19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

1. mál, fjárlög 1987

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Framþróun mála á þessu þingi er svo hröð að það bætast umræðuefni við með hverri stundinni sem líður og hallinn á ríkissjóði eykst um hundruð þúsunda, milljóna, jafnvel milljarða frá degi til dags þannig að þinghald er orðið mjög dýrt þessa síðustu daga ef gjaldmælir væri settur á það.

Ég mæli fyrir nokkrum brtt. við 3. umr. fjárlaga, en að öðru leyti hefur hv, þm. Kristín Halldórsdóttir mælt fyrir hönd Kvennalistans um það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir og tek ég undir mál hennar en hirði ekki um almenna umræðu en vel mér bæði brtt. og nokkur önnur umræðuefni sem komið hafa upp. Ég vil byrja á því að mæla fyrir brtt. á þskj. 462 sem fluttar eru af þingkonum Kvennalistans.

Í fyrsta lagi er um að ræða till. til hækkunar á framlagi til Háskóla Íslands, en þessi till. var einnig flutt við 2. umr. fjárlaga og mælti ég ítarlega fyrir henni þá. Mig langar að vitna í þessu sambandi í Morgunblaðið í dag vegna þess að tillaga okkar fjallar um byggingarvanda Háskóla Íslands. Þar stendur í viðtali við prófessor Ragnar Ingimarsson sem er formaður starfsnefndar háskólaráðs vegna nýbygginga á vegum Háskólans:

„Í ágúst“, segir hann, „árið 1984 skilaði þróunarnefnd skipuð af háskólaráði skýrslu sinni um stöðu Háskólans, væntanlega þróun og greiningu á þeim vandamálum sem við blöstu. Var niðurstaða hennar m.a. sú að húsnæði Háskólans dygði engan veginn til að taka við fyrirsjáanlegum nemendafjölda á sómasamlegan hátt“, sagði Ragnar. „Að vísu hefur ein ný bygging verið tekin í notkun síðan sú skýrsla sá dagsins ljós, Oddi, sem ætlað hefur verið kennslu í hugvísindagreinum. Með tilkomu Odda vænkaðist hagur nokkurra greina, en því er samt þannig farið að fjöldi annarra kennslugreina býr við kröpp kjör. Einsýnt að þessi mikli húsnæðisvandi verði ekki leystur nema með þeim byggingarframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru, en til þess þarf auðvitað fjárveitingu.“

En hefur Happdrætti Háskólans ekki verið ætlað það hlutverk að fjármagna byggingarkostnað Háskólans? „Jú, það er rétt að Háskólahappdrættið hefur þetta hlutverk með höndum, en það má hins vegar ekki gleyma því að fjármunir happdrættisins standa undir kostnaði af viðhaldi þeirra bygginga sem fyrir eru, þær eru nú rúmlega 20 talsins, svo og tækjakaupum vegna kennslu svo að nokkuð sé nefnt. Það er alveg greinilegt að eigi Háskólinn að geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi í nútíð og framtíð þarf að koma til veruleg fjárveiting til nýbygginga.

Árið 1979“, og ég bið hv. fjárveitinganefndarmenn ef þeir skyldu einhverjir vera hér að hlusta vel, „samþykkti fjvn. áætlun til nokkurra ára þar sem gert var ráð fyrir að ríkisvaldið legði til töluverða fjármuni á móti því sem kæmi frá Háskólahappdrættinu. Þessar fjárveitingar komu sér mjög vel, en nú er svo komið að ekki er gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til þessa mjög svo brýna verkefnis. Menn verða að átta sig á að til að Háskóli Íslands geti mætt þeim auknu kröfum sem gera verður til hans sem æðstu mennta- og vísindastofnunar þjóðarinnar verður að leggja til fjármagn til nýbygginga og gera starfsaðstöðu þannig úr garði að þar sé hægt að takast á við verkefni sem við hæfi eru.“

