22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

9. mál, lágmarkslaun

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Mér fannst skörin vera komin upp í bekkinn þegar hv. síðasti ræðumaður, Stefán Benediktsson, vék að nákvæmni í lagasetningu og líkti þessu frv. gjarnan við það, þó að hann orðaði það ekki þannig sjálfur, að það væri eins gott að setja lög um að börn og gamalmenni hefðu það gott í landinu. Þá hlýt ég að leiða hugann að frv., sem hv. þm. Stefán Benediktsson flutti að mig minnir á síðasta þingi, sem varðaði húsnæðismál. Það frv. minnti mig á að það hefði kannske verið eðlilegra að flytja frv. sem væri í tveim greinum. Í 1. gr. væri ákveðið að allir hefðu það sæmilega gott í landinu. En í 2. gr. stæði: Lög þessi öðlast þegar gildi. Ég held að hv. þm. ætti ekki að víkja orðum sínum í þeim dúr að þessu frv.

En ég stóð ekki upp til þess eins að fetta fingur út í orðfæri hv. þm. Stefáns Benediktssonar heldur til að þræta fyrir að ég hefði vefengt útreikninga Þjóðhagsstofnunar eins og hv. flm. þessa frv. gat um í sinni annarri ræðu. Það var alls ekki ætlun mín, enda gerði ég það ekki, að vefengja útreikninga Þjóðhagsstofnunar. Hins vegar þætti mér vænt um ef fram kæmi hvaðan komið er það orðfæri sem er í greinargerðinni þar sem stendur, með leyfi forseta: „Hækkun lægstu launa er því hvorki dýr né líkleg til að hleypa verðbólgunni á skrið að nýju.“ Ég stend í þeirri trú þar til annað kemur fram að þarna sé um innskot hv. flm. að ræða en ekki skoðun Þjóðhagsstofnunar. En sé þetta skoðun Þjóðhagsstofnunar ætla ég að vera Þjóðhagsstofnun ósammála. Ef ekki er ég ósammála hv. flm. nema hvort tveggja sé.