19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

1. mál, fjárlög 1987

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er búinn að sitja nokkur þing og allan þann tíma sem ég hef setið hér hef ég verið stuðningsmaður ríkisstjórna og hér um bil undantekningarlaust stutt brtt. meiri hl. Ég gerði það einnig um daginn við 2. umr., en nú sé ég ástæðu til að gera athugasemdir við nokkra liði í tillögum hv. fjvn. sem hún kemur fram með við 3. umr. Kannske hefur verið kastað til höndunum um ákveðna þætti því hugsanlega er komin nokkur þreyta í nefndarmenn.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir þessa stofnun og okkur sem störfum hér að standa ákveðinn vörð um þingræðið og við eigum að hafa í heiðri þinglegar venjur, ekki síst við fjármunaráðstafanir eða eignaráðstafanir þjóðarinnar. Það eru ákveðnar venjur sem gilda t.d. um jarðasölu. Sala jarðarinnar Streitis var til umræðu á síðasta þingi ef ég man rétt. Það var flutt sem sérstakt þingmál sem sjálfsagt var og eftir þinglegum venjum. Það náði ekki fram að ganga og urðu um það allnokkrar umræður. Hér finnst mér þetta mál koma bakdyramegin að okkur. Það kemur sem liður á heimildagrein. Og ég er ekkert hissa þó einhverjir þm. hrökkvi við. Ég hef enga skoðun á því hvort rétt sé að selja Streiti eða ekki en ég hef skoðun á því að það sé ekki rétt staðið að heimild til sölu með þessum hætti. Ég tel að rétt væri að áhugamenn um sölu Streitis í Breiðdal beittu sér fyrir því að bera fram frv. um sölu sem fengi þinglega meðferð. Hér er ekki rétt farið að með því að setja málið á heimildagrein. Reyndar er önnur jörð í sömu kippu og gildir náttúrlega það sama um hana.

Öll svona tilvik hafa ákveðið fordæmisgildi. Fordæmisgildi getur skapast af ákveðnum brtt. Nú langar mig til að lesa í brtt. meiri hl. lið 9.11 sem hljóðar svo að það sé heimilt að ábyrgjast með einfaldri ábyrgð lán sem kann að verða tekið á árinu 1987 vegna byggingar sjúkrahússins á Ísafirði til búnaðar- og tækjakaupa í þeim tilgangi að flýta fyrir því að legudeild spítalans verði tekin í notkun og starfsemi hætt í gamla sjúkrahúsinu. Ríkissjóður mun endurgreiða lánið á fjárlögum 1988-1990.

Hvað eru menn að gera hér? Þeir eru að heimila forráðamönnum sjúkrahússins á Ísafirði að slá lán sem er loforð fyrir frá Alþingi að ríkissjóður endurgreiði á árunum 1988-1990. Hér eru menn heldur betur að skapa fordæmi. Nú hef ég ekki kynnt mér nákvæmlega hvað þessi upphæð er há, hve marga tugi milljóna hér er verið að tala um. (SvG: Það er engin upphæð í tillögunni.) Það er engin upphæð í tillögunni. Það er laukrétt hjá hv. 3. þm. Reykv. En með þessu fordæmi hef ég komið auga á leiðina til að gera höfn á Blönduósi. Það er einmitt svona sem við eigum að fara að við næstu fjárlagagerð. (GHelg: Það er ekki hægt að gera höfn á Blönduósi.) Mig undrar ekki á lögfræðiþekkingu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, vinkonu minnar, en verkfræðiþekkingu hennar dreg ég mjög í efa. (GHelg: Ég hef gert staðarathugun.) Hv. þm. hefur ósköp lítið vit á hafnargerð. En ég mun benda Blönduósingum á þessa heimildagrein ef hún kemur til með að standa svo í þessum fjárlögum.

Ég tel að það sé mjög varasamt að standa svona gáleysislega að hlutunum. Ég held að þetta sé allt of rúm heimild og það sé röng stefna að veita svona heimildir og gefa forráðamönnum sveitarfélaga eða þeim sem standa í verklegum framkvæmdum svona mikið svigrúm. Hér er beinlínis verið að skrifa undir óútfyllta ávísun. Svona held ég að ekki eigi að standa að hlutunum.

Ég vil taka fram að mér þykir brtt. hv. þm. Ólafs G. Einarssonar og fleiri þm. um sölu dýpkunarskipsins Háks skynsamlegri en tillaga nefndarinnar. Ég vil láta koma fram að það er fyrirvari um stuðning nokkurra þm. Framsfl. við þessa brtt. Það eru margir af þm. Framsfl. sem telja að óheppilegt sé að farga þessu skipi úr eigu ríkisins og það sé betur komið í almannaeign en í einkaeign með tilliti til þarfa hafna víðs vegar um land.

