19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

1. mál, fjárlög 1987

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja nokkur orð um fjárlagafrv. almennt, en síðan fjalla um nál. frá samvn. samgm. að beiðni formanns þeirrar nefndar, hv. 3. þm. Norðurl. e., sem þurfti að víkja af þingfundi í dag.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa þm. þeir sem sæti eiga í fjvn. varið nær öllum vinnutíma sínum í að fjalla um fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Það er því ekki úr vegi að fara um það örfáum orðum á lokasprettinum. Það verður þó engin allsherjarúttekt eða yfirlit heldur aðeins vikið að nokkrum þáttum þess.

Ekkert er nýtt undir sólinni og sagan endurtekur sig. Líkt er því farið um frv. til fjárlaga. Meðferð þess er keimlík frá ári til árs, vinnubrögðin svipuð. Það eru aðeins tölurnar sem eiga bágt með að standa í stað. Þær leita yfirleitt upp á við til hækkunar. Það er svo miklu auðveldara að bæta við en draga frá þegar áhugaverð viðfangsefni laða og lokka eins og fagrir fjallatindar og frómar og einlægar óskir um fjárframlög berast að úr öllum áttum.

Þó má segja um sjálft fjárlagafrv. að það fer batnandi að allri gerð og veitir margs konar fróðlegar og gagnlegar upplýsingar ef vel er lesið. Höfundar þess kunna vel til verka og geta jafnvel á grundvelli þekkingar og tækni skyggnst svolítið inn í framtíðina og spáð eða sagt fyrir um óorðna hluti þegar best lætur með ýmsum fyrirvörum.

Fjárlagafrv. það sem nú verður senn að lögum er barn síns tíma ef svo má segja. Það einkennist um margt af almennu efnahagsástandi í landinu, en miklu skiptir að við meðferð þess sé vel á málum haldið. Það speglar og endurspeglar ýmsar myndir úr mannlífinu, afstöðu til óhófs eða sparnaðar, og ríkisfjármálin eru og verða veigamikill þáttur í því að viðhalda efnahagslegu jafnvægi í landinu ef rétt er á haldið.

Á þessu ári verður varla annað sagt en þjóðin hafi búið við góðæri. Það hefur aflast vel og selst vel á erlendum mörkuðum. Það stefnir í viðskiptajöfnuð við útlönd. Hagvöxtur fer fram úr öllum vonum og spádómum. Verðbólgan fer minnkandi og nálgast nú óðfluga eins stafs tölu. Atvinna næg um allt land og allar hlöður bænda fullar af grænum heyjum eftir gott og hagstætt sumar. Landsmenn ættu því að hafa nóg að bíta og brenna um þessar mundir og ekki ætti mönnum að verða skotaskuld úr því að setja saman þokkaleg fjárlög undir svona kringumstæðum.

Það hefur þó reynst fullerfitt að þessu sinni. Til þess liggja ýmsar ástæður. Utan af landsbyggðinni berast daglega fréttir af viðskiptum manna við kvótareglur til sjós og lands. Reynslan af þeim viðskiptum er oft heldur nöpur fyrir menn sem hingað til hafa unnið hörðum höndum við að framleiða sem mest, hvattir til að afkasta sem mestu, stækka búin, auka ræktun o.s.frv. eða þá sækja sjóinn hvenær sem færi hefur gefist. Þeir fiska sem róa, hefur verið sagt, og fast þeir sóttu sjóinn og fleira í þeim dúr.

Ekki verður annars vart en allir hv. alþm. vilji leggja sig fram um að efla atvinnuvegina til lands og sjávar, vinna fyrir fólkið, eins og sagt er, hvar sem er á byggðu bóli, bæta aðstöðu manna og stuðla að jafnvægi í byggð landsins, svo að notað sé orðalag sem alkunnugt er.

Hvaða meginsjónarmið hafa ráðið ferðinni við gerð og meðferð þessa fjárlagafrv.? Vonandi andi sparnaðar og hagsýni og þeirrar sjálfsögðu stefnu að lækka skuldir þjóðarinnar við útlönd. Með þessar staðreyndir í huga ber að þakka það sem þokast hefur áleiðis, en minna jafnframt á það sem ógert er en aðkallandi öðru fremur.