Svo mörg voru þau orð. Sú upphæð sem Háskólanum er ætluð hefur hækkað aðeins síðan við 2. umr., en framlag til fasteignaviðhalds hefur hækkað um 10 millj. kr., úr 15 millj. í 25 millj., og framlag til byggingarframkvæmda einungis um 4 millj. kr., úr 75 í 79 millj. Forráðamenn Háskólans báðu um 150 millj. til byggingarframkvæmda. Þó að framlagið til viðhalds hinna mörgu og dreifðu fasteigna sem tilheyra Háskólanum hafi hækkað dálítið er þó hækkunin til byggingarframkvæmda nánast grátbrosleg. Þær 75 millj. sem þegar standa á fjárlögum undir þessum lið koma allar frá sjálfsaflafé Háskólans, þ.e. frá happdrættisfé Háskólans. Það gera reyndar líka þær 15 millj. sem áður stóðu undir liðnum Viðhald fasteigna. Það er beinlínis sorglegt að ekki skuli ríkja meiri skilningur á málefnum Háskólans meðal stjórnvalda og sýnir þessi ógæfulega ráðstöfun hve allt tal þeirra um framtíðarkosti fólgna í hugviti og hátækni fyrir þetta þjóðfélag er raunar marklítið hjal sem bara virðist tískusveifla í stjórnmálaþrasinu. Menn sem hefðu framtíðina í huga en ekki bara næsta horn mundu fjárfesta Í menntun og rannsóknum fyrir þessa þjóð. Ekki mun ég orðlengja réttlætingar eða röksemdir fyrir þessari fullyrðingu, en vísa til máls míns við 2. umr.

En það er ekki öll nótt úti enn í fjárlagagerð og því munum við freista þess að peningastjórninni verði hughvarf og endurflytjum fyrri brtt. þar sem við leggjum til að framlag til viðhalds fasteigna verði 40 millj. kr. og framlag til byggingarframkvæmda og tækjakaupa verði 150 millj. kr. Bið ég hv. fjárveitinganefndarmenn að endurskoða hug sinn um þetta mál og þingheim allan að sýna því skilning.

Í öðru lagi er um að ræða brtt. vegna Rannsóknasjóðs sem einnig var flutt við 2. umr. Þá var reyndar felld tillaga um hækkun framlags í sjóðinn upp í 150 millj., en honum höfðu einungis verið ætlaðar 50 millj. kr. þriðja árið í röð án þess að hækka í krónutölu milli ára eins og gera má lágmarkskröfu um. Eftir meðferð fjvn. milli 2. og 3. umr. hefur framlag til sjóðsins verið hækkað um 10 millj. kr. og er það einungis til að uppfylla lágmarkskröfur eins og ég áður sagði og það minnsta sem stjórnvöld gátu verið þekkt fyrir að gera. Það má þakka fyrir að þau fundu til sóma síns í þessum efnum. Okkur finnst þó ekki nærri nóg að gert og flytjum því enn brtt. þar sem við leggjum til að hækkun verði á framlagi í sjóðinn upp í 100 millj. kr.

Í þriðja lagi er um að ræða brtt. vegna framlags til Námsgagnastofnunar, nánar tiltekið námsefnisgerð. Við leggjum til að í stað áætlaðs framlags, 8 millj. og 86 þús. kr., komi 17 millj. Með leyfi forseta vil ég vitna í erindisbréf Ásgeirs Guðmundssonar námsgagnastjóra sem hann sendi vegna vanda stofnunarinnar og dags. er 17. des. s.l.

„Á fundi sínum þann 16. des. 1986 samþykkti námsgagnastjórn eftirfarandi bókun og námsgagnastjóra var falið að koma henni á framfæri við ráðherra menntamála og fjármála og alþm.:

Með tilliti til þeirra fjárveitinga sem Námsgagnastofnun eru ætlaðar á næsta ári, 1987, að lokinni 2. fjárlagaumræðu ályktar stjórn Námsgagnastofnunar eftirfarandi:

1. Um áramótin 1984-1985 var námsefnisgerð sú sem verið hafði á hendi skólarannsóknadeildar menntmrn. flutt til Námsgagnastofnunar að boði menntmrh. Stjórn stofnunarinnar var fyrir sitt leyti samþykk þessari ráðstöfun að því gefnu að fullt tillit yrði tekið til þess við fjárveitingar til stofnunarinnar. Sú hefur ekki orðið raunin. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 eins og það lítur út eftir 2. umr. eru ætlaðar ríflega 8 millj. kr. til námsefnisgerðar. Árið 1984, síðasta árið sem verkefni þetta var hjá skólarannsóknadeild, var varið til þessa verkefnis liðlega 17 millj. kr. framreiknað til núvirðis. Hér er því um meira en helmingslækkun að ræða.

