18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. 4. landsk. þm. Guðmundar Einarssonar vil ég geta þess að það kom fram í fjh.- og viðskn. að frádráttur fyrirtækja vegna þessarar heimildar skattalaga nemur á árinu 1986 700 millj. kr. Það eru einu upplýsingarnar sem fram hafa komið um málið. Ef þessar 700 millj. væru skattlagðar eins og aðrar tekjur fyrirtækja gæfi það 350 millj. kr. í ríkissjóð. Það liggur einnig fyrir. Reynslan af þessu liggur ekki fyrir í neinu skýrsluformi, en hins vegar er augljóst mál, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur bent á, að þetta hefur örugglega verið notað til að auka heldur við fjárfestingu en hitt. Það er náttúrlega ekki það sem við höfum þörf á sérstaklega að menn sækist eftir fjárfestingu sem markmiði í sinni efnahagslegu starfsemi.

En ég vildi aðeins í tilefni af þessum umræðum vita hvort forseti gæti ekki gert mér þann greiða að láta kalla hingað inn meðan ég geri þessa stuttu athugasemd mína hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég vil inna hv. þm. eftir því, formann þingflokks framsóknarmanna, hvort hv. 5. þm. Vestf. hreyfði mótmælum við flutningi þessa máls í þingflokki Framsfl. (ÓÞÞ: Aldrei borið þar upp.)