19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

1. mál, fjárlög 1987

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við eftir aprílkosningarnar 1983 var mikil spenna ríkjandi í þjóðfélaginu, verðbólga vaxandi og samdráttur í þjóðarframleiðslu, einkum vegna minnkandi sjávarafla. Ríkisstjórnin tókst á við vandann af myndugleik og framkvæmdi hvort tveggja í senn að slá niður verðbólguna og skera niður án þess að til atvinnuleysis kæmi. Þetta kostaði miklar fórnir hjá almenningi og atvinnufyrirtækjum um skeið, en fólkið var með, sætti sig við þrengri kost í von um betri tíð og ríkisstjórnin sigldi í góðum byr.

Verulegt bakslag kom árið 1984 er efnahagslegt jafnvægi fór úr böndunum eftir vinnudeilur þannig að það seig á ógæfuhlið um sinn í þröngu efnahagsástandi. Seinni hluta árs 1985 og 1986 snerist þróunin við, afli jókst, viðskiptakjör erlendis urðu yfirleitt betri, en ýmsir einstaklingar svo og fyrirtæki sátu eftir með uppsafnaðan vanda, húsbyggjendur sem mikilvæg atvinnufyrirtæki í flestum greinum.

Ef þær aðgerðir sem þegar hafa verið gerðar í húsnæðismálum skila sér eins og til er ætlast og ekki dofnar viljinn að slípa af agnúana er ástæða til bjartsýni í þeim mikilvæga málaflokki.

Aðgerðir sem miða í þá átt að styrkja fjárhagsaðstöðu atvinnufyrirtækja með skuldbreytingum ásamt aukningu eigin fjár stuðla að meira öryggi og festu í öllum rekstri, tryggja atvinnu og bæta kjör fólksins þegar fram í sækir ef áframhaldandi tekst að halda verðbólgunni í skefjum. Þá og því aðeins verður verðbólgunni haldið í skefjum að það gagnkvæma traust sem ríkt hefur milli aðila vinnumarkaðarins haldist og ríkisstjórnin tryggi að þau atriði sem skipta sköpum gagnvart kaupmætti launa og rekstrargrundvelli atvinnuveganna haldist, svo sem gengi, skattar, tryggingar, svo og taxtar opinberra þjónustufyrirtækja o.fl., sé ákveðið í samræmi við grundvöll samninga og ekki sé hvikað frá þeim í framkvæmd.

Það er mikið fagnaðarefni að kjarasamningar frá því í febrúar stóðust með góðu samstarfi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar og nýundirritaðir samningar nú í desember bregða vissulega birtu á veginn fram undan. Nýjustu fréttir af töxtum opinberra fyrirtækja lofa þó ekki nógu góðu.

Það sem einkennir þessi fjárlög er fyrst og fremst aðhald, jafnframt því sem reynt hefur verið að bæta nokkuð ýmsa framkvæmdaliði sem komnir voru niður fyrir lágmark. Höfuðmálið er að viðhalda þeim ávinningi sem náðst hefur í baráttunni við verðbólguna. Til að ná þessu markmiði verður m.a. að reka ríkissjóð með halla. Bæði febrúarsamningarnir og nú aftur samningarnir í desember kosta ríkissjóð mikið. Það var lengst af stefnumark Sjálfstfl. að reka hallalausan ríkisbúskap. Nú þegar atvinnuvegirnir og útflutningsframleiðslan eru meiri og fjölþættari en áður og lífskjörin betri og jafnari hefur það sjónarmið verið ofan á að ríkissjóður geti þurft að hlaupa undir bagga til að koma í veg fyrir of mikla röskun í atvinnulífinu svo og lífi fólks og útgjaldasveiflum.

Hallinn á fjárlögum nú í stað aukinnar skattlagningar er einfaldlega hafður til að veita einstaklingum og atvinnufyrirtækjum svigrúm til að lagfæra stöðu sína til að vera betur búin að takast á við vaxandi verkefni í framtíðinni.