2. Auk þess sem að framan greinir gengu í gildi á árinu 1985 ákvæði grunnskólalaga um skólaskyldu nemenda í 9. bekk sem fela í sér skyldu Námsgagnastofnunar að sjá þessum nemendum fyrir ókeypis námsgögnum. Heildarkostnaður Námsgagnastofnunar vegna þessa aldursflokks er áætlaður á árinu 1986 um 12 millj. kr. Hafi fjárveitingavaldið talið sig taka tillit til þessa við fjárveitingu fyrir árið 1986 er ljóst að lækkun til annarra verkefna hefur verið þeim mun meiri.

3. Eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt fyrir árið 1986 varð námsgagnastjórn að leggja til hliðar áætluð verkefni fyrir um það bil 30 millj. kr. Í tillögum stofnunarinnar til fjárlaga fyrir árið 1987 voru þessi verkefni sett inn á áætlun á nýjan leik auk annarra brýnna verkefna. Svo virðist sem enn eigi að hafa tillögur Námsgagnastofnunar að engu.

4. Skv. frv. til fjárlaga 1987 að lokinni 2. umr. eru Námsgagnastofnun ætlaðar 2494 kr. á hvern nemanda í skyldunámi, þeir eru nú 37 608, til útgáfu allra náms- og kennslugagna og annarrar þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita. Ef námsgögn handa forskólanemendum, sex ára börnum, eru reiknuð með, þeir eru 4588, er þessi upphæð 2223 kr. eða sem nemdur andvirði tveggja til þriggja barnabóka á almennum markaði. Námsgagnastofnun gerði tillögu um 4078 kr. á hvern nemanda og gerði þá ráð fyrir námsgögnum handa forskólanemum. Enda þótt stofnuninni sé samkvæmt lögum aðeins ætlað að sinna nemendum í skyldunámi 1.-9. bekkjar hefur reynst óhjákvæmilegt að gefa út námsgögn handa forskólanemum, enda er kennslu haldið uppi fyrir næstum öll sex ára börn í landinu.

5. Við núverandi aðstæður getur Námsgagnastofnun ekki fullnægt þörf skólanna fyrir námsgögn. Ef svo fer fram sem horfir verður enn meiri skortur á námsefni en nú er og gerð og útgáfa nýrra námsgagna stöðvast. Námsgagnastjórn heitir því á Alþingi að samþykkja verulega hækkun fjárveitinga til Námsgagnastofnunar í samræmi við tillögur hennar þegar frv. til fjárlaga kemur til 3. umr.

Þessu er hér með komið á framfæri.

Virðingarfyllst.

Ásgeir Guðmundsson,

námsgagnastjóri.“

Við Kvennalistakonur höfum beitt okkur fyrir málefnum Námsgagnastofnunarinnar frá því að við komum hingað á Alþingi. Við höfum talið það grundvallaratriði að tryggja góða menntun barnanna okkar allra. Hluti af slíkri viðleitni er að búa vel að námsefnisgerð. Í Námsgagnastofnun hefur lengi verið unnið afar mikilvægt og þarft starf af alúð og hugsjón. Það hefur ekki verið í hámælum haft, en verið afar vel metið og þegið af kennurum. Þetta starf hefur alltaf verið unnið af litlum efnum, en er nú afar naumt skammtað í þetta sinn.

Af metnaði fyrir börnin, sem eiga að erfa þetta land og feta út í framtíð mikilla breytinga í atvinnuháttum, breytinga sem krefjast menntunar í veganesti, gerum við tillögu um að framlag til námsefnisgerðar hækki úr rúmum 8 millj, í 17 millj. Ég vona að hv. fjárveitinganefndarmenn beri gæfu til að sinna þessari till. svo og aðrir alþm. að styðja hana.

