19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

1. mál, fjárlög 1987

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér í kvöld hefur farið fram ítarleg umræða um fjárlög fyrir árið 1987. Þeim sem hafa setið hér þetta kjörtímabil finnst sjálfsagt einhverjum að þessi umræða hafi tekið langan tíma, en ég hygg að fyrir fáeinum árum hafi fjárlagaumræða oft staðið þó nokkuð inn í nóttina og þess vegna í rauninni ekkert óeðlilegt við það þó að fari talsverður tími í þessa umræðu. Það sem er hins vegar sérkennilegt við þessa umræðu er eitt og annað sem hefur komið upp í kvöld. Ég hygg að þess séu ekki mörg dæmi að formaður þingflokks stjórnarliðsins telji sig knúinn til að standa upp við 3. umr. fjárlaga til að mótmæla till. formanns fjvn. Ég man ekki eftir því að það hafi gerst þau ár sem ég þekki hér til. Og hv. þm. Páll Pétursson, sem aldrei hefur setið á þingi nema vera stuðningsmaður ríkisstjórna, eins og hann sagði sjálfur, og væri kominn tími til að hann kæmist einhvern tíma í annað hlutverk, (Gripið fram í: Það kemur að því.) greindi frá því að hann hefði aldrei á sínum 15-20 árum hér í þinginu lagst gegn till. meiri hl. fjvn. fyrr en nú. (TG: Dekurbarn.) Spurningin er hver er dekurbarn í þessu máli, hv. þm. Þetta er mjög óvenjulegt. Ég hélt að það væri venjan að þegar fjárlagatill. eru lagðar fyrir væru þær bornar uppi af þingliði stjórnarflokkanna, en það er ekki í þessu tilfelli. Svo virðist sem þinglið stjórnarflokkanna hafi ekki fjallað um till. nema hv. þm. Páll Pétursson hafi fundið hjá sér alveg sérstaka knýjandi innri þörf til að vera á móti formanni fjvn.

Hins vegar verð ég að segja að þær athugasemdir sem hv. þm. Páll Pétursson var með voru að mínu mati allar eðlilegar. Í fyrsta lagi finnst mér að það sé algerlega fráleitt að gera tilraun til að selja jarðir bakdyramegin, eins og hér er gerð tillaga um, eftir að þingið hafði ekki fengist til þess að afgreiða frv. til laga um sölu á jörðinni Streiti í Breiðdal sem ég kann nú orðið að nefna svo. Um þessa jörð fóru fram ítarlegar umræður í fyrra, landgæði jarðarinnar og kosti og sögu hennar allt aftur í sögu Þorsteins Síðu-Hallssonar, og það var rakið rækilega í ræðu hv. 5. þm. Austurl. hvernig jörð þessi hefði verið nefnd í hinum ýmsu handritum að Landnámu. Samkvæmt upplýsingum hans, sem eru mikilvægt innlegg í málið, var jörðin nefnd Stræti í þremur handritum Landnámu, en Streiti í Hauksbók. Þá komu einnig fram fróðlegar upplýsingar um sauðfjárstofn sem átti uppruna sinn á þessari jörð út af ánni Mosu, sem þrjóskaðist við að deyja þó bóndinn gerði ítrekaðar tilraunir til að henda henni í sjóinn, og það komu einnig fram athyglisverðar upplýsingar um stóðhestinn Blakk 129 sem ku hafa verið fæddur á þessari jörð, Streiti, gengið seinna undir nafninu Árnanes-Blakkur og orðið heimsfrægur stóðhestur upp frá því. Hafa komið fram hugmyndir um að það sé vel við hæfi að reisa þessum mikla stóðhesti minnisvarða á jörðinni Streiti og ég teldi eðlilegt að meiri hluti fjvn. yrði viðstaddur þegar minnisvarðinn verður afhjúpaður og ég teldi að það væri fullsæmilegt að hv. þm. Egill Jónsson fengi að draga duluna af minnisvarðanum. (TG: Ég mundi gera hv. þm. að landbrh.) Ja, það er nokkuð seint séð, hugsa ég, en þó er aldrei að vita.