Hér hafa orðið nokkrar umræður, herra forseti, um hugsanlega yfirtöku ríkisins á Borgarspítalanum vegna bréfs sem lesið var hér úr ræðustóli og lesið í sjónvarpi, dags. 19. des. 1986, til borgarstjórans í Reykjavík, hr. Davíðs Oddssonar. Ég get svarað spurningu hv. 3. þm. Reykv. á þá leið að þetta bréf var ekki borið undir þingflokk framsóknarmanna og þaðan af síður samþykkt í þingflokki framsóknarmanna. Það kemur reyndar fram í bréfinu. „Í tímaþröng undanfarna daga hefur ekki verið unnt að ganga frá samkomulagi um þetta mál eða afla nauðsynlegra heimilda Alþingis.“ Tímaþröngin var svo mikil, eins og bent hefur verið á, að það hefur ekki verið hugað nákvæmlega að orðalagi bréfsins og ekki heldur bréfsefninu. Þetta er heldur snautlegt bréfsefni. Í höfðinu stendur hins vegar: "Forsrh., fjmrh. og heilbr.- og trmrn.“ Það er misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. að halda að þetta bréf sé undirskrifað af hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er ekki undirritað af henni. Í hausnum stendur bara: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Og heilbr.- og trmrn. hefur verið óskrifandi þegar neðar kom á blaðið. Þetta bréf er augsýnilega búið til í mikilli tímaþröng og ekki vannst þá tími til að sýna það heldur í þingflokki framsóknarmanna hvað þá að okkur gæfist tækifæri til að samþykkja það. En það gerir ekki mjög mikið til því að þegar maður les þetta bréf er ekki ástæða til að gera mikið veður út af þessu plaggi. Og hvað stendur í þessu bréfi? Það er ekki verið að tala um sölu Borgarspítalans eins og verið var að gera fyrir nokkrum dögum. Það er verið að tala um hugsanlega yfirtöku ríkissjóðs á eignarhluta borgarinnar í Borgarspítalanum umfram þau 15% sem lögboðin eru. Ég átta mig ekki á því. Ég held að ríkið eigi ekki að taka þessi lögboðnu 15%. Ég hugsa að þau eigi bara að vera kyrr hjá borginni. En við framsóknarmenn töluðum fyrir næstsíðustu borgarstjórnarkosningar um yfirtöku á rekstri spítalans og um það höfum við reyndar verið að tala, ekki að yfirtaka eignirnar. Það getur vel verið að Davíð vilji gefa þessar eignir eða forráðamenn Reykjavíkurborgar vilji gefa þær og þá finnst mér ástæða til að hugleiða hvort við tökum við þeim, enda hljóðar bréfið þar um. Síðar segir í bréfinu, herra forseti:

„Á hinn bóginn liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar til þess að verða við þeirri málaleitan að ríkið taki yfir umræddan eignarhluta“ - Þetta er skrýtilega orðað. - „og hafa drög að samningi legið fyrir, enda leiði það til hagræðingar í rekstri spítalans.“

Þarna er komið að kjarna málsins, herra forseti. Forsenda fyrir þessari hagræðingu er samrekstur Landspítalans og Borgarspítalans. Ákveðin verkaskipting á milli spítalanna, þróun á ákveðinni verkaskiptingu gæti orðið til þess að báðir spítalarnir og deildaskipting þeirra á milli gæti orðið til þess að þarna yrði bætt heilbrigðisþjónusta í landinu. Forsenda fyrir því er samhæfð stjórn, samræmd stjórn þessara tveggja heilbrigðisstofnana og markmiðið bætt þjónusta við sjúklingana. Það gleymist alltaf. Hvorki Borgarspítalinn né aðrir spítalar eru byggðir fyrir borgarstjórann í Reykjavík, Davíð Oddsson, fjmrh. Þorstein Pálsson, hæstv. heilbrmrh. Ragnhildi Helgadóttur né heldur hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson né heldur lækna eða hjúkrunarfólk. Spítalarnir eru byggðir fyrir sjúklingana. (Gripið fram í: Sumir slasa sig meira en aðrir.) Það kann að vera. Þeir eru nefnilega góðir fyrir þá sem meiða sig. En það sem gleymist í allri þessari umræðu eru hagsmunir sjúklinganna. Það eru hagsmunir þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Það er það sem við eigum að hugsa um og hafa fyrst og fremst í huga.

Hér er sagt „að reyna til þrautar þegar eftir áramót að ganga frá samningi um þetta mál við Reykjavíkurborg“ og vitna ég enn til bréfsins. Auðvitað verður reynt til þrautar á þessum gefnu samrekstrarforsendum sem ég hef getið um.

Síðan segir í niðurlagi bréfsins að nauðsynlegra lagaheimilda verði aflað. Þingflokkur framsóknarmanna mun meta þetta mál þegar þar að kemur, eða ef þar að kemur, sem ég satt að segja er ekki að fullyrða á þessari stundu vegna þess að það hefur komið í ljós og ég á reyndar ekki von á því að þetta komi til alvarlegrar athugunar eftir að í ljós hefur komið hin gífurlega andstaða starfsfólks og lækna Borgarspítalans við þessum samrekstrarhugmyndum sem er alger forsenda þess að það sé nokkurt vit í að fara út í þetta fyrirtæki.

Það myndarlegasta við bréfið og það eina sem ég geri verulega veður út af eru undirskriftirnar. Mér finnst forsrh. skrifa miklu myndarlegar nafnið sitt en fjmrh. En efnið er ekkert mikið. Það er ekki mikið sagt í þessu bréfi. Ég met það bara eins og dúsu upp í borgarstjórann í Reykjavík, Davíð Oddsson, til þess að hafa uppi í sér um jólin. Auðvitað fer Borgarspítalinn á föst fjárlög.