19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

1. mál, fjárlög 1987

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ætli hæstv. utanrrh. og hv. formaður fjvn. séu í húsinu? (Forseti: Forseti skal láta kanna hvort svo sé. Heldur fámennt hefur verið í þingsölum en það kann að vera að menn séu hér í afkimum og ég skal kanna það.) Ég þakka fyrir, ég vildi gjarnan eiga orðastað við þá báða. (Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um það að trúlega er hvorugur þessara aðila í húsinu sem stendur en það verður reynt að gera ráðstafanir til þess að nálgast þá báða.) Herra forseti. Ef ekki er von til þess að þessir aðilar séu í næsta nágrenni þýðir sennilega lítið að senda eftir þeim því að þeir verða þá ekki komnir fyrr en ég er búin með ræðu mína. (Forseti: Það skal upplýst að hv. formaður fjvn. mun ekki langt undan en engu að síður tekur nokkurn tíma að ná til hans. En um hæstv. utanrrh. veit ég ekki.) Ég fer þá fram á, herra forseti, að fá að fresta ræðu minni fram yfir næsta ræðumann ef þess er kostur. (Forseti: Já, forseti skal verða við því. En hins vegar vill hann taka fram að gefnu tilefni að það væri vitanleg ágætt, þó að menn eigi að sinna þingskyldu sinni, að forseta væri kunnugt um það áður en hv. þm. hæfu mál sitt við hverja þeir vildu alveg sérstaklega tala. Þá væri hægt að gera auðveldari ráðstafanir til þess að nálgast þá. Forseti gæti betur sinnt þeirri skyldu sinni ef hann fengi vitneskju um það fyrir fram við hverja ræðumenn vildu eiga orðastað alveg sérstaklega. Ég skal verða við þessum tilmælum því að gnótt manna er á mælendaskrá ef þeir þurfa þá ekki að láta sækja aðra sem fjarstaddir eru. - Það er upplýst að hv. 11. þm. Reykv. hefur fengið hv. formann fjvn. í salinn og þarf ekki á fleiri viðmælendum að halda þannig að hún heldur nú áfram ræðu sinni.)

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað hafa fleiri viðmælendur en ég skal láta mér duga að eiga orðastað við hv. formann fjvn. í þetta sinn.

Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 464 um hækkun á framlagi til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands úr þeim 24 millj. kr. sem er að finna í fjárlagafrv. í 92,7 millj. kr. Við 2. umr. þessa fjárlagafrv. lét ég þess getið að ég mundi bíða 3. umr. með að gera tillögu um framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þar sem mér hafði verið tjáð að fjvn. mundi enga brtt. gera við framlög til þessarar stofnunar við 2. umr. heldur mundu málefni hennar bíða til þeirrar 3. Nú bregður svo við að í brtt. fjvn. við 3. umr. frv. er enga tillögu að finna um að hækka framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. En eins og allir hv. þm. sjá og vita jafngildir það framlag sem henni er ætlað í frv., eða 24 millj. kr., nánast því að leggja stofnunina niður. Engin hækkunartillaga á þessu framlagi er fram komin frá hv. fjvn. og hefur mér verið tjáð að ástæðan muni vera sú að nefndin hafi beint því til ríkisstjórnar og hæstv. utanrrh. hvað gera skyldi í þessum efnum en frá þessum aðilum hafi hins vegar engar tillögur komið um að auka þyrfti framlag til stofnunarinnar.

Í svari sínu við fsp. minni í Sþ. 25. nóv. s.l. tók hæstv. utanrrh. fram að hann hefði hug á að fá bætt úr þeim lágu framlögum sem stofnuninni eru ætluð í fjárlagafrv. og að hann mundi skrifa fjvn. bréf þess efnis. Var mér tjáð að ekkert slíkt bréf hefði borist til nefndarinnar né heldur að tillögur hefðu komið um aukin framlög af hálfu utanrrh. Nú hef ég hins vegar í höndunum bréf frá hæstv. utanrrh. til fjvn. sem er dagsett 13. nóv. s.l, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið leyfir sér hér með að óska atbeina hæstv. fjvn. til þess að eftirfarandi breytingar verði gerðar frá því sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1987.“