Í grg. með frv. til fjárlaga segir m.a. að framlögum til framkvæmdaverkefna sé stillt í hóf. Framlög til skólamannvirkja, hafnargerða og sjúkrahúsa hækki þó nokkuð að raungildi frá því sem er í ár. Heldur hafa þessi framlög þó reynst ódrjúg í skiptingunni. Á Vesturlandi og víðar er nú svo komið að ríkið skuldar sveitarfélögum, stórum og smáum, svo mörgum milljónum skiptir í skólabyggingum svo að dæmi séu nefnd. Það er sagt að alþm. skipti skólabyggingarfé innan kjördæmanna. Svo er þó ekki í raun. Tillögurnar koma ofan frá. Samþykki menntmrn. þarf áður en framkvæmdir mega hefjast við ákveðna skólabyggingu og röðun framkvæmda miðast við hvar skólabyggingaþörf er brýnust, eins og segir í grunnskólalöggjöf. Hvað sem um þetta er að segja verður með einhverjum hætti að gera sérstakt átak til þess að grynnka verulega á skuldum ríkisins við sveitarfélögin á þessu sviði. Öll aðstaða til náms verður að vera sem jöfnust hvar sem er á landinu.

Um fé til hafnargerða er það að segja að heildarfjárhæðin er hærri en verið hefur tvö s.l. fjárlagaár, en það reyndist einnig ódrjúgt þegar til skipta kom af eðlilegum ástæðum. Þarna verður að bæta um betur, einkum að því er varðar fámennar byggðir þar sem allt veltur á sæmilegri fiskihöfn.

Heilsugæslustöðvar og sjúkrahús eru dýrar framkvæmdir, en þar hafa framfarir orðið miklar víða um land á liðnum árum. Þetta er afskaplega mikilvægt því að góð aðstaða á þessu sviði veitir fólki svo mikla öryggiskennd og léttir mönnum áhyggjur og erfiði í daglegri lífsbaráttu.

Um samgöngumál verður aðallega fjallað á þingi eftir áramót. Þar er stefnan sú að halda sem fastast utan um tekjustofna þá sem veita eiga fé til vegagerðar. En þessa dagana getum við hugleitt hversu litlu við í raun og veru komum í verk á flugvöllum okkar um allt land fyrir það lítilræði sem ætlað er af fé til framkvæmda á flugvöllum á næsta ári.

Ég vík nánar á eftir að nál. um framlög til flóabáta og fjárveitingum sem veittar hafa verið í því tilliti, en ég sé ástæðu til að vekja athygli á því að það er venja að setja í fjárlagafrv. hvers árs þá heildarfjárhæð sem staðið hefur á fjárlögum viðkomandi árs í þessu skyni til þessara verkefna. Til flóabáta og vöruflutninga voru því settar 73,3 millj. í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, en í meðförum nefndarinnar hefur það aðeins hækkað í 74 millj. 10 þús. kr. Verður að teljast að þarna sé vel á málum haldið undir stjórn formanns samvn. samgm., hv. 3. þm. Norðurl. e.

Ég vil einnig geta þess að ég hef fengið fjölmörg bréf á liðnum vikum frá forráðamönnum sveitarfélaga hvarvetna um land, stórum og smáum, þar sem þau hafa kvartað yfir skerðingu á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það má ekki minna vera en minnst sé á þetta atriði héðan úr ræðustól á hv. Alþingi.

Fátt væri auðveldara en að nefna marga fleiri málaflokka, t.d. á sviði atvinnumála, byggðamála og menningarmála, þar sem full þörf væri á ríflegri fjárveitingum en gert er ráð fyrir við þessa fjárlagagerð. Svo er t.d. um ferðamálin, ferðaþjónustuna, sem er vaxandi atvinnugrein og góð uppspretta gjaldeyrisöflunar með auðveldu móti. Að þeirri uppsprettulind er ekki nægilega hlúð í þessu frv. né heldur í frv. til lánsfjárlaga. Þá vantar og mikið á að ríkið ræki skyldur sínar að lögum í öðrum greinum, sbr. ýmis ákvæði í lánsfjárlögum ár eftir ár, t.d. að því er varðar Félagsheimilasjóð og ýmsa fleiri sjóði sem hafa skyldum að gegna við landsbyggðina. Nauðsyn brýtur lög og þetta kann að vera óhjákvæmilegt undir vissum aðstæðum, en má þó með engu móti verða að sljóum vana sem fylgt er árum saman án sérstakrar umhugsunar eða tilrauna til að brjóta málin til mergjar og finna ný úrræði til lausnar þeim á líðandi stund.

