19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. 2. minni hl. fjvn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Síðustu dagar hafa helst minnt á kosninganætur með tilheyrandi spennu og tilfinningagosi þegar þulir lesa síðustu atkvæðatölur. Nefndarstörf hafa einkennst af óvissu um forsendur og öðru hverju hafa fræðaþulir okkar úr Þjóðhagsstofnun og Hagsýslu komið til nefndarinnar með nýjustu tölur úr reiknivélunum. Þingreyndari menn en sú sem hér stendur muna kannske aðra eins óvissutíma við fjárlagagerð en ætli þetta hafi nú ekki verið óvenjulega losaralegt að þessu sinni. Slíkar aðstæður eru auðvitað mjög erfiðar og trufla nefndastörf verulega.

Niðurstöðutalan kom í sjálfu sér ekki á óvart þegar hún loksins fékkst. Ekki er hún meira fagnaðarefni fyrir það. Rekstrarhallinn hefur aukist um 1200 milljónir frá frv. og skuldin sem við ætlum afkomendum okkar að fást við hefur vaxið um 1300 milljónir.

Hinir vísustu menn fagna því mjög að ekki sé ætlunin að borga þá skuld til útlanda. Og sá ég einhvers staðar haft eftir ekki ómerkari manni en hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfi Konráð Jónssyni, sem þykir einn mesti fjármálavitringur sjálfstæðismanna, að menn mættu ekki gleyma því hverjir fengju þessar skuldagreiðslur í hendur í fyllingu tímans. Það er auðvitað satt og rétt að í þessari viðbót er um innlenda lántöku að ræða. Því skv. fyrirmælum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins má ekki auka erlendar skuldir. En skuld er skuld sem einhvern tíma þarf að greiða. Skuld skiptir ekki um nafn þótt heimilisfangið sé innlent. Þessi aukni rekstrarhalli og aukna skuldasöfnun eru efnahagslífi okkar stórhættuleg. Fjárlögin, sem væntanlega verða samþykkt af meiri hluta Alþingis innan tíðar, eru ávísun á vaxtahækkanir og aukna verðbólgu og geta þess vegna raskað verulega forsendum þjóðhagsspár.

Þetta er nú góðbúið sem næsta ríkisstjórn fær að taka við og ég furða mig á því ábyrgðarleysi sem meiri hlutinn sýnir með slíkri afgreiðslu. Þá er kannske von að einhver spyrji: Hefðu Kvennalistakonur treyst sér til að skila betra búi? Það er auðvitað oft hægara um að tala en við að fást en ég er ekki í minnsta vafa um að varfærni og ráðdeild af því tagi sem kennd er við hina hagsýnu húsmóður hefði komið sér vel við sameiginlegan búrekstur landsmanna, þennan tiltölulega skamma tíma í sögu þjóðarinnar sem hún hefur verið að komast í álnir.

Því miður eru baggar fortíðarinnar þungir og marga þá bagga má rekja til rangra ákvarðana alþm. í atkvæðasmölun, ákvarðana um verksmiðjur hér og virkjun þar og orkubú alls staðar, ákvarðana sem byggðar voru á stórhuga áætlunum og sérpöntuðum spádómum sem illa standast tímans tönn. Það er raunar merkilegt hvað sömu mönnum er treyst og falið aftur og aftur að reikna og spá. Þessir baggar fortíðar að viðbættum föstum lögbundnum framlögum taka langstærstan hluta þeirra fjármuna er til ráðstöfunar eru.

Í nál. á þskj. 302 við 2. umr. fyrir viku skýrði ég eftir föngum afstöðu Kvennalistans til þessa frv. í heild sinni. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það allt en í örfáum dráttum er afstaða Kvennalistans sú að við erum andvígar stefnu frv. og ákaflega ósáttar við rangar áherslur stjórnvalda sem birtast í sparnaði og aðhaldi í félagslegum framkvæmdum og rekstri þar sem aftur á móti rekstrargjöld ráðuneyta og sumra ríkisstofnana fá að þenjast út án mikillar fyrirstöðu. Við gagnrýnum sóun í óarðbærar framkvæmdir og fjárfestingar á vegum ríkisins meðan látið er undir höfuð leggjast að styðja arðvænlega uppbyggingu í atvinnulífinu og við bendum á að bersýnilega skortir vilja og samstöðu til þess að endurskoða rekstur ríkisins og tekjuöflun með það að markmiði að stöðva hallarekstur ríkissjóðs og dreifa byrðunum réttlátlegar á herðar landsmanna.