Og liður tvö í þessu bréfi er, með leyfi forseta: „Að fjárveiting á lið 03-390 Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði hækkuð verulega frá því sem nú er í fjárlagafrv. í samræmi við einróma ályktun Alþingis í maí 1985.“

Heft við þetta bréf, sem ég hef fengið, eru tillögur frá, að því er virðist, utanrrh. um framlag ríkissjóðs vegna þróunaraðstoðar og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi. Þar er Þróunarsamvinnustofnun Íslands undir einum liðnum og tillaga gerð um hækkun úr 24 millj. í 229 millj. 840 þús., hvorki meira né minna.

Þessi tillaga er ekki sundurliðuð og er það tvímælalaust galli á henni því að þegar um 1000% hækkun er að ræða er það vitaskuld lágmarkskrafa að tillagan sé sundurliðuð og gerð grein fyrir því í hvað er ætlað að verja þessum fjármunum. Af þessu er samt ljóst að bæði bréf og tillaga hafa komið frá hæstv. utanrrh. um þetta mál og nú langar mig til að spyrja hv. formann fjvn., og það er ástæðan fyrir því að ég bað um að hann yrði kallaður í salinn, hvernig þessum málum víkur við. Fyrst tillaga hefur komið frá hæstv. utanrrh., hvers vegna hefur þá engin tillaga komið frá fjvn. um þetta mál? Ég vona að hv. formaður fjvn. geti upplýst mig um þetta á eftir.

Ég hefði gjarnan viljað fá hæstv. utanrrh. í salinn því ég hef líka fáeinar spurningar til hans varðandi þetta mál. Í fyrsta lagi hefði ég viljað spyrja hann að því hvers vegna hann sundurliðaði ekki tillögu sína til fjvn. svo að fjvn. hefði tök á að glöggva sig á því til hvers fénu yrði varið ef það fengist. Einnig hefði ég viljað spyrja hæstv. utanrrh. að því hvers vegna hann hefur ekki fylgt þessu máli fastar eftir en raun ber vitni. Bréf hans er frá því 13. nóv. s.l., það er liðinn heill mánuður síðan það var skrifað og engar fregnir hafa borist af því að hæstv. utanrrh. hafi haft samband við fjvn. um þetta mál síðan. Samt hefur hæstv. utanrrh. ákaflega góðan grunn að standa á í þessu máli þar sem er ályktun Alþingis frá því í maí 1985 um stóraukin framlög til þróunaraðstoðar, þannig að ekki skorti hann rökin, ekki skorti hann grunninn til að fylgja þessu máli eftir.

Í öðru lagi hefði ég viljað spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann viti ástæðuna fyrir því að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur í þetta sinn ekki gengið á fund fjvn. með tillögur sínar eins og venja er til. Þar skýtur nokkuð skökku við, ekki síst með tilliti til þess hversu lágri upphæð er varið til stofnunarinnar samkvæmt prentuðu fjárlagafrv.

Við þessu hefði ég viljað fá svör. Formaður fjvn. er viðstaddur og ég vonast eftir svörum hans hér á eftir en hæstv. utanrrh. er víðs fjarri og því verða hv. þm. að láta sér nægja getsakir einar um það sem ég spurði hann um.

Ég vona að hér sé ekki að sannast það sem ég vakti máls á í fyrirspurnatíma í Sþ. 25. nóv. s.l. að smám saman væri verið að gera Þróunarsamvinnustofnun Íslands óvirka og færa þróunarsamvinnu úr hennar höndum með hinum lágu framlögum. 24 millj. kr. fjárveiting eins og frv. kveður á um mun gera stofnuninni fullkomlega ókleift að sinna verkefnum sínum á næsta ári svo að þessi spurning er í rauninni brennandi.

