18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og hv. 5. þm. Vestf. ætti að vera ljóst fóru fram ítarlegar umræður í gær um þessi atriði. Þá fóru líka fram atkvæðagreiðslur og viðhorf manna hefur komið fram til þeirra hugmynda sem hafa verið reifaðar af ýmsum aðilum í stjórnarandstöðunni. Ekki kom fram í þeirri umræðu eða atkvæðagreiðslu að víðtækur stuðningur væri meðal stjórnarliða við þær hugmyndir sem uppi hafa verið af hálfu ýmissa í stjórnarandstöðunni um að grisja þennan frádráttafrumskóg. Hitt er alveg ljóst að ef hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf., telur nauðsynlegt að fram komi sérstakar brtt. um þetta efni er honum jafnfrjálst og öðrum að flytja brtt. þar um. Við munum þá taka til skoðunar hvort þær hrökkva hæfilega langt til að njóta okkar stuðnings.