Nú á milli umræðna hefur verið fjallað um ýmsa stóra liði og smáa reyndar líka og að vonum eru þm. misjafnlega sáttir við niðurstöður þeirrar umfjöllunar. Fulltrúar stjórnarandstöðu hafa tekið minni þátt í þeirri umfjöllun en eðlilegt má telja að mínu viti og fengið allt of fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta læt ég koma fram hér því mér finnst það varpa skugga á annars gott samstarf innan nefndarinnar. Vissulega ber að sýna skilning vegna erfiðra aðstæðna og það hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar gert að mínu viti.

Því er ýmsum spurningum enn ósvarað og þótt ég sjái ekki ástæðu til að tíunda þær allar vil ég þó geta sérstaklega einnar og beina henni til viðstaddra ráðherra. Hvernig er ætlunin að ná þeim 150 millj. kr. sparnaði sem gert er ráð fyrir í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins? Ég veit ekki til þess að látið hafi verið af þeirri ætlun. Þegar þetta mál var til umræðu á fundi nefndarinnar með Tryggingastofnun ríkisins var m.a. bent á það að sjúklingar tækju minni þátt í lyfjakostnaði en tíðkast á hinum Norðurlöndunum. En það kom einnig fram að álagning á lyf er margfalt meiri. Álagning er margfalt meiri en víðast annars staðar. Þennan þátt þarf að endurskoða og ég legg áherslu á að sparnaður í Tryggingastofnuninni verði ekki framkvæmdur með því að leggja auknar byrðar á sjúka og þá sem minna mega sín.

Óánægja með afgreiðslu einstakra mála birtist fyrst og fremst í þeim brtt. sem þm. sjá sig knúna til að flytja. Auk þess eru ýmsir liðir sem eftir sitja. Ég ætla ekki að telja þá alla upp en get þó ekki látið hjá líða að nefna tvo málaflokka. Þar er þá fyrst að nefna málefni fatlaðra. Í þeim málaflokki fékkst vissulega nokkur úrlausn, þ.e. aukið framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra, og þótt ekki sé enn þá um að ræða réttmætt framlag lögum samkvæmt er hér um verulega úrbót að ræða sem er fagnaðarefni. Einnig fékkst grænt ljós og lítils háttar framlag til nýs meðferðarheimilis fyrir þroskahefta í Reykjavík sem grynnka mun á þeirri gífurlegu þörf sem alls staðar er fyrir hendi. En áhyggjur mínar eru nú einkum bundnar við starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem er algjör undirstöðuþáttur í meðferð fatlaðra og býr því miður við algjörlega óviðunandi skilyrði. Ég sé ástæðu til að fjalla ítarlega um þetta mál í þessari umræðu í þeirri von að menn vakni til vitundar um ástandið og fái hér hvatningu til úrbóta. Máli mínu til skýringar vil ég vitna hér til erindis stöðvarinnar til fjvn., með leyfi forseta. Þar segir:

„Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem starfar skv. 16. gr. laga um málefni fatlaðra, tók til starfa 1. jan. s.l. Hlutverk hennar er allvíðtækt samkvæmt lögunum en veigamesti þáttur starfseminnar er að sjá um faglega úttekt eða greiningu á fötlun einstaklinga og ráðgjöf um úrræði og horfur. Enn fremur er stöðinni ætlað að sjá um reglubundið endurmat þessara einstaklinga og að veita meðferð og þjálfun þeim einstaklingum með erfiðar og flóknar fatlanir sem ekki eiga völ á annarri þjónustu. Þá er í lögunum skilgreint hlutverk stöðvarinnar við skráningu fatlaðra, rannsóknir á sviði fatlana og fræðsla fyrir fagfólk, svo og rekstur leikfangasafns.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðra var skipuð nefnd til að kanna þörf fyrir þjónustu slíkrar stofnunar og gera tillögur um framtíðarskipulag hennar. Var það niðurstaða nefndarinnar að slík miðstöð greiningar væri forsenda farsællar uppbyggingar þjónustu við fatlaða um landið. Taldi nefndin að um 4,5% af hverjum árgangi þyrfti á slíkri sérfræðilegri þjónustu að halda, sumir tímabundið en aðrir til lengri tíma.

