nú þar sem ekki eru öll nál. tilbúin til þess að taka fyrir þau mál sem áttu að vera á dagskrá. Ef frekari mótmæli koma við því að kvöldfundur verði verður forseti að sjálfsögðu að hlíta því og taka málið til endurskoðunar.