Í fjórða lagi mæli ég fyrir brtt. um hækkað framlag til hópleitar að brjóstakrabbameini, en Alþingi samþykkti einmitt á árinu 1984 þál. um að hefja slíka leit sem fyrst. Í framhaldi af þeirri samþykkt, fyrirætlunum heilbrigðisyfirvalda og Krabbameinsfélagsins í þeim efnum á nú að hefjast handa við hópleit að brjóstakrabbameini hjá reykvískum konum á næsta ári. Því hefur nýr liður verið tekinn inn á fjárlög undir Heilbrigðismálum, liður 1.30 sem nefnist Brjóstakrabbamein og ætlaðar eru 5 millj. kr. Áætlaður byrjunarkostnaður þessara þörfu framkvæmda var þó um 7 millj. kr. og þýðir þessi niðurskurður að færri konur verða skoðaðar en ætlað var. Til að þessi hópleit komist af stað eins og ráð var fyrir gert leggjum við til að framlag til hennar hækki um 2 millj. kr., úr 5 í 7 millj. Vona ég að hv. fjárveitinganefndarmenn sýni þessu máli velvilja svo og alþm. allir.

Ég er enn fremur meðflm. að brtt. á þskj. 461 sem Jóhanna Sigurðardóttir hv. 2. landsk. þm. hefur þegar mælt fyrir. Þessi till. miðar að því að hækka framlag til aðgerða gegn fíkniefnum úr 1 millj. 95 þús. kr. í 5 millj. Á s.l. ári fluttum við þingkonur Kvennalistans brtt. við fjárlög þar sem við fórum fram á aukið framlag til að fjölga stöðugildum hjá fíkniefnalögreglu sem þá var hart keyrð vegna mikillar aukavinnu og var ofhlaðin verkefnum. Þeirri brýnu nauðsyn að beita sér að langtímaverkefnum gat hún ekki sinnt vegna fámennis og aðstöðuleysis. Þessi till. var felld, en síðan fékk þó rannsóknadeildin nokkra úrlausn þessa vanda með auknum stöðugildum. Verkefni á þessum vettvangi eru þó óþrjótandi, eins og kom fram í máli hv. 2. landsk. þm., og þarf t.d. að koma á virkri fræðslu meðal eldri barna, unglinga og foreldra þeirra um vímuefni og afleiðingar af neyslu þeirra. Mun ekki veita af 5 millj. kr. í þennan málaflokk. Ég skora því á hv. fjárveitinganefndarmenn að sýna þessu máli skilning og þm. alla.

Enn fremur flyt ég brtt. ásamt Svavari Gestssyni á þskj. 474 um 6 millj. kr. framlag til mælinga á stöðugleika fiskiskipa samkvæmt ákvörðun siglingamálastjóra, en það er nýr liður, 10-485 við 4. gr. Þessi till. varðar eitt af þeim atriðum sem fram komu í tillögum frá öryggismálanefnd sjómanna til samgrh. í október 1984, en þar segir í 6. lið, með leyfi forseta:

„Stöðugleiki allra eldri skipa verði mældur svo og þeirra nýrri hafi umtalsverðar breytingar verið gerðar á þeim á byggingartímanum eða síðar. Prófanir skal gera á þyngd veiðarfærabúnaðar og settar reglur um frágang afla í lest og á þilfari, svo sem um skelfisk og afla sem landað er daglega.“

Ég átti sæti í öryggismálanefnd sjómanna og kynntist því þar, sem flestir þm. vita eflaust, að eitt af mörgum atriðum sem valda slysum á sjó er að stöðugleiki skipa er ekki eins og skipstjórnendur halda, enda hefur hann oft ekki verið mældur, einkum eftir að breytingar hafa verið gerðar á skipum. Í framhaldi af þessum tillögum öryggismálanefndar sjómanna skipaði hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason nefnd í janúar 1985 til að gera tillögur um framkvæmd þessarar tillögu öryggismálanefndarinnar auk nokkurra annarra tillagna hennar. Þessi nefnd lagði til eftirfarandi:

1. Árin 1987 og 1988 fari fram athugun á stöðugleika allra þeirra þilfarsfiskiskipa stærri en 12 brúttólesta en minni en 100 brúttólesta sem ekki hafa þegar fullkomin stöðugleikagögn og fullnægja kröfum. Kröfu um stöðugleikaathugun þessara skipa verði fullnægt með auglýsingu. Þetta eru athuganir sem Siglingamálastofnun mun þurfa að sinna og til þess er fjárkrafan gerð sem við flytjum á brtt.