Við stofnun Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar tók hún við allri starfsemi athugunardeildarinnar í Kjarvalshúsi og færðist allt starfslið deildarinnar til Greiningarstöðvar. Við stöðina starfa nú 26 manns í alls 20,8 stöðugildum. Í fjárlögum 1986 fengust til handa Greiningarstöðinni þrjár nýjar stöður til viðbótar þeim stöðugildum sem fylgdu Athugunardeildinni í Kjarvalshúsi. Hins vegar hafði í nokkur ár þar áður ekki fengist leyfi til aukins reksturs deildarinnar þrátt fyrir sívaxandi eftirspurn eftir þjónustu hennar. Á s.l. ári hafði Kjarvalshús afskipti af um 160 fötluðum börnum. Það er ljóst að á þessu ári er um aukningu á afköstum að ræða enda þótt ákveðnar tölur liggi ekki fyrir. Auk þess hefur greiningarstarfið verið mun markvissara en áður, einkum upplýsingamiðlun til annarra þjónustuaðila.

Því miður er langt í land að Greiningarstöðin geti sinnt þeim verkefnum sem henni eru ætluð af hinu háa Alþingi. Stærsti hluti skjólstæðinga stöðvarinnar þarf áframhaldandi eftirlit og reglubundið endurmat, þannig að hópur sá sem tengist stöðinni stækkar sífellt. Auk þess hefur tilvísunum fjölgað verulega á þessu ári en nýjar tilvísanir í ár eru tæplega 100 samanborið við um 55 á s.l. ári. Um 70 börn og unglingar bíða eftir fyrstu tengslum við stöðina og annar eins hópur af skjólstæðingum stöðvarinnar bíður eftir endurmati eða meðferðardvöl. Biðtími er nú frá nokkrum mánuðum fyrir forgangshópa upp í allt að tveimur árum. Þá er okkur kunnugt um að vegna langs biðtíma er hópi barna ekki vísað til stöðvarinnar þrátt fyrir þörf.

Það ætti að vera öllum ljóst hvernig líðan það er að bíða mánuðum saman eftir endanlegum úrskurði um eðli fötlunar og nauðsynlegum úrræðum, auk þess sem tími til markvissrar þjálfunar tapast. Slíka bið er með engu móti hægt að verja fyrir þeim fötluðu einstaklingum sem leita til stöðvarinnar og aðstandendum þeirra.

Greiningarstöðin er nú til húsa í tveimur einbýlishúsum við Sæbraut á Seltjarnarnesi, alls um 750 fermetrar. Bæði húsin eru á tveimur hæðum og því ófær fyrir þjónustustarfsemi við fatlaða. Skipulag húsanna er í engu samræmi við þarfir starfseminnar auk þess sem verulegt óhagræði er að því að vera í tveimur húsum. Þarf t.d. að bera börn af dagdeild yfir götuna í ýmsum veðrum til að sækja sjúkraþjálfun. Þá er stærð núverandi húsnæðis ekki fullnægjandi fyrir núverandi starfsemi, hvað þá eftir aukningu hennar sem virðist óhjákvæmileg samkvæmt ofansögðu. Greiningarstöðin hefur leitað eftir því við félmrn. að gerðar verði hið fyrsta ráðstafanir til kaupa á hentugu húsnæði undir starfsemina þar sem ljóst er að fyrri ráðagerðir um byggingu sérhæfðs húsnæðis munu dragast um sinn. Leitað er eftir stuðningi fjvn. við lausn á húsnæðismálum stofnunarinnar. Til að mæta þeim brýna vanda sem blasir við vegna langs biðtíma telur Greiningarstöðin að aukning á starfsliði stofnunarinnar sé óhjákvæmileg. Það má ætla að fimm stöðugildi sem dreifðust á hinar ýmsu starfsstéttir stöðvarinnar séu fullnægjandi að sinni. Auk þess er full þörf á að skipa framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur stöðvarinnar eins og gert er ráð fyrir í lögum um málefni fatlaðra. Greiningarstöðin fer því fram á við fjvn. að heimilaðar verði á næstu fjárlögum sex nýjar stöður við stofnunina.“