Samkvæmt ályktun Alþingis frá því í maí 1985 um reglubundna aukningu á framlögum til þróunarsamvinnu hefði þessi málaflokkur átt að fá í sinn hlut hátt á þriðja hundrað millj. kr. Það er um 1000% hærri upphæð en í fjárlagafrv. stendur. Ályktun Alþingis er því enn þverbrotin, mér liggur við að segja að hún sé mölbrotin í þessu fjárlagafrv. og það er vitaskuld staðreynd sem er til lítils vegsauka fyrir hæstv. Alþingi. Mér er reyndar spurn: Hvernig getur Alþingi ætlast til þess að landsmenn taki mark á því og beri virðingu fyrir störfum þess á meðan það sjálft tekur ekki mark á og ber ekki virðingu fyrir ályktunum sínum? E.t.v. getur hæstv. forseti svarað mér einhverju þar um hér á eftir.

Til að bæta um betur og bjarga því sem bjargað verður hef ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur flutt brtt. þá sem er að finna á þskj. 464 þess efnis að framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hækki úr 24 millj. kr. í 92,7 millj. kr. sem er algjört lágmark eigi stofnunin að geta sinnt verkefnum sínum.

Samkvæmt bréfi framkvæmdastjóra stofnunarinnar til stjórnar hennar sem er dags. 11. des. s.l. þarf stofnunin til sinna verka 229 millj. 640 þús. kr. á þessu ári ef vel ætti að vera. Rúmar 92 millj. eru því aðeins fyrir því nauðsynlegasta og ég vil að hv. þm. geri sér grein fyrir því. Samkvæmt þessari sundurliðun þarf stofnunin 5 millj. kr. í skrifstofu- og stjórnunarkostnað, hún þarf 7,8 millj. kr. til þess að standa við norræn samstarfsverkefni sem hún er þegar byrjuð á og hefur þegar skuldbundið sig til að halda áfram með, hún þarf 49,9 millj. kr. til að standa við verkefnið á Grænhöfðaeyjum sem er líka þegar hafið og bundið með skuldbindingum. Aðeins þetta þrennt gerir 62,7 millj. kr. Síðan er að finna í sundurliðun þessari verkefni á borð við aðstoð á vegum félagasamtaka, jarðhitaverkefni með þátttöku íslenskra verktaka, fiskveiðiaðstoð til undirbúnings fiskveiðisamstarfi, m.a. á Costa Rica, þróunarsamstarf Norðurlanda við níu ríki í sunnanverðri Afríku í samræmi við Harare-yfirlýsinguna, vinnuvernd í Kenýa sem er framhaldsaðstoð, mótun námsefnis og kennslutilhögun á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og síðan önnur verkefni ýmis. Þetta er upphæð upp á rúmar 170 millj. kr. sem er í þessum síðari liðum. Til viðbótar við þær 62,7 millj. kr., sem þarf til að framkvæma fyrstu þrjá liðina, hef ég því lagt til að veittar verði 30 millj. kr. til viðbótar til að mæta öllum hinum liðunum og er víst að þar er um enga ofrausn að ræða.

Ég heiti á hv. þm. að veita því atkvæði sitt að þessi stofnun fái 92,7 millj. kr. á þessum fjárlögum eins og tillagan á þskj. 464 kveður á um. Verði sú tillaga hins vegar felld hefur það endanlega sannast að Alþingi hefur engan hug á að standa við ályktun sína um þessi efni og metur hana einskis í reynd.

Herra forseti. Ég hefði einnig gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. menntmrh. í þessari umræðu um fjárlögin en á því mun ekki vera kostur þar sem menntmrh. er víðs fjarri.