Ég held að það sé í rauninni alveg fráleitt að gera tilraun til þess að selja eignir ríkisins eins og hér er ætlunin að gera og ég skora á meiri hluta fjvn., ég skora á stjórnarliðið að draga þessa till. til baka og leggja einfaldlega fram frv. eftir áramótin þannig að málið geti fengið þinglega meðferð.

Ég tel, eins og hv. þm. Páll Pétursson, að mál af þessu tagi, ef það fer hér í gegn svona, geti haft hættulegt fordæmisgildi og Alþingi á ekki að gera sér leik að því að setja fordæmi með þessum hætti, að reyna að knýja í gegnum þingið á heimildagrein fjárlaga mál sem ekki hefur fengið þinglega meðferð eftir að hafa verið flutt í frumvarpsformi á síðasta þingi.

Það er einnig mjög athyglisvert í öðru lagi, sem hv. þm. Páll Pétursson nefndi í kvöld, hvernig orðuð er ábyrgðarheimildin vegna sjúkrahússins á Ísafirði. Hún er opin og takmarkalaus eins og till. lítur út. Það er mjög sérkennilegt. Það er í fyrsta lagi sérkennilegt að taka sjúkrahús inn á lánsfjárheimild. Ég hygg að fyrir því séu ekki mörg dæmi, en þó einhver. En hitt held ég að sé algert einsdæmi að taka sjúkrahús inn á lánsfjárheimild án þess að tilgreina þá upphæð sem á að afla í lánsfé. Samkvæmt greininni eins og hún er orðuð er unnt fyrir heimamenn að krækja í lán af hvaða upphæð svo að segja sem er sem þarf til verkefnisins og að ríkið verði að greiða þær upphæðir á árunum 1988 og 1989. Ég held að það sé mjög hæpið að þetta þing geti bundið næstu þing með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Það er algengt að fjvn. gefur yfirlýsingar til nokkurra ára varðandi einstök verkefni, en ég hygg að hitt sé sjaldgæft, ef um það eru nokkur dæmi, að á heimildagrein sé reynt að binda komandi þing með þessum hætti.

Í þriðja lagi er það athyglisvert hvernig umræðan hefur verið um sölu á ákveðnu skipi þar sem stjórnarliðar virðast skiptast í marga hópa. Hér tala menn mikið um að það sé óeðlilegt að fjvn. fjalli um mál af þessu tagi eftir að tilboð hefur verið gert í viðkomandi skip. Fyrir því eru mýmörg dæmi að fjvn. hafi tekið á málum af þessum toga. Ég sé fyrir mitt leyti ekkert óeðlilegt við það.

En ég er að nefna þessi mál hér, herra forseti, vegna þess að þau sýna hvað fjárlagaafgreiðsla núverandi ríkisstjórnar er sérkennileg, hvað hún er veikburða, hvað stjórnarliðið er illa samstillt og taugaveiklað. Þegar það liggur fyrir að tekjuauki ríkissjóðs á næsta ári er 3,8 milljarðar kr. kemur út að hallinn er 2,8 milljarðar kr.