Herra forseti. Ég hef kynnt mér þessa starfsemi eftir föngum og skoðað húsakynni Greiningarstöðvarinnar og er að mínu viti hvergi ofsagt af erfiðum aðstæðum. Þeir sem eitthvað hafa kynnst þessum málum vita og skilja hvílíkt álag og raun það er fyrir starfsfólk að standa frammi fyrir foreldrum fatlaðra barna og geta ekki brugðist við vanda þeirra vegna aðstæðna. Ekki fékkst fjárveiting fyrir meiru en einni nýrri stöðu að þessu sinni og enn er húsnæðisvandinn óleystur. Þó er vitað um allgott húsnæði sem er falt undir þessa starfsemi. Nú heiti ég á hæstv. félmrh., sem því miður er ekki viðstaddur núna, að vinna að því máli og á hæstv. fjmrh. að nýta sér þá heimild sem í lögum er til kaupa á viðunandi húsnæði fyrir Greiningarstöðina. Að því verður að vinna á næsta ári. Annað er ekki forsvaranlegt.

Hitt atriðið varðar umhverfismálin í heild sinni. Á þskj. 463 flyt ég brtt. og við Kvennalistakonur viið framlag til Ferðamálaráðs og skýri ég hana betur síðar og þann vanda sem orðinn er vegna skilningsleysis stjórnvalda. En auk þess ógnar mér lítill skilningur á mikilvægi starfsemi Náttúruverndarráðs sem þrátt fyrir aukin verkefni samkvæmt lögum og reglugerðum fær ekki eðlilega uppfærslu rekstrarliða heldur er látið gjalda þess að aukið fé fékkst til Mývatnsrannsókna þegar námaleyfi kísilgúrverksmiðjunnar var endurnýjað fyrir tveimur árum. Námagjald Kísiliðjunnar er fært Náttúruverndarráði til tekna og rannsóknirnar skrifaðar á umfang ráðsins, en staðreyndin er sú að þetta fé fer inn á sérstakan reikning alls óviðkomandi Náttúruverndarráði og rannsóknirnar eru á annarra vegum þótt ráðið eigi fulltrúa í nefnd sem um þær fjallar. 1 millj. kr. hækkun fékkst til framkvæmda í þjóðgörðum, en engar leiðréttingar við þessa umræðu á öðrum liðum sem þessum málaflokki tilheyra. Þetta er verulegt áhyggjuefni með tilliti til síaukinna verkefna Náttúruverndarráðs.

Sem dæmi um vaxandi þátt í starfsemi ráðsins er eftirlit með mannvirkjagerð, en samkvæmt lögum er Náttúruverndarráð umsagnaraðili varðandi alla meiri háttar mannvirkjagerð, þar með taldar fiskeldisstöðvar, en eins og þingheimur veit er mikil gróska og framkvæmdagleði á þeim vettvangi. Fiskeldisstöðvar eru einmitt slík starfsemi þar sem mikillar aðgæslu er þörf, enda eru víða uppi hugmyndir um byggingu slíkra stöðva á viðkvæmum svæðum.

Síðasta ár hefur Náttúruverndarráð gefið umsögn um 70-80 slíkar stöðvar og ekkert lát virðist á beiðnum þar að lútandi, enda fá framkvæmdaaðilar ekki lán til framkvæmda nema umsögn ráðsins liggi fyrir. Óþarft ætti að vera að tíunda mikilvægi þeirra verndunaraðgerða sem Náttúruverndarráð annast í þjóðgörðum landsins. Ég er satt að segja undrandi á skeytingarleysi hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnarinnar allrar varðandi þann málaflokk.

Milli umræðna hefur einnig verið fjallað um rekstur B-hluta stofnana ríkisins og eins og kunnugt er byggja áætlanir þeirra á misjafnlega miklum gjaldskrárhækkunum. En eins og komið hefur fram eru menn ekki á eitt sáttir um samræmi þeirra eða ósamræmi við þær forsendur sem nýgerðir kjarasamningar byggjast á og sýnist þar sitt hverjum eftir því hvorum megin borðsins menn sitja. Það er að vísu hárrétt að óeðlilegar hömlur á gjaldskrárhækkanir leiða gjarnan til óhagræðis í rekstri og óhóflegrar skuldasöfnunar sem hreinlega getur endað með verðsprengingu og er þá illa komið því markmiði að vernda rétt neytandans.