Það hefur oft verið sagt að hinar svokölluðu aukafjárveitingar sem tíðkast hafa séu óæskilegar og ætti raunar að afnema. Meðan svo horfir eins og hér hefur verið lýst er það engan veginn fært. Á hinn bóginn verður að teljast hagkvæmt og rétt að hafa sem oftast samband við a.m.k. formann fjvn. þegar um meiri háttar aukafjárveitingar er að ræða eða stefnumarkandi.

Eins og komið hefur fram við þessa umræðu hjá ýmsum ræðumönnum hafa kjarasamningar þeir sem gerðir voru á vinnumarkaði í þessum mánuði haft allvíðtæk áhrif á fjárlagagerðina milli 2. og 3. umr. um frv. og breytt niðurstöðutölum. Það er óumræðilega mikils virði fyrir þjóðina alla að svo víðtækir samningar skuli takast um hin viðkvæmustu hagsmunamál. Þess vegna verður að vona að breytingar þær sem verða á fjárlögum 1987 af þessum sökum verði öllum til góðs þegar á heildina er litið.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um nál. um framlög til flóabáta, fólks- og vöruflutninga frá samvn. samgm., en það álit er á þskj. 445. Um þessi mál fjalla ég, eins og ég gat um áðan, að beiðni formanns samvn. samgm. sem þurfti að víkja af þingfundi í dag.

Samvn. samgm., sem borið hefur þetta heiti frá öndverðu, er í raun og veru ekki annað en samgöngunefndir beggja þingdeilda sem vinna að þessu ákveðna verkefni í góðri samvinnu á hverju þingi. Þessi samvinnunefnd hefur að venju fjallað um þau erindi sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum við landið, svo sem um Faxaflóa, Breiðafjörð, Ísafjarðardjúp og til Vestmannaeyja, til Grímseyjar og vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Enn fremur hefur nefndin fjallað um erindi sem borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði er þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar. Þó að reglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs framlög til þeirra sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.

Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri samgrn., og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, mættu á fundum nefndarinnar og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu að góðu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í hennar þágu.

Skal nú gerð grein fyrir einstökum þáttum, sérstaklega að því er hin stærri verkefni varðar, þ.e. flutninga á sjó og í lofti. Hvort tveggja er að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns sem nefndin úthlutar og um allt það er lýtur að sjóflutningum hefur nefndin fyllri upplýsingar þó að þeir aðilar sem styrks til landflutninga njóta hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina snertir. Þó er í nokkrum tilfellum misbrestur á að reikningar fylgi umsókn og voru nefndarmenn sammála um að styrkur yrði ekki greiddur á næsta ári fyrr en reikningar bærust samgrn. fyrir yfirstandandi ár.

Ég mun nú víkja að stærri bátunum í örfáum orðum. Það er yfirleitt, eins og gefur að skilja, mikið þjónustuhlutverk sem þessi samgöngutæki rækja, en síður en svo að um arðbær fyrirtæki eða gróðavænleg sé að ræða.

Ég vík þá fyrst að Akraborginni. Rekstraraðili Akraborgar, Skallagrímur hf., sækir um 12,5 millj. kr. rekstrarstyrk á næsta ári. Í ár er styrkurinn 10 millj. kr. og rann hann að fullu til greiðslu á lánum hjá Ríkisábyrgðasjóði samkvæmt sérstöku samkomulagi við hann. Í lok september á þessu ári var halli á rekstrinum 7,3 millj. kr. eftir að búið var að taka tillit til fjármunatekna og fjármagnsgjalda. Skammtímaskuldir eru miklar og mikil vanskil við Ríkisábyrgðasjóð. Nefndin fjallaði um þessa stöðu og í nál. er birt skrá yfir stærstu skuldir útgerðarinnar. Nefndin fjallaði um þessa stöðu og kom fram að réttast væri að ríkið yfirtæki þær skuldir sem hvíla á Akraborg, en fyrirtækið fengi síðan ekki rekstrarstyrk.

