18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

Útbýting dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir í deildinni dagskrá 27. fundar með níu málum, en það er búið að boða og setja hér fund með dagskrá upp á 14 mál. Verður það að teljast heldur flausturslegt ef svo hratt þarf að reka trippin að það sé ekki einu sinni séð ástæða til að dreifa dagskránni því að venjulega er það nú svo að fyrri dagskrá er með nöfnum þeirra mála sem taka á fyrir, en hér stendur þannig á að þeirri dagskrá hefur aldrei verið útbýtt með nöfnum málanna sem ætlað er að ræða.