Ég hygg að það séu fá dæmi um annað eins. Ég bað fyrr í umræðunni hv. þm. um að nefna mér einn fjmrh. sem hefði staðið verr að stjórn ríkissjóðs en Þorsteinn Pálsson í sögunni. Ég bað um það. Það hefur enginn getað nefnt nokkur dæmi um annan eins halla á ríkissjóði í öðru eins góðæri. Þess eru engin dæmi.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja aðeins að því máli sem ég gerði aðallega að umræðuefni hér í kvöld og það er hugsanleg kaup ríkisins á Borgarspítalanum. Formenn þingflokka stjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að bréf þetta, sem ég las upp í kvöld, var ekki samþykkt í þingflokkum stjórnarliðsins. Páll Pétursson taldi að hér væri um heldur snautlegt plagg að ræða, sagði að Framsfl. hefði alltaf verið þeirrar skoðunar að ríkið ætti að yfirtaka rekstur Borgarspítalans, en það væri ekki þar með sagt að ríkið ætti að yfirtaka eignarhald Borgarspítalans. Þetta er einkar framsóknarlegur málflutningur. Eins og kunnugt er var það stefna Framsfl. fyrir nokkrum árum að selja Borgarspítalann. Nú er hins vegar verið að skapa sér sérstöðu og skilja á milli rekstrar og eignarhalds á því húsi sem Borgarspítalinn hefur yfir að ráða. Og hv. þm. Páll Pétursson lagði á það höfuðáherslu: Samrekstur skal vera, samrekstur. Það er skilyrði Framsfl. að það verði samrekstur á Borgarspítalanum og öðrum sjúkrahúsum í Reykjavík sem ríkið er með. (GJG: Hvað er samrekstur.) Hann útskýrði það ekki nánar, en ég get nokkurn veginn getið mér til um til hvers þessi orðaleikur er farinn af stað. Framsókn ætlar að segja: Við viljum samrekstur. Það er okkar skilyrði. En Sjálfstfl. ætlar aftur á móti að segja: Við samþykkjum sölu á spítalanum eða kaup til ríkisins, en við viljum sjálfstæði spítalans. Næstu vikurnar verður togstreita á milli flokkanna með viðtölum í blöðum og fjölmiðlum. Einn segir sjálfstæði, annar segir samrekstur. Niðurstaðan verður sjálfstæði í samrekstri eða samrekstur í sjálfstæði, eftir því hvernig menn vilja orða það. Niðurstaðan verður sú að framsókn segir: Já, það er vissulega samrekstur, vissulega samrekstur. Það á m.a. að vera sameiginleg sjúklingaskráning á lyflæknisdeildunum og handlæknisdeildunum og hvað það nú er. En Sjálfstfl. segir: Já, en það er samt sjálfstæði. Það er samt sjálfstæði. Svona ætla þeir að þvo sér hvor með sínum hætti og það er bersýnilega niðurstaðan að það á að kaupa spítalann. Ríkið á að yfirtaka spítalann, borgin ætlar að losa sig við spítalann. Þeir þm. Sjálfstfl. sem sitja enn með spurningarmerki í augunum yfir þessu máli mega vita að niðurstaðan verður þessi. En næstu daga og vikur verður eitthvert nudd, framsókn segir þetta og íhaldið segir hitt, og það endar nokkurn veginn í þessum punkti. Það er bersýnilegt. Miðað við það hefði verið heiðarlegra að setja þetta mál inn á heimildagrein fjárlaganna í staðinn fyrir að gera tilraun til að fara á bak við þingið, eins og hér hefur verið gert. Það er óheiðarlegt gagnvart þinginu að mínu mati af þessu tríói ríkisstjórnarinnar, fjármála, forsætis og heilbrigðis, að gera tilraun til að fara á bak við Alþingi Íslendinga með þessum hætti. Það er ekki mikil virðing við Alþingi sem fram kemur í því að reyna að læðast með veggjum í skammdeginu með þetta bréf sem er samið annaðhvort á borgarskrifstofunum eða í Valhöll.