2. Þegar í stað verði hafist handa um að auka fræðslu til sjómanna um undirstöðuatriði stöðugleika með útgáfu fræðslubæklings um stöðugleika og hleðslu fiskiskipa og lögð aukin áhersla á kynningu fræðslumyndar um sama efni.

3. Komið verði á fót endurmenntunarnámskeiði í undirstöðuatriðum stöðugleika skipa hliðstætt því sem nú er kennt á réttindanámskeiðum fyrir undanþágumenn. Námskeið þetta verði haldið í öllum landshlutum á næsta ári.

Í lokatillögu nefndarinnar segir reyndar um þetta mál, í 10. lið þar sem lögð er áhersla á menntunarþáttinn, með leyfi forseta: Gefin verði út kennslubók um stöðugleika skipa. Bókin verði þannig gerð að hún henti í sjómannaskólum og í námi sem veitir yfirmönnum áfangaréttindi.

Aðrar brtt., sem þingflokkur Kvennalista flytur við þessa umræðu, hafa þegar verið fluttar og fyrir þeim hefur verið mælt af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og ég mun því ekki orðlengja þær frekar.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég fagna því að nú skuli veitt 1 millj. kr. framlag til rannsókna í kvennafræðum. Er það sannarlega löngu tímabært og verður örugglega bæði vel þegið og vel nýtt. Rannsóknir kvenna hafa ekki verið áberandi né í hávegum hafðar. en í ljós kom á fjölsóttri ráðstefnu, sem haldin var í hugvísindahúsinu Odda s.l. haust, að þær voru bæði margvíslegar, merkar og mjög þróttmiklar.

Sú reynsla sem konur færa að rannsóknum og hið ólíka sjónarhorn sem þeim gefst í ljósi þessarar reynslu opna oft nýjar víddir í mörgum fræðigreinum. Slíkri opnun fylgir gjarnan urmull nýrra hugmynda og mikill sköpunarkraftur sem verður einmitt þegar ólík en jafngild sjónarhorn mætast. Það lýsir af nýjum degi þegar sú framsýni finnst hér á þingi að veita fé til kvennafræða eins og hér hefur verið gert og hlýtur að verða framhald á því.

Herra forseti. Ég get ekki látið máli mínu lokið án þess að minna á þá fsp. sem hv. 2. landsk. þm. bar fram til hæstv. fjmrh. Sú fsp. er reyndar borin fram af þm. allra flokka, eins og hún gat um, og sprottin af áhyggjum þeirra sem sinna hinum fötluðu, áhyggjum yfir því að svo fjölmörgum brýnum þörfum þeirra er ekki sinnt, þörfum sem mæða á umönnunaraðilum fatlaðra og mest á hinum fötluðu sjálfum.

Svar hæstv. fjmrh. við fsp. okkar þm. um framlög til framkvæmda í þágu fatlaðra staðfesti fullyrðingar forráðamanna fatlaðra um vítaverða skerðingu á framlögum til þeirra. Ég hlýt að harma þennan skort á siðmenningu í þjóðfélagi okkar því að löngum hefur mælikvarði á siðmenningarstig þjóðfélaga miðast við hvernig þjóðin býr að þeim sem minna mega sín. Ég hlýt líka að mótmæla kröftuglega fyrir hönd Kvennalistans að ekki skuli hafa verið felld niður skerðingarákvæði á Framkvæmdasjóð fatlaðra í lánsfjárlögum eftir 3. umr. í Ed.

Ýmis samtök fatlaðra, sem reyndar eru bæði stór og fjölbreyttur hópur fólks með ólíkar þarfir og fötlun, hafa beitt sér fyrir því að kynna alþm. málstað sinn á undanförnum vikum. Jafnframt héldu þau fund fyrir utan þinghúsið fyrir stuttu þannig að tilvera þeirra og um leið þarfir mættu verða þingmönnum augljósari.

