18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

254. mál, málefni aldraðra

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er í sjálfu sér um hið þarfasta mál að ræða. Hins vegar þykir mér og hefur þótt á undanförnum árum líka að menn ætli ákaflega tekjulágu fólki og þá jafnvel um leið fólki sem komið er á ellilaunaaldur að taka hér á sig sérstaka skattgreiðslu. Ég vek athygli þm. deildarinnar á því að sá sem hefur 18 200 kr. í tekjur á mánuði á samkvæmt því sem hér um ræðir að greiða 1500 kr. í þennan sjóð. Mér hefur löngum þótt það óþarfi að seilast svo djúpt í vasa t.d. ellilífeyrisþega og öryrkja sem hefðu laun sem væru jafnvel neðan við það sem hafa verið lágmarkslaun í landinu og hafa verið mjög til umræðu, jafnvel neðan við það, ættu þeir síðan að lenda í þessari skattheimtu. Ég hefði talið ástæðu til að hækka þessi tekjumörk nokkuð þannig að þeir sem eru með svo lágar tekjur sem raun ber vitni þurfi ekki að greiða þetta gjald. Ég veit dæmi þess að þeir sem komnir eru á ellilífeyrisaldur og eru með örlítið úr lífeyrissjóði umfram það sem kemur úr almannatryggingunum lenda í því ár eftir ár að inna þessar greiðslur af hendi.