Með lágu verðbólgustigi og hagsýnum rekstri er hægt að búast við að mikil fárfesting undanfarinna áratuga fari að skila þjóðinni betri kjörum. Þörf til nýbyggingar er vissulega fyrir hendi, en fjármagnsfrekur stofnkostnaður í ýmsum greinum er minni nú en áður þannig að svigrúm er til að minnka erlendar skuldir án þess að slaka á nauðsynlegri nýfjárfestingu.

Hér er átt við það að um sinn þarf ekki að virkja stórt. Allar stórar hitaveitur eru fullbyggðar þó eftir sé að takast á við fjárhagsvanda nokkurra þeirra. Fiskiskipastóllinn er nægilega stór, sumir segja um of, þannig að þar er fyrst og fremst um nauðsynlega endurnýjun að ræða. Í þessu sambandi má þó ekki gleyma að sum byggðarlög vantar aukið hráefni og verður að finna lausn á því þannig að hagkvæmur rekstur náist í vinnslu. Frystihús og fiskverkunarstöðvar um land allt teljast að stofni að mestu leyti fullbyggðar, en nauðsynlegt er að mæta nýjum markaðsmöguleikum með fullvinnslu á heimaslóð með viðbótarfjárfestingu en minni að vöxtum en áður.

Ekki má samt gleyma því að við erum aðeins á miðri leið að byggja okkur upp t.d. í skóla- og heilbrigðismálum, en í þessum efnum mætti líta til meiri hagsýni en stundum áður. Það er því ekki út í bláinn að við gætum lagt miklu meira fé í samgöngumál en undanfarið og þar með stækkað atvinnu- og markaðssvæði með greiðari og öruggum samgöngum. Þar með mundu leysast allt að því sjálfkrafa mörg þau mál sem teljast byggðavandi í dag, en auðvitað þarf að vaka vel yfir að veita ýmissi atvinnustarfsemi, sem hefur átt undir högg að sækja vegna fjarlægðar og einangrunar, nýja stoð í formi fjármagnsfyrirgreiðslu og annarrar nauðsynlegrar aðstoðar.

Við þetta allt ætti að skapast meira svigrúm til að mæta þeim geysilegu áföllum sem smám saman hafa verið að hvolfast yfir landbúnaðinn og í bili er reynt að laga með tvíeggjuðum sársaukafullum aðgerðum. Bættar samgöngur og stærri atvinnusvæði auðvelda dreifbýlisfólki að leita til fjölþættari starfa í öðrum greinum án þess að þurfa að brjóta allar brýr að baki og blómlegar sveitir leggist í eyði.

Herra forseti. Við afgreiðslu þessara fjárlaga er sem fyrr þröng staða og því margt sem ég og fleiri hefðu viljað sjá öðruvísi. Sífellt vex sá hluti þeirra sem fer til rekstrar, en minna hægt að verja til framkvæmda. Nú var þó þörf að snúa verulega við blaði. Koma hefði þurft meira til móts við samdráttinn á landsbyggðinni með ýmsum aðgerðum. Þar hefði vegið þungt stóraukið fé til samgöngumála. Gagnvart landbúnaðinum vantar fjármagn til að flytja birgðavandann sem fyrst úr landinu samfara nýrri markaðssókn erlendis og innanlands og nýta strax þann mikla markað sem fyrir er í landinu á Keflavíkurflugvelli. Niðurskurður á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þrengir stöðu sveitarfélaganna og skapar aukinn mismun í búsetu sem síst mátti við. Vissulega er gott ef hægt er , að minnka erlendar lántökur með innlendum sparnaði, en verða ekki of margir um innlenda lánsféð með þeim afleiðingum að vextir og verðbólga fara upp? Það eru því vissulega hættuboðar fyrir stafni þrátt fyrir góðæri og aukinn hagvöxt.

Herra forseti. Þótt okkur greini á í ýmsu um leiðir til lausnar er meginmálið að halda verðbólgunni í skefjum. Þar mega Alþingi og ríkisstjórn umfram allt ekki láta deigan síga.