19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. meiri hl, fjvn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 481 er brtt. frá fjvn. við 4. gr. Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Fyrir „24 millj.“ kemur: 30 millj. Þessi hækkun, sem er 25% hækkun fjárframlaga til þessarar stofnunar, er kynnt í þessari till. og það hefur komið fram að í fjárlagafrv. var ekki hækkunartillaga frá því sem er í gildandi fjárlögum.

Hér var við umræðu fyrir kvöldmat varpað til mín fsp. varðandi þetta mál frá hv. 11. þm. Reykv. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Spurningarnar voru sumar þess eðlis að hv. þm. reyndi sjálfur að svara þeim í ræðu sinni. Til að mynda spurði hv. þm. hvort bréf hefði komið til fjvn. frá hæstv. utanrrh. um þetta mál og hv. þm. upplýsti jafnharðan að það hefði komið. Það var að sjálfsögðu úr lausu lofti gripið, sem hún hafði heyrt, því að ekkert slíkt bréf hafði borist nefndinni. Enn fremur var spurt hvort hæstv. utanrrh. hefði haft samband við nefndina. Ég get upplýst að hæstv. ráðh. hafði samband við mig sem formann nefndarinnar varðandi þetta mál og við höfðum rætt það nokkrum sinnum, en það hafði legið fyrir að innan ríkisstjórnar hafði verið um það rætt að þetta mál yrði tekið fyrir á þann máta að leitað yrði eftir samkomulagi í málinu.

Nú höfðu mér ekki borist sem formanni nefndarinnar nein orð um slíkt samkomulag og ég leitaði eftir því fyrr í dag eða morgun hvort það væri komið á og þá varð að ráði að ég mundi flytja fyrir hönd fjvn., ef nefndin féllist á það, þá tillögu við þennan lið fjárlagafrv. sem hér er gerður að umtalsefni. Það varð niðurstaða nefndarmanna, sem ég náði í á þeirri stundu, að fjárhæðin yrði, eins og hér segir, hækkuð um 6 millj. kr.

Ég vænti þess að það sé enginn misskilningur í því að það kemur iðulega fyrir að þrátt fyrir að einhver tiltekinn hæstv. ráðh. sendi bréf til fjvn. og hafi samband við nefndina og formann hennar er það ekki nærri því alltaf sem orðið er við slíkum óskum og er margföld reynsla fyrir slíku. Það er því ekkert sérstakt þó að hér hafi þetta mál ekki komið fram í gögnum sem hefði verið ákjósanlegra að hefðu legið fyrir á eðlilegum tíma. En ég tel að ég hafi sagt það um málið sem þarf til þess að þetta sé upplýst. Ég tel að ekki þurfi að hafa fleiri orð um það.

Hér var hv. þm. Ólafur G. Einarsson að mæla fyrir brtt. við eina af brtt. fjvn. varðandi 6. gr. Það er liðurinn þar sem leitað er heimildar Alþingis til að selja dýpkunarskipið Hák. Ég tel ekki um mikið stórmál að ræða, en það orðalag sem var í tillögu fjvn. byggist á samkomulagi sem hafði orðið innan nefndarinnar og að höfðu samráði við hæstv. samgrh. Ég vænti þess að það orðalag hafi ekki þurft að fara svo mjög fyrir brjóst á hv. þm. að það gæti ekki þar með gengið. Fjvn. hefur ekki neina hneigð til að vilja taka að sér framkvæmdarvaldið í landinu og taka framkvæmdarvaldið af ráðherrum. Það eru þó mörg dæmi þess að tiltekin heimildarákvæði í fjárlögum eru bundin því skilyrði að annað tveggja sé haft samráð við fjvn. eða til þurfi að koma samþykki fjvn. Þetta er stundum gert til þess að hin pólitísku öfl á Alþingi hafi möguleika til að fylgjast með framkvæmd tiltekinna mála og koma þar sínum sjónarmiðum að, jafnvel láta þau ráða úrslitum.

Ég skal ekki gera þetta mál frekar að umtalsefni, en fyrir slíku eru mörg fordæmi og ég get talið þau upp ýmis hver ef á þarf að halda. Ég lít svo til að það samkomulag sem gert var innan fjvn. um þetta mál og eins og ég sagði að höfðu samráði við hæstv. samgrh. sé þess efnis að hv. Alþingi ætti að geta á það fallist.