Þá er næst Breiðafjarðarbáturinn Baldur. Í greinargerð rekstraraðila bátsins um starfrækslu hans fyrstu tíu mánuði þessa árs segir m.a. að áætlunarferðir Baldurs milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey hafi orðið samtals 134. Báturinn flutti í þessum ferðum 5473 farþega og 1071 bifreið. Auk viðkomu í Flatey var sem áður komið við í Skáleyjum, Hvallátrum og Svefneyjum. Í sumaráætlun bátsins fór hann allt að sex ferðir í viku yfir Breiðafjörð, en á tímabilinu 1. október til 30. apríl hafa verið farnar að jafnaði tvær ferðir í viku. Með bréfi til fjmrn. frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, dags. 17. sept. 1986, tilkynnir samgrn. að ákveðið hafi verið að hefja á næsta ári smíði nýrrar Breiðafjarðarferju og yrðu til þeirra framkvæmda veittar nauðsynlegar heimildir á lánsfjárlögum 1987. Áætlað er að ljúka við hönnun ferjunnar á yfirstandandi ári og fullgera útboðsgögn. Reiknað er með að verkið verði boðið út í byrjun næsta árs.

Fagranes gengur um Ísafjarðardjúp og aðra staði á Vestfjörðum. Eins og á undanförnum árum fylgir umsókn rekstraraðila bátsins greinargott yfirlit um rekstur hans út þetta ár. Áætlun fyrirtækisins er í hefðbundnum stíl. Framkvæmdastjóri bátsins gerir ráð fyrir 10% meðaltalshækkun gjaldaliða milli áranna 1986 og 1987 og gerir ráð fyrir 25% aukningu tekna, þar af vegna taxtahækkana 11%.

Þá er það Hríseyjarferjan sem heldur uppi reglubundnum ferðum milli Hríseyjar og lands. Með bréfi sveitarstjóra Hríseyjarhrepps til samvinnunefndar samgöngumála fylgir greinargott yfirlit um rekstur ferjunnar fyrstu tíu mánuði þessa árs. Þar kemur fram að tekjur ferjunnar námu 4,6 millj. kr., en rekstraraðili gerir ráð fyrir að þær verði í árslok um 300 þús. kr. lægri en ráð var fyrir gert. Ástæður þessa eru minni hækkanir á flutningatöxtum en áætlað var og fargjaldahækkanir sem ráðgerðar voru fyrr á árinu náðu ekki fram að ganga. Til reksturs á næsta ári sækir Hríseyjarhreppur um 1,9 millj. kr. í styrk. Enn fremur um 1,2 millj. kr. í stofnstyrk til lengingar ferjunnar á næsta ári.

Þá kemur næst Mjóafjarðarbátur. Þar er sótt um styrk vegna áætlunarferða milli Mjóafjarðar, Dalatanga og Neskaupstaðar. Fyrirkomulag ferðanna er með sama sniði og áður. Farnar eru tvær ferðir í viku frá Mjóafirði til Neskaupstaðar með viðdvöl þar og fara 10-12 klukkustundir í hverja ferð. Þá er farið að Dalatanga jafnoft. Farið er á milli Dalatanga og Mjóafjarðar á landi á sumrin og þegar því verður við komið á vetrum. Þessi bátur er að sögn heimamanna eini möguleikinn til að hafa samband við Neskaupstað þar sem öll verslunarviðskipti fyrir þennan hrepp fara fram.