Það er einnig ákaflega dýrt að láta rekstur stofnana vaða á súðum árum saman og húsakynni drabbast niður, eins og t.d. hefur orðið raunin með Þjóðleikhúsið. Hér voru umræður í Sþ. á þriðjudaginn var um málefni Þjóðleikhússins og er nokkuð ljóst að stór hluti þingmanna er ekki sáttur við hvernig komið er fyrir þeirri stofnun. Nokkuð hefur verið tekið á því máli nú milli umræðna, en niðurstaðan er þó sú að mikið vantar á til þess að hlutur Þjóðleikhússins sé leiðréttur. Til að ná þeim tekjum sem hér eru merktar á þskj. 419 þarf hvort tveggja að koma til, aukin aðsókn að leikhúsinu og hækkun miðaverðs, jafnvel allt að 59%. Og jafnvel þótt sú áættun stæðist er enn ógreidd skuld upp á 80-90 millj. kr. Og ekki nóg með það því að 7,5 millj. kr. duga skammt til þeirra viðgerða sem húsakynnin þarfnast að utan sem innan. Þannig er nú komið fyrir þessari merku stofnun sem hýst hefur margan menningarviðburð á undanförnum árum. En hæstv. menntmrh. virðist þykja nóg að gert og lýsir því yfir á sinn stórkarlalega hátt í Morgunblaðinu í dag að frekari úrlausn komi ekki til mála. Niðurstaðan er því sú að Þjóðleikhúsið situr eftir með um 80-90 millj. kr. skuld og niðurnítt hús.

Önnur menningarstofnun engist nú í höndum núv. ríkisstjórnar og á ég þar við Ríkisútvarpið okkar. Það er nú talið stefna í rúmlega 100 millj. kr. greiðsluhalla í ár, en tekjustofninn sem ríkisstjórnin ætlaði að svipta stofnunina í ár, þ.e. aðflutningsgjöld af viðtækjum, mun laga þá stöðu. Aðförinni hefur verið frestað í ár. Og hver er orsök þessarar slæmu stöðu Ríkisútvarpsins? Kunna menn þar ekki að gera áætlanir og standast þær? Staðreyndin er sú að nú eru aðstæður gjörbreyttar. Auglýsingatekjur hafa dregist stórlega saman vegna vaxandi samkeppni og eru 30-40 miilj. kr. minni en áætlað var. Þá hefur fjárfesting farið langt fram úr áætlun eða um allt að 50 millj. kr. og er það síður en svo til fyrirmyndar. En auk þess hefur kostnaður vegna dagskrárgerðar aukist stórlega. Þessar niðurstöður þurfa svo sem ekki að koma neinum á óvart. Þetta er afleiðing af þeirri lagabreytingu sem leiddi til breyttrar skipunar útvarpsmála hér á landi. Og ef Sjálfstfl. fengi einn að ráða þyrfti líklega ekki lengur um sárt að binda. Útförinni er þó frestað um sinn.

Hér get ég ekki stillt mig um að benda á föðurlegan leiðara Morgunblaðsins í dag þar sem forráðamönnum útvarpsins, sem eru reyndar sjálfstæðismenn í bak og fyrir, er bent á nauðsyn þess að gæta hófs í rekstri og fjárfestingu og bent á Bylgjuna til fyrirmyndar. Vissulega stendur Bylgjan sig vel. En Morgunblaðið lætur hjá líða að geta um þann reginmismun sem er á hlutverki þessara stofnana þar sem Bylgjan hefur nánast frítt spil og engar kvaðir. Það var einmitt eitt af megingagnrýnisatriðum Kvennalistans við afgreiðslu útvarpslaganna að Ríkisútvarpið var skilið eftir með allar skyldurnar og kvaðirnar, en grundvöllurinn til að standa undir þeim skekktur. Og afleiðingarnar eru þegar komnar í ljós.