Formaður þingflokks Sjálfstfl. steig í stólinn líka. Og hann sagði: Þingflokkur Sjálfstfl. gaf 10. des. fjmrh. og heilbrmrh. umboð til að leysa þetta mál þannig að kaupin gangi eftir. Það hefði verið samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. að ríkið kaupi spítalann með því skilyrði að sjálfstæði spítalans verði tryggt. Þetta var yfirlýsing formanns þingflokks Sjálfstfl., að leysa þetta mál þannig að kaupin gangi eftir. Ég skrifaði þetta niður eftir hv. þm. Þannig liggur það mál a.m.k. eftir að ég hlýddi á ræðu hv. 9. landsk. þm. Ólafs G. Einarssonar og óska ég eftir að hann verði kallaður hingað í salinn vegna þess að það skiptir mig máli að ég fari rétt með og hvort ég hef tekið rangt eftir eða ekki því þetta skiptir máli í sambandi við meðferð þessa máls.

Meðan ég hinkra eftir honum hef ég aflað mér um það upplýsinga að enginn ráðherra Sjálfstfl., utan þeirra tveggja sem undir plaggið skrifa, vissi um að frá málinu hefði verið gengið í dag. Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórninni með þessum hætti. Málið hefur ekki verið rætt í þingflokkum stjórnarliðsins að heldur. Það sem ég vil inna hv. þm. Ólaf G. Einarsson eftir er þetta: Í kvöld sagðist hv. þm. Ólafi G. Einarssyni svo frá að þingflokkur Sjálfstfl. hafi 10. des. veitt fjmrh. og heilbr.- og trmrh. umboð til að leysa þetta mál þannig að kaupin gangi eftir með því skilyrði að sjálfstæði spítalans verði tryggt. Ég túlkaði þetta þannig að kaupin hafi verið samþykkt, enda verði sjálfstæði spítalans tryggt. Ef þetta er misskilningur hjá mér óska ég eftir því að hv. 9. landsk. þm. leiðrétti þann misskilning. (JBH: Þetta er enginn misskilningur.) Þar kemur sá sem hefur fylgst glöggt með þessum umræðum frá upphafi og þarf nú væntanlega ekki frekari vitna við, en þó þætti mér ekki lakara að hv. þm. Ólafur G. Einarsson svaraði því ég veit ekki til þess að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson svari fyrir þingflokk Sjálfstfl., a.m.k. ekki enn þá hvað sem síðar kann að verða. (Gripið fram í: Ekki enn.)

Ég vil, herra forseti, ítreka mótmæli mín við yfirtöku ríkisins á Borgarspítalanum. Ég mótmæli því vegna þess að ég tel að Reykjavíkurborg sem höfuðstaður landsins eigi að hafa þann lágmarksmetnað að reka sjúkrahús af þessu tagi í höfuðborginni. Ég segi þetta líka vegna þess að ég tel að tilvera Borgarspítalans ýti undir heilbrigðan faglegan metnað í heilbrigðisstofnunum sem hætta væri á að liði undir lok ef þetta væri allt saman hneppt í eina heild. Þetta er mín skoðun og hefur alltaf verið frá því ég fór að setja mig inn í heilbrigðismál. Það var þess vegna sem starfsmenn Borgarspítalans töluðu um að Ragnhildur væri sovétmegin við Svavar. Þeim fannst að sú ríkiseinokunarstefna sem hún mælti fyrir væri ekki í samræmi við þá stefnu sem Sjálfstfl. hafði boðað. Ég rifjaði upp fyrr í kvöld hvernig bláu bækurnar voru sem við fengum heim til okkar í Reykjavík forðum, bláu bækurnar með Borgarspítalanum á forsíðunni, bláu bækurnar með myndum af salarkynnum Borgarspítalans og hamingjusömum sjúklingum á Borgarspítalanum sem höfðu hlotið lækningu meina sinna af því að íhaldið í Reykjavík hafði verið svo almennilegt að byggja spítala. Þetta var stoltið og táknið. Nú er niðurstaðan þessi sem er ástæða til þess að óska Sjálfstfl. til hamingju með: Það á að þjóðnýta þetta stolt, þjóðnýta forsíðumyndir bláu bókarinnar til áratuga. Þvílík reisn yfir þessu liði eða hitt þó heldur, herra forseti!