Það er erfitt með lýðræðið hve torveldar boðleiðir það á við að leita réttar síns og hve hávær skilaboðin þurfa að verða nú til að þau megi heyrast í glamri og annríki stjórnmála hversdagsins. Eitthvað hefur þessi fyrirhöfn hinna fötluðu þó dugað því að framlag til þeirra hækkaði nokkuð eftir þessar aðgerðir. Þó er þar hvergi nærri nóg að gert og vísa ég til þess sem áður kom fram í máli hv. 2. landsk. þm. um þau sambýli, verndaða vinnustaði, meðferðarheimili og önnur forgangsverkefni sem brýnust eru. Þessi erindi hafa reyndar borist þm. öllum þannig að þeir ættu að vita af þeim. Eins og þm. sagði og Kvennalistakonur hafa margoft bent á er hægt að breyta forgangsröð verkefna þeirra sem fjármögnuð eru til þess að gefa svigrúm til framkvæmda fyrir t.d. þann hóp manna sem er fatlaður í þessu þjóðfélagi.

Ég ætla að svara nokkrum orðum því sem kom fram í máli hv. 5. þm. Vesturl. Hann hefur trúlega ekki hlustað á mál hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur. En af gefnu tilefni vil ég taka fram að við Kvennalistaþingkonur erum ekki á móti því að bæta starfsaðstöðu þingmanna né heldur starfsfólks þingsins. Langt í frá. Þetta þykir okkur sannarlega eftirsóknarvert og löngu tímabært verkefni. Jafnframt erum við fjarskalega hrifnar af nútímalegum vinnubrögðum og allri hagræðingu. Hins vegar berum við líka virðingu fyrir því sem gott er úr gamalli tíð og reynslu, t.d. fyrir svip gamla miðbæjarins.

Ég hygg að hv. 5. þm. Vesturl. hafi ekki hlustað nógu vel og kannske alls ekki á mál hv. 7. landsk. þm. þar sem hún lýsti rökum þeim sem liggja til grundvallar afstöðu okkar. Hún vitnaði í því sambandi til blaðagreina um þetta mál. Önnur greinin var eftir þjóðminjavörð og hin eftir borgarminjavörð. Báðar lýstu andstöðu við þessa hugmynd eins og hún liggur fyrir. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir lýsti fyrst og fremst yfir áhyggjum vegna þessarar ákveðnu byggingar sem gengur þvert á húsfriðunar og húsverndunarsjónarmið. Jafnframt lýsti hún yfir áhyggjum og fullum skilningi á húsnæðisvanda Alþingis sem er vissulega mikill og þungbær, einkum fyrir starfsfólk en líka fyrir þingmenn, en hún taldi að hægt væri að leysa hann með öðrum hætti.

Við Kvennalistakonur erum þeirrar skoðunar að alþm. hafi ekki efni á að hundsa álit þess fólks sem ég vitnaði til áðan, sem byggt er á víðtækri þekkingu og reynslu. Mistök í þessum efnum verða ekki aftur tekin. Og ég ítreka að við teljum að húsnæðisvanda Alþingis megi leysa á annan hátt. Að öðru leyti vísa ég á bug fullyrðingum og ásökunum hv. þm. Eiðs Guðnasonar.

Frá því ég setti mig á mælendaskrá fyrr í dag hefur komið frétt í fjölmiðlum og einnig hafa þm. borist bréf um að til standi a.m.k. viðræður ef ekki beinlínis sala Borgarspítalans til ríkisins eftir áramótin. Af þessu tilefni vil ég minnast á nokkur atriði.

