18.12.1986
Efri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. meiri hl. sjútvn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv. sem er til umræðu fjallar um breytingu á lögum um Ríkismat sjávarafurða. Eins og fram hefur komið við framlagningu þess s.l. nótt er það rétt að mjög skammur tími er til stefnu fyrir þessa hv. deild að fjalla um þetta mál eins og allir hefðu óskað. Ég þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir það hvað þeir tóku þessu máli af mikilli þolinmæði, að reyna að gera það besta úr því þannig að við gætum afgreitt það úr deildinni fyrir jólaleyfi. Ég vona nú að álit minni hl. sjútvn., Skúla Alexanderssonar, sé komið á borðin þannig að við getum hafið þessa umræðu sem ég ætla af minni hálfu ekki að hafa langa.

Í sem stystu máli er þetta á þann veg að þetta mál er afgreitt úr Nd. og hún samþykkir með breytingu sem hingað er komin til okkar þetta frv. og meiri hl. nefndar þessarar hv. deildar vill taka undir það og ganga að samþykkt þess eins og það kemur frá Nd.

Þennan meiri hl. skipa auk mín Björn Dagbjartsson, Kolbrún Jónsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Jón Kristjánsson og Árni Johnsen með fyrirvara.

Það nál. sem við látum frá okkur fara hljóðar þannig:

„Nefndin hefur rætt frumvarpið á fundi sínum og fengið til viðtals fulltrúa frá Sambandi ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Ríkismati sjávarafurða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sjútvrn., Félagi fiskmatsmanna og Félagi starfsmanna Ríkismats sjávarafurða. Fulltrúar Sjómannasambands Íslands gátu ekki mætt á fundi nefndarinnar.“ Við gerðum til þess ítrekaðar tilraunir að finna tíma hjá þeim en þeir gátu ekki mætt til viðtals við nefndina vegna anna þannig að þá urðum við að sjálfsögðu að sleppa því viðtali.

Það sem þetta frv. felur í sér er eingöngu að lagt skuli niður svokallað ferskfiskmat sem hefur verið í gildi og sett var í lögin 1984 í maímánuði. Við lögðum þá mikla vinnu í það að stokka upp þetta kerfi og koma á þessu ríkismati en núna við nánari athugun þykir rétt að fella það niður. Allir þeir aðilar sem við ræddum við í dag, allur sá fjöldi sem er fulltrúar þeirra sem við áttum viðræður við, voru undantekningarlaust, get ég sagt, meðmæltir því að þetta yrði fellt niður.

Meginbreytingin er sú að nú er það vinnslan sjálf og sjómenn og útgerðarmenn sem koma sér saman um það mat sem framkvæmt verður og verðið á þeim fiski sem keyptur er. Ég hef ekki frétt af þeim fundi sem ég held að standi yfir í Verðlagsráði sjávarútvegsins um það hvort þeir ná samstöðu um að taka upp svokallað frjálst verð en hætta með verðlagsráðsákvæðin. Það er mikill áhugi margra aðilanna fyrir að gera það. Ef það dæmi gengur í gegn ýtir það enn frekar undir að þessi deild, ferskfiskmatið, er ónauðsynlegri en hún var hjá Ríkismatinu.

Sú breyting sem lagt er til að gerð verði er skref í þá átt að draga úr þeirri miðstýringu, getum við sagt, sem verið hefur. Auðvitað þurfum við að hafa okkar mat og einkum er áríðandi fyrir okkar útflutningsafurðir að tryggilega sé frá því gengið að við sendum ekki vöru á markað sem ekki stenst fyllstu kröfur. Alls staðar hjá fiskvinnslustöðvunum eru matsmenn sem eru þar ábyrgir fyrir vinnslunni og eiga ekki að taka hráefni til vinnslu nema það sé öruggt, annars kemur það þeim í koll þegar varan er flutt út. Þetta mál á því að vera hægt að leysa, en auðvitað tekur það einhvern tíma, eins og gildir um öll slík mál, að aðlagast breyttum aðstæðum. Það er það sem sumum nefndarmönnum finnst einkum kvíðvænlegt og veit ég að það á við um hv. 4. þm. Vesturl., eins og sést af minnihlutaáliti hans. Hann vill fresta gildistöku frv. sem á að vera nú um áramót. Hann vill fresta henni til þess að aðilar fái tíma til að aðlaga sig hinum breyttu aðstæðum sem af þessu leiðir. Mín skoðun er sú að ef slíkt skal ske sé engin bót að því að draga það. Það er þá farið að tíunda alls konar erfiðleika sem vilja koma upp. Best er að gera svona breytingu með nokkuð snöggum hætti svo að menn verði að takast á við þetta strax en ekki geyma það of lengi.

Ég sagði að það væri spor í rétta átt að leggja ferskfiskmatið niður. En ég held að ekki verði hjá því komist að að líta frekar á þessi mál almennt, hvernig Ríkismatið verði uppbyggt, passa að ekki verði of mikið af toppum, ef svo má segja, í þeirri stofnun. Ferskfiskmatið er horfið þaðan núna og ef fleiri þættir hverfa þarf færra fólk. Helst er þörf fyrir þá aðila sem gagngert starfa við útflutningsframleiðsluna og geta verið þar, eins og kemur fram í þessu frv., sem nokkurs konar hæstiréttur ef viðsemjendur um kaup á fiski þurfa á að halda, kalla til yfirmat, en þá verða þeir að greiða það sjálfir sem til kalla. Þarna er því um verulegan sparnað að ræða fyrir ríkið eða þessa stofnun á vegum ríkisins. Við þurfum að taka, að mér sýnist, frekar á í þessum efnum en ég tel þetta vera spor í rétta átt.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni en hef lagt fram álit meiri hl. sjútvn. í þessum efnum.