22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

9. mál, lágmarkslaun

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og þá sérstaklega þeim sem á einn eða annan hátt hafa stutt þær hugmyndir sem liggja frv. til grundvallar.

Hér hefur fjöldamargt komið fram sem vert er að ræða frekar. Það kom fram í máli margra hv. þm. að þeir drógu í efa réttmæti þess að löggjafinn blandaði sér í almenna kjarasamninga með þeim hætti sem lagt er til í frv. Eins og ég greindi frá í framsögu minni fyrir málinu höfum við Kvennalistakonur lengi íhugað hvort skref sem þetta sé réttmætt og eftir síðustu kjarasamninga fannst okkur málin vera komin í það horf að það yrði ekki lengur vikist undan því að Alþingi tæki á þessu máli. Þá var ljóst að verkalýðshreyfingin var ekki í stakk búin til að sinna því hlutverki sínu að semja um laun sem hægt er að lifa af fyrir þá sem lægstu launin hafa og þess vegna töldum við að réttlætanlegt væri að Alþingi gripi í taumana og samþykkti lágmarkslaun sem nokkurs konar neyðarúrræði til að tryggja lágmarksrétt þeirra sem þarna eiga hlut að máli. Ég held að Alþingi geti ekki setið aðgerðarlaust hjá þegar málum er háttað eins og þeim er núna háttað víða hér á landi og menn bera jafnlítið úr býtum fyrir fulla vinnu og raun ber vitni.

Hv. 8. þm. Reykv. kom að ýmsum atriðum í máli sínu og spurði m.a. hvaða laun væri verið að tryggja með þessu frv. Það er augljóst af frvgr. Þar stendur skýrum stöfum að það er verið að tryggja 30 þús. kr. lágmarkslaun fyrir 40 stunda dagvinnu á viku. Hvað gerist þá með bónusgreiðslur og aðrar launatengdar greiðslur? spurði þm. Það er vitaskuld hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um bónusgreiðslur og aðrar launatengdar greiðslur í framhaldi af lögfestingu lágmarkslauna. Við hljótum að leggja það í þeirra hendur. Um slíkt getum við ekki hlutast til á Alþingi.

Þm. benti einnig á að það væri ekkert sem tryggði að launin margfölduðust ekki upp launastigann og það kom reyndar fram í máli annarra þm. sem til máls hafa tekið. Því er tll að svara að vitaskuld getum við ekki tryggt eitt eða neitt í því sem aðilar vinnumarkaðarins kunna að gera við það ástand sem mundi skapast í launamálum yrði þetta frv. að lögum. Við hljótum að vísa því alfarið til aðila vinnumarkaðarins hvort þeir vilji láta launahækkun sem þessa ganga upp launastigann eða ekki og jafnframt hljótum við að vísa því til þeirra hvort þeir, verði þetta frv. að lögum, muni þá nýta sér það á þann veg, eins og kom fram í máli margra og ég reyndar nefndi líka í framsögu minni, að það gæti orðið botninn á launagreiðslum sem lægst launaða fólkið ætti á hættu að sitja eftir í. Þetta hvort tveggja, bæði það hvort prósentuhækkunin fer upp stigann og það hvort þetta yrði þá notað sem nokkurs konar botn sem fólk kæmist ekki upp úr, er í höndum aðila vinnumarkaðarins eins og eðlilegt og réttmætt er. Það getur Alþingi ekki hlutast til um.

Það sem verið er að gera með þessu frv. er að tryggja mönnum ákveðinn lágmarksrétt, þann rétt að geta lifað af afrakstri fullrar dagvinnu. Afgangurinn hlýtur að vera í höndum þeirra sem fara með samninga hér á landi eins og lög gera ráð fyrir.

Það virðist hafa farið fram hjá hv. 8. þm. Reykv. að ýmis flokkssystkin hans eru greinilega ekki sama sinnis og hann í þessu máli. Ég bendi á grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, sem birtist í dagblaðinu Vísi 14. sept. s.l., sem heitir „Á að lögbinda lágmarkslaun?", þar sem Jóhanna færir mörg og góð rök fyrir því að slíkt sé nauðsynlegt. Ég minni þm. einnig á að flokksbróðir hans, hv. þm. Karvel Pálmason, hefur látið þess getið að hann sjái ekki aðra leið út úr því ástandi sem er í launamálum hér á landi en þessa og vil minna þm. á að hv. þm. Karvel Pálmason var einn af frumkvöðlum Bolungarvíkursamkomulagsins s.l. vor sem braut í blað í þessum efnum. En e.t.v. gefst hv. 8. þm. Reykv. færi á að kynna sér þessi mál betur eftir því sem hann hefur færi á að ræða þau við hin nýju flokkssystkini sín í Alþfl.