Í Morgunblaðinu í dag skrifar borgarstjóri grein sem kallast „Framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð fari saman í Borgarspítalanum.“ Þar segir, með leyfi forseta: „Í frv. því til fjárlaga sem nú er komið á lokastig meðferðar á Alþingi er gert ráð fyrir því að Borgarspítalinn verði tekinn á fjárlög. Er þetta ítrekuð stefna ríkisvaldsins. Fjárlagafrv. gerir jafnframt ráð fyrir því að fjárveiting til spítalans verði á næsta ári sem næst sama fjárhæð og rekstrarkostnaður verður í ár. Fjárlagaupphæðin er því sýnilega vanreiknuð um 170-220 millj. kr. miðað við óbreyttan rekstur. Að óbreyttu hlýtur að koma til þess að draga þarf verulega úr rekstri spítalans, loka deildum og minnka alla þjónustu eða borgarsjóður situr uppi með hallann óbættan, á það í besta falli undir velvilja ríkisvaldsins hverju sinni hvort hallinn fæst bættur að hluta. Ganga fulltrúa borgarsjóðs með betlistaf til ríkisvaldsins er ekki hlutskipti sem ég vil ætla honum.“

Hér virðist í máli borgarstjórans vera aðalatriðið hvernig borgarsjóður stendur, ekki velferð þeirra sem njóta þjónustu Borgarspítalans, sem eru að mestum hluta, um 75%, Reykvíkingar, né heldur þeirra sem starfa við Borgarspítalann heldur fyrst og fremst ástand borgarsjóðs og það svigrúm sem hann hefur. Þetta er að sumu leyti vel skiljanlegt. Flestir forráðamenn sjóða vilja hafa svigrúm til framkvæmda og fé í sínum sjóði. En það eru fæstir sjóðir sem ná því. Mér finnst borgarstjóri setja ástand borgarsjóðs í fyrirrúm fyrir velferð þeirra sem njóta þjónustu á Borgarspítala. Það eru peningasjónarmið sem ráða þarna umfram þau sjónarmið sem hljóta að þurfa að ráða í rekstri spítala fyrst og fremst.

Hann segir að borgarsjóður sitji uppi með hallann óbættan. Það eru nýjar fréttir vegna þess að ég hef talið að allir þeir sem reka spítala á daggjaldakerfi, eins og Borgarspítalinn hefur verið rekinn, fái sín daggjöld greidd þó einhver dráttur geti orðið á. Það þýðir í raun að borgarsjóður þarf að taka lán þangað til hann fær þessi daggjöld greidd hjá ríkinu. Það kemur fram í máli borgarstjóra efi um það hvort hallinn fæst bættur að hluta. Ég mundi vilja spyrja hvern þann ráðherra sem kýs að svara mér og er viðstaddur, t.d. hæstv. fjmrh. Er hann í húsinu, herra forseti? (Forseti: Hann er áreiðanlega í húsinu.) Eða hæstv. heilbrmrh. ef hún er í húsinu. (Forseti: Hæstv. heilbrmrh. hefur fjarvistarleyfi eins og var tilkynnt í upphafi fundar og hefur síðan verið tilkynnt á fundinum.) Já, ég mundi gjarnan vilja bera þá spurningu fram við hæstv. fjmrh. hvort það sé í raun tilfellið að daggjaldaspítalar fái ekki endurgreiðslu á daggjöldum frá ríkinu eins og virðist vera gefið í skyn í máli borgarstjóra.

Í lok greinar sinnar finnst mér borgarstjóri afsegja sér Borgarspítalanum og rekstri hans hvort sem hann verður keyptur af ríkinu eða ekki. Þetta finnst mér mikill ábyrgðarhluti því að hér stendur, með leyfi forseta: „Ef af samningum um yfirtöku ríkisins á rekstri Borgarspítalans verður ekki og með því að spítalinn verður settur á fjárlög tekur ríkissjóður alfarið við fjárhagslegum rekstri hans. Eðlileg og óhjákvæmileg viðbrögð borgarinnar verða að Borgarspítalinn stofnar til eigin bankaviðskipta og fjárlagaframlög ríkisins verða lögð inn á reikning spítalans sem annast síðan sjálfur og í eigin nafni launagreiðslur og öll innkaup á rekstrarvörum, tækjum og búnaði. Stjórnendur spítalans verða að reka hann innan þess ramma sem fjárlög ákveða, en geta alls ekki vænst þess að borgarsjóður leggi fram rekstrarfé svo sem verið hefur.“

Geta menn hlaupist undan eignarábyrgð á þennan hátt og neitað að reka þá eign sem þeir hafa enn ekki selt? Ég skil það ekki. Þetta vildi ég líka spyrja hæstv. fjmrh. um ef hann er í húsinu. (Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að gera hæstv. fjmrh. viðvart.) Já. Ég hef í raun lokið máli mínu, herra forseti, og hef ekki fleira um þetta að segja þó margt mætti um það segja, en það hefur verið reifað ítarlega hér í kvöld. Hvað mundi herra forseti ráðleggja mér, að bíða eftir hæstv. fjmrh. eða að endurflytja spurningar mínar? (Forseti: Forseti mundi ráðleggja hv. ræðumanni að doka aðeins við.) Já, því ekki vil ég tefja störf þingsins. (Forseti: Ráðherra er kominn.)

