19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

1. mál, fjárlög 1987

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umræðu, en þau ánægjulegu tíðindi gerðust nú þegar líða tók á þennan fund að þá var í fyrsta skipti hér í þingsölunum farið að tala um byggingu húss á vegum Alþingis. Það hefur ekki verið nefnt hér mér vitanlega síðan 1981 þegar till. var samþykkt um að efna til athugunar á því máli. (JBH: Talaðu hærra.) Ég sagði að það hefði ekki eitt orð verið mælt í þessum sal né í þingsölum Alþingis yfirleitt um byggingu húss á vegum Alþingis fyrr en í kvöld eða í dag þegar okkur er tilkynnt - að vísu kom till. í gær - að forsetar Alþingis og formenn þingflokka hafi ákveðið hvernig að málum skuli staðið án þess að bera það undir þm. og „diskútera“ það í þessum sölum. Það mál eitt út af fyrir sig er nægileg ástæða til þess að flm. till. ættu að draga hana til baka eða við þm. ættum að fella hana á morgun, till. um að fara að hanna ákveðið hús sem aldrei hefur verið ákveðið að byggja. Við höfum aldrei fengið tækifæri til að segja skoðun okkar á því einu sinni hvort það hús ætti að byggja eða byggja ekki. Þetta eru auðvitað óhæf vinnubrögð og ég hygg og veit að enginn forsetanna né flokksformannanna hefur umboð síns flokks til að flytja till. Þeir gera það þess vegna annaðhvort sem einstaklingar eða í mætti þeim sem þeir hafa sótt til flokkanna án þess að þeir hafi umboð til að halda málinu lengra áfram.

Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma. Þetta eru óhæf vinnubrögð. Það hljóta allir að sjá. Auðvitað á sameinað Alþingi að ræða um það hér í þessum sal, og við gerum það náttúrlega ekki úr þessu fyrr en eftir áramótin, hvaða hugmyndir við höfum um stærð og gerð byggingar. Þegar við höfum komist að niðurstöðu um það með atkvæðagreiðslu, með ágreiningi, það er ekkert athugavert við það, það er gleðilegt að það skuli vera ágreiningur og áhugi um málefni Alþingis, þegar við höfum komist að samkomulagi eða afgreitt í atkvæðagreiðslu hvers lags hús skuli byggja í megindráttum, hve stórt og hvar það skuli vera, þá á að taka ákvörðun um hönnun, fyrr ekki. Það er ekki hægt að hanna mörg hús í senn. Í megindráttum verðum við að vita hvaða hús það er sem við viljum að Alþingi byggi.

Það er varla hægt að nefna það að einn hv. þm. og það góður drengur, hv. þm. Eiður Guðnason, skuli tala um pólitískan heigulshátt ef ég hef aðra skoðun en hann á því hvernig leysa eigi húsnæðismál Alþingis sem vissulega eru fyrir hendi. Ég hef margar hugmyndir um þær. Það er hægt að kaupa Oddfellow t.d., kannske á morgun. Það er hægt að fá eina hæð í símahúsinu og leysa þessi mál strax. Það væri líka hægt að hugsa sér Tillögu 2 hér og byggja fyrsta húsið af þeim þrem sem eru engar ófreskjur, það er það minnsta, og það er næst Alþingishúsinu og leysa mjög vel öll vandamál skrifstofuhússins með þessu eina húsi. Fyrir minn smekk þyrfti að vísu svolítið að breyta útlitinu á því húsi, en það væri ekki neitt sem nokkur maður gæti sett út á.

Ég hygg að við eigum að fresta þessu máli. Ég hygg að það væri heppilegast að forsetar Alþingis og formenn þingflokka dragi þessa till. sína til baka, gæfu þm. tækifæri til þess í janúar og febrúar að ræða þessi mál og gæfu nýju þingi tækifæri til að taka ákvörðunina. Það er ekki hægt að ganga þannig fram. Það er óvirðing við Alþingi af hálfu forseta og þingflokksformanna að ætla Alþingi að samþykkja till. án þess að ræða hana. Það er óvirðingin við Alþingi. Virðing Alþingis felst heldur ekki í stórhýsum heldur í hófsemi. Ég hef metnað fyrir hönd Alþingis, ekki minni en nokkur þeirra sem hér hafa verið að beina spurningum að mér rétt eins og ég væri einhver fjandmaður Alþingis. Ég afbýð mér allan þann málflutning.

Það er alveg rétt að mér er heitt í hamsi vegna þess að hér er verið að fremja ósvinnu. Þetta hús, sem á að fara að byggja þarna, verður auðvitað aldrei byggt, það er með þeim hætti. Það er slíkur ofmetnaður í því að það sæmir ekki þjóð eins og Íslendingum að ofmetnast með þessum hætti. Það var flóttamaður sem gekk hér með góðum Íslendingi sem við öll þekkjum. Hann spurði: Hvaða hús er þetta? Þetta er þinghúsið okkar. Hann sagði, þessi útlendingur, þessi flóttamaður: Þetta hlýtur að vera hamingjusöm þjóð sem hefur svona lítið þinghús.