18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er kannske rétt að rifja upp forsögu þess máls. Til allshn. Sþ. var vísað þáltill. um skattamál, 1. flm. var Jóhanna Sigurðardóttir. Það fer ekkert milli mála að afgreiðsla þeirrar tillögu setti hér ýmislegt af stað. Ég lít svo á m.a. að sú skýrsla sem hér var til umræðu hafi verið afleiðing þess og ég studdi það mál á sínum tíma.

Það sem ég vakti athygli á áðan og vil undirstrika er að þó að það frv. sem hér er flutt verði fellt ganga allir hlutir fyrir sig með sama hætti að öðru leyti en því að réttur manna til að leggja fram fjármuni sem þeir segjast ætla að nota í atvinnurekstri síðar verður ögn minni. Hann hækkar ekki á milli ára um 31%. Það er enginn stór skaði skeður þó að það gerist ekki. Við erum búnir að samþykkja hér skerðingarákvæði á fleiri, fleiri sjóði vegna þess að við höfum ekki fjármagn. Það blasir við að hallinn á ríkissjóði er gífurlegur. Hvers vegna bregst stjórnarandstaðan svo ókvæða við þegar ég vek athygli hennar á því að umræður um þetta mál eru sama sem engar? Það er eins og verið sé að stuðla að því að koma málinu áfram á silfurfati. Er það trúverðug stjórnarandstaða sem segist í öðru orðinu vera að berjast fyrir réttlátara skattakerfi en er svo spör á umræður í salnum engu að síður að hún stuðlar beinlínis að því að málin fljúgi áfram áður en hv. þm. eru búnir að handsama þskj. á borðinu hvað þá heldur meira? Ég sé ekki að það sé samræmi í þeim málflutningi og þeim gerðum.

Það fer ekkert á milli mála að ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv. (SvG: Þú gerðir það ekki í gær, sama mál.) Þetta frv. fór til nefndar, hv. þm. (SvG: Það var flutt till. um það í gær að fella þennan kafla út úr skattalögunum. Þá greiddir þú atkvæði gegn þeirri till.) Hv. 3. þm. Reykv. virðist rugla saman tveimur málum og ekki gera sér grein fyrir því hvað hann er að tala um og er það honum til lítils sóma miðað við að vera nefndarmaður í viðkomandi nefnd. Það er mikill munur á því að leggjast gegn því að frádráttaheimild sé hækkuð innan skattalaganna, eins og hér er verið að leggja til, eða leggja til að allur slíkur frádráttur sé felldur úr lögunum. Það er mikill munur á þessu. Og það er mikill munur á því ákvæði sem hér er verið að tala um eða hvort það eigi að taka þann rétt af fyrirtækjum að leggja í fjárfestingarsjóð. Það hefur stundum orðið til þess að menn hafa reynt að fjárfesta áður en þeir hefðu fjármuni til þess og það er ekki að mínu viti neitt sem vert er að mæla með eða hvetja til. En það sem ég er að vekja athygli á hér er að það var opnuð glufa, að mínu viti, til skattsvika með þessari grein eins og hún var á sínum tíma. Það var opnuð sú glufa að bankastjórarnir gætu ráðið því hvort menn hefðu fjármuni til að leggja í þennan sjóð eða ekki. Núna er talað um að það þurfi nauðsynlega að sjá til þess að hækkun þess sem má draga frá verði jafnmikil og verðlag í landinu hefur hækkað. Það verður að fylgja þessu eftir 100% á sama tíma og það er verið að skera niður fjármuni til mjög margra málaflokka í landinu. Ég sé ekki nauðsynina á þessu. Og þetta eru ekki sambærilegir hlutir. Því hlýtur hv. 3. þm. Reykv. að gera sér grein fyrir ef hann skoðar málið af gaumgæfni.