Ég vildi leggja tvær spurningar fyrir hæstv. fjmrh. vegna þeirra frétta sem komið hafa í fjölmiðlum í kvöld og ég missti reyndar af vegna þess að ég hafði öðrum hnöppum að hneppa, sömuleiðis vegna bréfs sem þm. barst frá forsrh., fjmrh. og heilbr.- og trmrh. og vegna greinar sem borgarstjóri skrifar í Morgunblaðið í dag um að framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð fari saman í Borgarspítalanum. Spurningarnar eru tvær.

Í fyrsta lagi: Það kemur fram í máli borgarstjórans að Borgarspítalinn verði tekinn á fjárlög sem sé ítrekuð stefna ríkisvaldsins. „Fjárlagafrv. gerir jafnframt ráð fyrir því að fjárveiting til spítalans verði á næsta ári sem næst sama fjárhæð og rekstrarkostnaður verður í ár. Fjárlagaupphæðin er því sýnilega vanreiknuð um 170-220 millj. kr. miðað við óbreyttan rekstur. Að óbreyttu hlýtur að koma til þess að draga þarf verulega úr rekstri spítalans, loka deildum og minnka alla þjónustu eða borgarsjóður situr uppi með hallann óbættan, á það í besta falli undir velvilja ríkisvaldsins hverju sinni hvort hallinn fæst bættur að hluta. Ganga fulltrúa borgarsjóðs með betlistaf til ríkisvaldsins er ekki hlutskipti sem ég vil ætla honum.“

Ég hafði tekið fram í máli mínu að mér fyndist ofuráhersla lögð á velferð borgarsjóðs og ég hefði haldið, e.t.v. ranglega, að þeir spítalar sem væru reknir á daggjaldakerfi fengju endurgjald af hálfu ríkissjóðs þó e.t.v. væri um einhverja töf að ræða áður en það endurgjald væri greitt. Hér talar borgarstjóri um hvort hallinn fengist bættur að hluta, eins og þessi daggjaldarekstur væri ekki greiddur aftur. Er það tilfellið að borgarsjóður fái ekki þessi daggjöld greidd nema e.t.v. að hluta?

Í öðru lagi: Í lok greinar sinnar finnst mér borgarstjóri afsegja sér allri ábyrgð af rekstri spítalans hvort sem ríkið kaupir hann eða ekki því hann segir þar, og ég vitna aftur með leyfi forseta: „Ef af samningum um yfirtöku ríkisins á rekstri Borgarspítalans verður ekki“ - og mér finnst þetta hljóma eins og hótun - „og með því að spítalinn verður settur á fjárlög tekur ríkissjóður alfarið við fjárhagslegum rekstri hans. Eðlileg og óhjákvæmileg viðbrögð borgarinnar verða að Borgarspítalinn stofnar til eigin bankaviðskipta og fjárlagaframlög ríkisins verða lögð inn á reikning spítalans sem annast síðan sjálfur og í eigin nafni launagreiðslur og öll innkaup á rekstrarvörum, tækjum og búnaði. Stjórnendur spítalans verða að reka hann innan þess ramma sem fjárlög ákveða, en geta alls ekki vænst þess að borgarsjóður leggi fram rekstrarfé svo sem verið hefur.“

Ég legg þann skilning í þessi orð að borgarstjóri sé að afsegja sér spítalanum og með því finnst mér hann vera að hlaupast undan ákveðinni ábyrgð sem borgin hlýtur þó að verða að taka á meðan enginn hefur keypt. Er þetta réttur skilningur hjá mér, hæstv. fjmrh.?