18.12.1986
Efri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

Afgreiðsla mála í efri deild

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það hefur út af fyrir sig ekki verið rætt neitt með formönnum þingflokka eða forsetum hvernig þingstörfum verður hagað núna á næstunni. Við höfðum vissulega gert ráð fyrir því að þessi dagur nýttist. En svo hefur farið að menn hafa þurft að líta á mál í nefndum og við bíðum eftir að nefndir skili af sér. Það verður auðvitað að hta á það að við erum nú þegar búin að hafa heilmikil störf að kvöldlagi í þessari viku og eigum sennilega kvöldfund fyrir höndum á morgun þannig að ég tek mjög undir með hv. síðasta ræðumanni. Mér finnst að athuga þurfi það gaumgæfilega hvort það er endilega bráðnauðsynlegt eða heppilegt að hafa fund í kvöld úr því að upplýst er að Nd. ætlar ekki að hafa fund. Það er nýtt í málinu. Það vissi ég ekki og mér sýnist að með tilliti til þeirra upplýsinga væri mjög æskilegt að forseti tæki það til athugunar hvort ekki væri rétt að sleppa fundi í kvöld, í öllu falli væri kannske hægt að gera stutt hlé núna og ræða málið og fara yfir það hvernig mönnum sýnist að auðveldast væri að skipuleggja þetta á næstu tveimur sólarhringunum.