Þá kem ég næst að Herjólfi sem heldur uppi ferðum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Heildarútgjöld ársins 1985 urðu 90 millj. kr. og rekstrartekjur 58,8 millj. kr. Halli varð því að starfsemi fyrirtækisins sem nam 31,2 millj. kr., en árið 1984 var sá halli 22,7 millj. kr. Upp í þennan halla fékk fyrirtækið ríkisstyrk að fjárhæð 12,5 millj. kr. þannig að tapið fyrir fjármagnsliði var 18,7 millj. kr. á móti 12,8 millj. kr. árið 1984. Samkvæmt bréfi fyrirtækisins til nefndarinnar er áætlun þessi, sem send hefur verið fyrir næsta ár, sett fram í samræmi við forsendur fjárlaga. Gjöld hafa í heild hækkað um 15%, úr 84 millj. í 96,4 millj. kr., en gert er ráð fyrir að tekjur verði 7% hærri en á árinu 1986.

Þá eru það loks flutningar til Grímseyjar sem rétt er að fara um nokkrum orðum. Um síðustu áramót hætti Drangur ferðum sínum um Eyjafjörð og til Grímseyjar. Það ár varð mikill halli á skipinu þrátt fyrir verulegan styrk. Það var sýnilegt að ekki var hægt að halda slíkum rekstri áfram. Á yfirstandandi ári verður kostnaður við þessa flutninga 4 455 000 kr. sem er ekki nema 1/4 af því sem hefði þurft að vera ef Drangur hefði fengið þann styrk sem hann hefði þurft til að halda uppi þessum áætlunarferðum. Samið var við Flugfélag Norðurlands um að flytja þungavörur til Grímseyjar og enn fremur hefur Skipaútgerð ríkisins flutt fisk frá eynni. Þrátt fyrir mjög slæm lendingarskilyrði hefur þetta gengið allvel, en þó hafa strandferðaskipin komið nokkuð oft að eynni án þess að geta lagst þar að bryggju. En því mjög brýnt að hafnaraðstaðan verði bætt. Með því að gera höfnina þannig úr garði að strandferðaskipin geti lagst þar að bryggju í flestum veðrum og miðað við að Flugfélag Norðurlands haldi uppi svipaðri þjónustu og s.l. ár má ætla að sæmilega verði séð fyrir samgöngum í Grímsey og það með ódýrari hætti en áður var. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þessir flutningar muni kosta 5 660 000 kr.

Á liðnum nr. 53, óráðstafað, er 1,2 millj. kr. Það er gert til þess að stöðvist landflutningar til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, eins og gerðist nú í vetur, er búið að semja við Flugfélag Norðurlands um að taka að sér slíka flutninga og verður það greitt eftir reikningi sem um hefur verið rætt að skrifstofustjóri samgrn., Halldór Kristjánsson, annist. En slíkir reikningar yrðu líka bornir undir formenn samgn. beggja deilda Alþingis. Enn fremur er áætlað, ef til kæmi að flytja þyrfti vörur á aðra staði á landinu með flugvélum í neyðartilvikum, að hægt sé að taka það af þessum lið.

Málefni annarra báta verða ekki rakin hér, enda er þar um smáar upphæðir að ræða. Þeir eru Dýrafjarðarbátur, Hnúksnesbátur og Mýrabátur.

Ekki verða heldur tilgreindar sérstakar umsóknir um fjárveitingu til vetrarsamgangna á landi. Ítarlega var fjallað um hverja umsókn og var samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.

Það er rétt að geta þess að stofnstyrkur til Drangs, sem var 10 millj. kr. á þessu ári, fellur nú niður. Ég mun þá að venju víkja að brtt. þeirri sem samvn. samgm. hefur sett fram á þskj. 444 við frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 og renna yfir það þskj. með skjótum hætti:

Við 4. gr. 10-321 1.20 Flóabátar og vöruflutningar. Fyrir „73 300“ kemur: 74 010 kr. Sundurliðun kemur í sérstöku yfirliti á þessa leið: Flóabátar og vöruflutningar, vöruflutningar á landi: Til vetrarflutninga í Breiðavíkurhreppi og Neshreppi utan Ennis 80 þús. Til vetrarflutninga á norðanverðu Snæfellsnesi 80 þús. Til vetrarflutninga í Dalahéraði 160 þús. Snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu 45 þús. Til mjólkurflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 172 þús. Til vetrarsamgangna í Rauðasandshreppi 80 þús. Til vetrarsamgangna í Ketildalahreppi 60 þús. Til vetrarflutninga í Suðurfjarðahreppi 60 þús. Til vetrarsamgangna í Auðkúluhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu 75 þús. Til vetrarsamgangna við Ingjaldssand 126 þús. Snjóbifreið í Önundarfirði 115 þús. Snjóbifreið um Botnsheiði 98 þús., stofnstyrkur 500 þús. Til mjólkurflutninga í Önundarfirði, Dýrafirði, Súgandafirði og Djúpi (Mjólkursamlag Ísfirðinga) 425 þús. Til vetrarflutninga í Álftafirði, Norður-Ísafjarðarsýslu 75 þús. Til vetrarflutninga í Ögurhreppi 45 þús. Til vetrarflutninga í Reykjafjarðarhreppi 45 þús. Til vetrarflutninga í Nauteyrarhreppi 45 þús. Til vetrarsamgangna í Snæfjallahreppi 45 þús. Til vöruflutninga í Árneshreppi 290 þús. Til vetrarsamgangna í Árneshreppi 144 þús., stofnstyrkur 500 þús. Til vetrarsamgangna í Kaldrananeshreppi 45 þús. Snjóbifreið á Hólmavík 50 þús. Fellshreppur 45 þús. Óspakseyrarhreppur 45 þús. Skefilsstaðahreppur 75 þús. Snjóbifreið í Skagafirði 95 þús. Til vetrarflutninga í Haganes- og Holtshreppi 75 þús. Til vetrarsamgangna, Siglufjörður-Sauðárkrókur 250 þús. Til vetrarflutninga í Ólafsfirði 75 þús., stofnstyrkur 500 þús. Snjóbifreið í Dalvíkurlæknishéraði 30 þús. Til vetrarsamgangna í Svarfaðardal 80 þús. Til snjóbifreiðar á Akureyri 60 þús. Snjóbifreið í Grýtubakkahreppi 43 þús. Snjóbifreið í Hálshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu 47 þús. Norðausturleið, Vopnafjörður-Húsavík 630 þús. Til vetrarsamgangna í Fjallahreppi 230 þús. Snjóbifreið Öxarfjörður-Kópasker 73 þús. Snjóbifreið á Þórshöfn 63 þús. Til vetrarflutninga á Bakkafirði 127 þús. Til vetrarflutninga Í Vopnafirði 127 þús. Til vetrarsamgangna í Borgarfirði eystra 144 þús. Til vetrarsamgangna í Hjaltastaðahreppi 45 þús. Til póst- og vöruflutninga á Jökuldal 44 þús. Til vetrarsamgangna á Jökuldal 73 þús., stofnstyrkur 150 þús. Til vetrarflutninga í Möðrudal 92 þús., stofnstyrkur 104 þús. Snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 40 þús. Snjóbifreið á Fjarðarheiði 506 þús. Snjóbifreið á Oddsskarði og Fagradal 600 þús., stofnstyrkur 575 þús. Snjóbifreið Stöðvarfjörður-Egilsstaðaflugvöllur 83 þús. Til vetrarflutninga á Breiðdalsvík 127 þús. Til vetrarflutninga Djúpivogur-Hornafjörður 175 þús., stofnstyrkur 150 þús. Svínafell í Nesjum 47 þús. Til vöruflutninga á Suðurlandi 450 þús. Óráðstafað 1 200 þús.

Flóabátar: Akraborg 11 millj. 500 þús. Baldur 10 millj. 235 þús., stofnstyrkur 1500 þús. Hnúksnesbátur 60 þús. Mýrabátur 15 þús. Fagranes 10 millj. 100 þús. Dýrafjarðarbátur 100 þús., stofnstyrkur 50 þús. Hríseyjarferja 1880 þús., stofnstyrkur 1200 þús. Mjóafjarðarbátur 1725 þús. Herjólfur 19 millj. 350 þús. Eyjafjörður- Grímsey 5 millj. 660 þús. Samtals 74 millj. 10 þús. kr.