Lánasjóður ísl. námsmanna er enn ein stofnunin sem hefur átt í vök að verjast allt þetta kjörtímabil og mér segir svo hugur að við eigum eftir að ræða málefni hans síðar í vetur. Kvennalistinn hefur alltaf og ötullega barist fyrir bættum hag þess sjóðs, sem ég hef leyft mér að kalla helsta skjól jafnréttis hér á landi, og við höfum alltaf talað fyrir hækkun framlaga til hans við afgreiðslu fjárlaga. Nú stendur svo óvenjulega á að ráðstöfunarfé það sem sjóðnum er ætlað á næsta ári ætti að fara langt með að duga fyrir útlánaþörf að mati stjórnar sjóðsins. Að vísu er ég ekki sammála því mati því það byggist á forsendum sem skiptar skoðanir eru um. T.d. er í áættunum stjórnarinnar ekki gert ráð fyrir víxillánum til fyrsta árs nemenda sem hefur verið mikið deilumál allt frá því að hæstv. fyrrv. menntmrh. og núv. heilbrmrh. vísaði þeim á biðstofur bankanna. Þar er enn fremur gengið út frá sama grunni námslána og gilt hefur þetta ár eftir frystingu hæstv. menntmrh. í ársbyrjun.

Hvorugt þessara atriða erum við sáttar við, en langmesta áhyggjuefnið er þó á hvern hátt lánasjóðnum er áætlað að fjármagna starfsemi sína, þ.e. með lántöku í sífellt hærra hlutfalli. Afleiðingin er síaukinn fjármagnskostnaður og afborganir eldri lána sem nú í ár nema um 214 millj. kr. og þessi liður stefnir í 293 millj. kr. á næsta ári. Þetta er auðvitað alröng stefna. Það er engu líkara en verið sé vísvitandi að grafa undan sjóðnum og eyðileggja grundvöll hans. Við Kvennalistakonur viljum nú láta reyna á það hvort þingheimur vill ekki rétta þessa stefnu aðeins. Við flytjum því brtt. á þskj. 463 um 200 millj. kr. aukið framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna og á móti viljum við lækka lántökuheimild sjóðsins um 200 millj. kr.

Aðra brtt. flytjum við, á sama þskj. reyndar, þar sem við leggjum til að auka framlag ríkissjóðs til Ferðamálaráðs um 30 millj. kr. Svo oft er ég reyndar búin að tíunda meðferðina á Ferðamálaráði hér úr þessum ræðustóli að mér er hálffarið að leiðast þófið, en ég vil enn einu sinni rifja upp að með lagasetningu árið 1976 var Ferðamálaráði ætlaður tekjustofn sem byggði á 10% af söluverðmæti fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli og var allt áfengi og tóbak í fríhöfninni hækkað um 10% í því skyni. Ekki dugði sú lagasetning því Ferðamálaráð hefur aldrei fengið óskert framlag samkvæmt lögum. Við endurskoðun laganna árið 1985 var reynt að setja undir þann leka með því að skylda fríhöfnina til að greiða framlag sitt beint til Ferðamálaráðs. Það dugði ekki að heldur og nú er Ferðamálaráð fjær því en nokkru sinni að hafa bolmagn til að gegna því hlutverki sem því er falið með lögum. Er þetta enn eitt dæmi þess hvernig framkvæmdarvaldið hundsar löggjafarvaldið, en slík dæmi eru mörg og ljót og eru því miður á góðum vegi með að rýja Alþingi og ríkisstjórn trausti almennings og þeirra sem starfa eiga samkvæmt lögunum. Nú er hugsanlegt að stjórnvöld vilji þessa stofnun feiga og víst er að þær raddir hafa heyrst. Ég er því ósammála eins og ljóst má vera, en einstaklega þykir mér ógeðfelld sú aðferð, sem virðist svo hugleikin núverandi ráðherrum, að kyrkja ríkisstofnanir á þennan hátt með algerum sultarframlögum svo að þeim er gert ókleift að gegna hlutverki sínu.

Fleiri brtt. mun ég ekki mæla fyrir, en hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir munu síðar á þessum fundi skýra ástæður brtt. okkar varðandi Námsgagnastofnun, Krabbameinsfélagið, Háskóla Íslands og Rannsóknasjóð, Þróunarsamvinnustofnun og framlög til lista og menningarmála.