Hv. þm. Haraldur Ólafsson nefndi það að e.t.v. lægi beinna við að Alþingi samþykkti viljayfirlýsingu þess efnis að 30-35 þús. kr. lágmarkslaun væru það lægsta sem hægt væri að ætlast til að menn kæmust af með sér til framfærslu hér á landi í stað þess að lögbinda þessi laun. Ég held að það sé hugmynd sem vert sé að skoða í fjh.- og viðskn. hvort hyggilegt væri að nefndin sendi frá sér slíka viljayfirlýsingu í formi þáltill. hingað inn í Ed., sem síðan gæti þá gengið til Nd. ef svo vill verkast, og sæi síðan hver útkoma næstu kjarasamninga yrði áður en frv. sjálft yrði afgreitt. Ég held að við ættum að skoða þá hugmynd í fjh.- og viðskn. Ed. En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég er ekki bjartsýn á að aðilar vinnumarkaðarins vendi sínu kvæði í kross og semji um 30 þús. kr. lágmarkslaun eða þaðan af hærra. Helst af öllu hefði ég viljað að þetta frv. hefði orðið að lögum áður en þeir samningar fara í hönd og að aðilar vinnumarkaðarins gætu notað það sem grunn til að byggja kjarasamningana á, að það væri frá því gengið áður en að samningaborðinu er sest að 30 þús. kr. lágmarkslaun eru grunnlaun og síðan gætu menn samið um aðrar kauphækkanir og aðra launaliði þar til viðbótar. En ég tel vert að við skoðum þetta. Hér er stórt mál á ferðinni og er mikilvægt að reyna hverju sinni að gera það sem er líklegast til að skila árangri og verða mönnum til hagsbóta.

Hv. þm. Valdimar Indriðason dró mjög í efa að þetta frv. væri til bóta fyrir lægst launaða fólkið, en ekki fann ég í máli þm. nein önnur úrræði í því efni. Hann vísaði til aðila vinnumarkaðarins. Við höfum séð hvernig þeir hafa staðið að þessum málum á undanförnum árum þannig að það er engin ástæða til að ætla að þeir bæti þar um betur. Meðan engin önnur úrræði eru fyrir hendi er varla hægt að taka það gilt sem staðhæfingu að þetta frv. geti ekki verið til bóta.

Þm. benti á að laun í frystihúsi gætu verið um 40 þús. kr. á mánuði. Hann nefndi líka réttilega þá vinnuþrælkun sem það hefur oft og tíðum í för með sér og ég hef ekki trú á að nokkurt okkar geti samþykkt eða talið æskilegt og svo eru vitaskuld fjöldamargir aðrir sem ekki hafa 40 þús. kr. lágmarkslaun á mánuði.

Hann dró einnig í efa að um væri að ræða 35 þús. manns sem hefðu innan við 30 þús. kr. á mánuði í dagvinnulaun hér á landi. Því er til að svara að þetta er áætlun Þjóðhagsstofnunar. Hún áætlar að það sé þetta stór hópur sem hafi innan við 30 þús. kr. í lágmarkslaun hér á landi nú. Það er vissulega ógnvænlegt. Það er ógnvænleg tala.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson kom upp einnig og mér fannst harla nöturlegt að heyra þann hv. þm. reyna að afsaka þau lágu laun sem hér eru greidd. Hann dró í efa útreikninga Þjóðhagsstofnunar á þessu frv. Það hlýtur þá að vera hans mál. Ég vísa aðeins til þeirrar stofnunar um það. Hann nefndi einnig að atvinnurekstur kynni oft og tíðum ekki að vera í stakk búinn til að greiða 30 þús. kr. lágmarkslaun. Ég svara honum með þeirri röksemd, sem ég var með í framsögu minni, að ég tel að atvinnurekstur sem ekki getur borgað mönnum laun sem duga þeim til framfærslu geti ekki átt rétt á sér. Slíkur atvinnurekstur er ekki réttlætanlegur að neinu leyti.

Sá ágæti þm. taldi einnig að það væri affarasælast að aðilar vinnumarkaðarins bæru sem mesta ábyrgð á kjarasamningum og þar er ég honum hjartanlega sammála og öðrum þeim sem því hafa haldið fram hér. Það er einnig mín skoðun að þar eigi samningar um kaup og kjör í landinu heima, en þegar aðilar vinnumarkaðarins bregðast þessu hlutverki sínu og ástandið er orðið eins og það er og þar að auki ríkir góðæri í landinu, sem hv. þm. Helgi Seljan taldi nú að ríkisstjórnin vissi ekki hvað hún ætti að gera við, þá held ég að Alþingi geti ekki setið aðgerðarlaust hjá.

Með þessu frv. hef ég lagt til að Alþingi lýsi vilja sínum í þessum málum og tryggi mönnum ákveðinn lágmarksrétt í launum, en framhaldið er í höndum aðila vinnumarkaðarins eins og eðlilegt er, þar á meðal hvort launahækkanirnar fari upp stigann eða hvort þetta verði botn sem lægst launaða fólkið á á hættu að sitja eftir á, og einnig það að semja um launatengdar greiðslur, bónus og aðra launaliði. Þetta er allt saman áfram í höndum aðila vinnumarkaðarins þar sem það á vitaskuld að vera.

Frv. er í raun hugsað sem grunnur sem aðilar vinnumarkaðarins geti byggt sína samninga á. Það er óumdeilt að það er Alþingis að leggja þann efnahagsgrunn sem er í þjóðfélaginu hverju sinni þannig að það er í sjálfu sér ekki frammígrip af hálfu Alþingis heldur er það einungis skylda Alþingis að leggja þann grunn. Frv. er hugsað sem grunnur undir frjálsa samninga og framhaldið er í raun og veru að öllu leyti í höndum aðila vinnumarkaðarins.