18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Samkvæmt umvöndunum þingflokksformanns framsóknarmanna, mæla skal þarft eða þegja, stenst stjórnarandstaðan að sjálfsögðu ekki þau frýjuorð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að það skorti eitthvað á að hún andæfi nægilega hart þessu stjfrv. En ef vel er skoðað skil ég þessar ábendingar hv. þm. sérstökum skilningi. Hann þarf ekki að kvarta undan því að fyrir liggja nál. frá stjórnarandstöðunni, á þskj. 314 t.d. frá hv. þm. Stefáni Benediktssyni í Ed. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af fjárskorti ríkissjóðs, miðað við þau verkefni sem hann ætlar sér, leggur minni hl. nefndarinnar til að frádráttarheimildir verði skertar eins og fram mun koma í brtt. við fjárlagafrv. við 3. umr. Það er og í samræmi við fyrirætlanir um fækkun frádráttarliða til að einfalda skattkerfið.“

Þarna er boðaður tillöguflutningur og afstöðu lýst mjög á sömu lund og hv. skrifari lýsir.

Á þskj. 410 segir: „2. minni hl. telur að nauðsyn beri til að grisja frádráttarfrumskóg skattalaganna og eitt fyrsta skrefið ætti að vera að draga úr frádráttarheimild þeirri sem hér um ræðir.“

Hér er auðvitað um að ræða nákvæmlega sama málið og var til umræðu hér í gærkvöld og umræður stóðu yfir klukkustundum saman og fluttar voru brtt. um skerðingar á frádráttarliðum. En síðan kemur rúsínan í pylsuendanum og ég lít svo á að umvandanir hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og virðulegs skrifara hljóti að snúast um það. Ég bið hv. þm. að líta á nál. á þskj. 313 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Þar er rökstuðningur fyrir því að nauðsyn beri til að hækka þessa frádráttarliði til samræmis við endurskoðaða verðlagsspá, ekki aðeins að þeir verði 31% heldur verði fullt tillit tekið til nýrrar verðlagsspár upp á 35%. Undir þetta nál. skrifa m.a. hv. þm. Ragnar Arnalds, formaður þingflokks Alþb., og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Að vísu segir þar, með leyfi forseta:

„Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Ragnar Arnalds eru ekki mótfallin frv. þessu né brtt. þar sem hún er fyrst og fremst tilkomin af tæknilegum ástæðum. Hins vegar eru þau efnislega á móti frádráttarheimild af þessu tagi og taka af þeim sökum ekki þátt í afgreiðslu málsins.“

Það hlýtur að hafa verið einhver sérstök kveikja að umvöndunum hv. skrifara í garð stjórnarandstöðunnar og kannske þarfnast þetta skýringa. Er það virkilega svo að þingflokksformaður Alþb. og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir líti svo á að það sé tæknileg breyting að hækka frádráttarliðina úr 31% í 35%? Ég hefði haldið þvert á móti að það væri fyrst og fremst hápólitísk ákvörðun en ekki tæknileg. M.ö.o.: það er spurningin um hvort menn hafa þá afstöðu að vilja skerða þessa frádráttarliði, hafa þá lægri en t.d. verðlagsspár eða ekki. Ég verð því að taka undir það með hv. skrifara að hann mælti þarft, en það þarfnaðist kannske frekari skýringa hvað hann átti við.