Ýmsar aðrar brtt. eru hér fram komnar sem vert væri að fjalla um og lýsa stuðningi við, en ég ætla aðeins að víkja nokkrum orðum að till. á þskj. 404 um framlag til hönnunar nýs húss fyrir starfsemi Alþingis í samræmi við niðurstöður samkeppni um gerð slíks húss sem lauk á s.l. sumri. Kvennalistinn hafnaði þátttöku í flutningi þessarar till. og mun greiða atkvæði gegn henni af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi teljum við ekki tímabært að efna til byggingarframkvæmda á vegum Alþingis. Húsnæðisvanda Alþingis, sem er vissulega mikill og þungbær, má leysa með öðrum hætti. í öðru lagi áttum við engan þátt í samþykkt Alþingis um að efna til samkeppni um húsbyggingu á þessum stað og erum við ekki hlynntar þeirri ákvörðun.

Að undanförnu hefur verið fjallað töluvert um þessa ákvörðun Alþingis og verðlaunatillögurnar í blaðaskrifum og eru þau flest á eina lund. Máli mínu til stuðnings vil ég vitna í skrif tveggja opinberra starfsmanna sem treyst hefur verið til forsjár við varðveislu menningararfs og -verðmæta þjóðarinnar.

Það er þá fyrst grein eftir Ragnheiði H. Þórarinsdóttur sem er borgarminjavörður og forstöðumaður Árbæjarsafns. Greinin nefnist „Deiliskipulag Kvosarinnar“ og birtist í Morgunblaðinu 4. des. s.l. Ragnheiður segir þar m.a.:

„Kirkjustræti 8, 8b og 10. Þetta eru timburhús frá því um aldamót eða fyrr. Nr. 10 er elsta húsið á alþingishússreitnum eða frá því árið 1879. Samkvæmt tillögum skipulagshöfunda áttu þessi hús að fá að standa. Þau eru dæmigerð bæjarhús í Reykjavík og mynda fallega götumynd með Dómkirkjunni og Alþingishúsinu ef þau yrðu gerð upp.

Nú hafa alþingismenn samþykkt að láta byggja yfir sig mikið stórhýsi sem að mínu mati mun raska öllum stærðarhlutföllum í miðbænum. Við erum ýmsu vön, sbr. Morgunblaðshöllina, en það er miður að stofnun allrar þjóðarinnar skuli ætla sér að riðla svo ímynd Kvosarinnar að hún ber vart sitt barr á eftir. Svona stórhýsi mundi algerlega bera þinghúsið og Dómkirkjuna ofurliði. Væri nær að Alþingi væri með í að undirstrika þýðingu miðbæjarins fyrir sögu Reykjavíkurborgar og þjóðarinnar allrar og nýtti sér þau gömlu hús sem fyrir eru á reitnum og léti byggja nýtt hús sem tæki fullt tillit til þeirrar byggðar sem fyrir er.“

Þá er hér grein eftir þjóðminjavörð, Þór Magnússon. Hún birtist sama dag í sama blaði, þ.e. í Morgunblaðinu 4. des. s.l. Og í niðurlagi greinarinnar segir svo, með leyfi forseta:

„Að lokum vil ég víkja suður fyrir Kirkjustræti að þeirri hugmynd sem hvað verst er útfærð, en er ekki á ábyrgð þeirra skipulagshöfunda, en það er hin fyrirhugaða bygging Alþingis.

Svo mun hafa verið ætlast til, er boðið var til samkeppni um nýbyggingu Alþingis á lóðum þess, að taka skyldi mið af gamla Alþingishúsinu. Það yrði áfram fundarstaður Alþingis, en nýbyggingarnar skrifstofur og vinnustofur þingmanna og hýsti aðra starfsemi þingsins. Árangur þessarar verðlaunasamkeppni er vægast sagt hreint tilræði við yfirbragð gamla miðbæjarins, enda hafa þeir sem látið hafa álit sitt í ljós á prenti verið næsta sammála um að hér sé ekki vel farið. Enginn hefur skrifað um verðlaunatillöguna af hrifningu og það er skoðun mín að hér sé um að ræða slíkt ferlíki, hús sem ætlað er að ná allt frá horninu við Thorvaldsensstræti og vestur að Tjarnargötu, að það kaffæri alla byggð í nágrenni þess. Gamla Alþingishúsið verður ekki áberandi þungamiðja þingbygginganna sem vera bæri.