Ég hefði viljað eiga orðastað við hæstv. menntmrh. um brtt. á þskj. 403 sem fjallar um 100% hækkun á framlagi til listrænnar starfsemi í landinu. Ég mælti fyrir þessari tillögu við 2. umr. fjárlaga. Þá var hæstv. menntmrh. einnig fjarverandi og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka framsögu mína fyrir þá hv. þm. sem hér eru viðstaddir, sem flestir voru einnig viðstaddir þá, en segi að ekki finnst mér ráðherrar verma þingbekki nú og virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessum fjárlögum og undanskil ég þar vitaskuld hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Mig langar að lokum til að segja fáein orð um eina af mörgum brtt, fjvn. sem er að finna á þskj. 418. Það er tillaga nr. 3, a-liður, og er nýr liður merktur 02-201 1.04 í fjárlagafrv. Tillagan kveður á um að veita skuli 1 millj. kr. til rannsókna í kvennafræðum, öðru nafni kvennarannsókna, sem töluverð umræða varð um fyrir réttu ári síðan þegar fjárlög þessa árs voru til umræðu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. reki minni til þeirrar umræðu. Ég fagna því innilega að hv. fjvn. skuli nú hafa léð þessum rannsóknum liðsinni sitt og ég tek það fram að í þetta sinn voru allar þingkonur sem sæti eiga á Alþingi Íslendinga tilbúnar til að styðja þetta málefni og gerðu það.

Tillaga sama efnis og tillaga fjvn. nú fékk ekki hlýjar móttökur í umræðum á hv. Alþingi um fjárlagafrv. þessa árs fyrir ári síðan og miðað við þau sjónarmið sem þá komu fram er tillaga fjvn. stórt skref fram á við. Þess vegna fagna ég henni sérstaklega og einnig vegna þess að hér er á ferðinni viðurkenning á kvennarannsóknum og kvennafræðum sem ekki hefur áður fengist. Það munar venjulega um minna í þessum efnum. Jafnframt er með tillögunni lagt til að veita fé til vísindarannsókna sem sívaxandi áhugi er fyrir og sem á undanförnum árum hafa sýnt sig að vera bæði frjóar og árangursríkar. Það kom m.a. fram á ráðstefnu um íslenskar kvennarannsóknir sem haldin var í Háskóla Íslands fyrir rúmu ári síðan og ljóst er að hér á landi er fyrir hendi kraftur, hæfni og vilji til stórra verka á þessum vettvangi.

Fjárveiting til þessara rannsókna er því líkleg til að skila ríkulegum arði þótt ekki sé hún í sjálfu sér ýkja stór í sniðum. Ein milljón er vitaskuld ekki mikið en þessir peningar skipta máli fyrir þær félitlu vísindakonur sem hlut eiga að máli. Fyrir þær gildir það sama og fyrir flesta aðra vísindamenn hér á landi sem rannsóknir vilja stunda að margt smátt gerir eitt stórt og að hver króna sem fæst til þessara hluta skiptir máli. Að auki er sérstök fjárveiting til rannsókna í kvennafræðum mikilsverð viðurkenning á þeim rannsóknum eins og ég gat um áðan og því hvatning og styrkur þeim vísindakonum sem í hlut eiga.

Eins og hv. þm. vita var baráttan fyrir jöfnum rétti kvenna og karla til náms bæði löng og ströng. Víst er að aðstæður kvenna til framhaldsnáms eru enn þann dag í dag í ófáum tilfellum lakari en pilta. Þó hefur mikið áunnist í þessum efnum á undanförnum árum og áratugum og árangurinn lætur ekki á sér standa. Sókn kvenna inn á svið grunnrannsókna í öllum helstu fræðigreinum er aðeins rökrétt framhald af almennt aukinni menntun kvenna og var vísast fyrirsjáanleg á sínum tíma. Það sem enginn sá hins vegar fyrir var að konurnar fluttu með sér annan skilning, aðra reynslu og aðra veruleikasýn inn í vísindin sem kallaði á nýja tegund rannsókna, ný viðfangsefni, endurmat og endurnýjun fræðigreinanna og nýja fræðigrein, kvennafræði, sem tekur í sjálfu sér til velflestra hefðbundinna fræðigreina.

Nú hefur þessi sproti skotið rótum í íslenskum jarðvegi og tillagan á þskj. 418 mun gera sitt til þess að búa honum lífvænlegt umhverfi.

Virðulegi forseti. Ég læt þá máli mínu lokið en ég vonast til þess að hv. formaður fjvn. sjái sér fært að svara þeim spurningum sem ég bar fram til hans áðan.