Verður nú bara að vona að þessi teikning verði tekin til rækilegrar endurskoðunar og í staðinn komi mun hæverskara hús sem taki tillit til að gömlu húsin standi. Eins og það birtist nú minnir það helst á sundhöll í útliti og tekur á engan hátt mið af gamla þinghúsinu þótt sýnt sé úr steini svipað og það.

Höfundar skipulagstillögunnar höfðu upphaflega gert ráð fyrir að timburhúsin sunnan Kirkjustrætis yrðu látin standa, enda hafði einu sinni komið fram tillaga frá húsameistara um nýbyggingar Alþingis í þá veru að byggð yrðu vinnuhús Alþingis að mestu á baklóðunum og af hæfilegri stærð og umfangi. En í útboðslýsingum samkeppninnar, sem þingið ákvað sjálft, var svo áskilið að höfundar skyldu gera ráð fyrir í tillögum sínum að þessi hús hyrfu öll fyrir nýbyggingunni. Er slæmt að Alþingi skuli ekki ganga hér fram fyrir skjöldu og sýna metnað til þess að vernda menningararf af þessu tagi, ekki síst þar sem um gjörvalla Evrópu er verið að vinna stórkostlegt átak í flestum borgum um varðveislu menningarminja, einkum gamallar byggðar, og þar standa opinberir aðilar í fararbroddi. Nægir að minna á samþykkt Evrópuráðsins um það efni sem Ísland mun staðfesta innan tíðar.

Ein tillaga í samkeppninni um nýju þingbygginguna gerði ráð fyrir að tvö gömlu húsin stæðu á sínum stað og nýbyggingin kæmi að baki þeirra, með framhlið til suðurs, og þá yrði hús Skúla Thoroddsens, Vonarstræti 12, flutt norður að Kirkjustræti í framhaldi af röð þessara húsa. Sú tillaga var að vísu keypt og merkir það að hún hafi þótt athyglisverð, en ekki fékk hún verðlaun sem fullnægjandi, enda forsendur ekki fyrir hendi svo sem að framan segir.

Hér þarf að fara fram af mikilli varkárni. Alþingi má ekki ganga á undan og láta ryðja burt því sem sett hefur svip á borgina um langa tíð og gæti með góðu móti nýst þinginu framvegis, rétt eins og sést með Vonarstræti 12, þar sem nú eru skrifstofur þingmanna.“

Þessar tilvitnanir sýna það og sanna að mínu viti að við gerðum rétt í því að bíða með frekari áform um þessar húsabyggingar enn um sinn. Við Kvennalistakonur erum þeirrar skoðunar að alþm. hafi ekki efni á að hundsa álit þessa fólks sem byggt er á víðtækri þekkingu og reynslu. Mistök í þessum efnum verða ekki aftur tekin og ég ítreka að við teljum að húsnæðisvanda Alþingis megi leysa á annan hátt og munum greiða atkvæði gegn þessari till. Mér er fullkunnugt um andstöðu fleiri hv. þm. við þetta mál og á bágt með að trúa öðru en þeir greiði atkvæði í samræmi við það.

Herra forseti. Ég held ég láti hér staðar numið í 3. umr. um fjárlög fyrir árið 1987. Þetta eru vond fjárlög sem einkennast af fyrirhyggjuleysi og röngum áherslum og líkurnar til að þau standist tímans tönn eru ekki miklar. Við skulum vona að vöxturinn verði fremur tekjumegin en gjaldamegin án þess að auka byrðar þeirra sem minna mega sín. En ástæða er til að minna á að örlitlar breytingar á forsendum geta raskað dæminu um milljónir króna og milljarða.

Ég vil að lokum endurtaka þakkir sem ég flutti við 2. umr. til meðnefndarmanna minna og aðstoðarfólks nefndarinnar um leið og ég minni á það, sem vitur maður sagði, að jörðin er breið og barmafull af brauði og jafn réttur til brauðsins á að vera markmið okkar allra.