19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

1. mál, fjárlög 1987

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi umræða er orðin nokkuð skrýtin og það er von að mér blöskri. Ég hélt í alvöru talað að það væri verið að tala um fjárlög hér, en svo er allt í einu komin einhver glerhöll. (Gripið fram í. ) Er sjónvarpið hér á ferðinni, já? Það er slæmt að ég skyldi ekki hitta á það.

En hér hefur verið rætt um að byggja Alþingishús á einu bretti. Ég bið: Guð almáttugur hjálpi ykkur öllum saman. Ég get það ekki. Það er alveg útilokað. Ég ber alla virðingu fyrir þessari mestu stofnun Íslands, en ég efa að það hafi nokkurn tímann ráðið betur ráðum en þegar himinninn einn var yfir þingmanni (JBH: Heyr, heyr.) sem talaði fyrir margt löngu. Ég heyri að sumir kannast við söguna. Og það fer vel að einhver skuli enn vita nokkuð til síns heima. Mér finnst einhvern veginn að þið séuð komnir löngu úr sambandi við - ja, himininn a.m.k. Þið eruð svo jarðbundnir, en samt vantar ykkur jarðsamband. Og það er það versta af öllu! Ja, þið megið hlæja allir saman. Það fór svo illa að ég gaf ekki kost á mér í prófkjör vegna þess að mér líkaði ekki samkundan. Nú, það brosa menn í öllum áttum. En hvað um það.

Ég ætlaði ekki, herra forseti, að gera þetta að hlægimáli sem þið voruð að tala um, skaupi. Það er langt í frá og þó ekki svo mjög langt. En þó verð ég samt að telja það hálfgert skaup þegar komið er fram með þessa till. - Og nú sé ég að þingflokksformaður vill segja mér að þegja. (Gripið fram í: Nei, nei.) - þegar menn hyggjast byggja Alþingishús á einu bretti. (ÓE: Við erum ekki að því.) Nei, nú skulum við tala betur saman seinna. En hvað um það. Þegar menn eru með fjárlög sem eru á hvínandi kúpunni gengur ekki svona hugsunargangur. Hann bara gengur ekki. Þið sjáið það sjálf. Og það er um margt rétt sem stjórnarandstæðingar hafa sagt hérna. Við skulum lofa þeim að njóta alls sannmælis. Meira að segja hv. 3. þm. Reykv. Hann er málsnjallastur manna hér á Alþingi. Hann er það. Þið hafið ekki roð við honum. Þetta er bara sannleikur. - Nei, þú þarft ekki að miklast af því. Það er svo langt í frá. Það má vel vera að ég skammi þig hreinlega á eftir. Þú skalt passa þig á þessu öllu saman.

Nei, við skulum passa okkur á þessu, sjálfstæðismenn. Ég held að við séum að fara í hreinan voða. Ég heyri að það eru tveir sjálfstæðismenn sem tala fyrir þessari glerhöll sem ég er ekki þar með að segja að sé alveg rétt til orða tekið. (ÓE: Hefur þú séð teikninguna?) Já, ég hef séð hana. Og ég sé að hún yfirgnæfir þetta þorp sem einu sinni var. En þið eruð komnir svo langt frá þorpinu. Þið eruð ekki þorparar lengur! Það er nú gallinn á ykkur. Þið eruð ekki þorparar.

Herra formaður. Ég er með hreinan skandal hérna. Það þýðir ekki neitt! Jæja, en ef ég þekki formanninn rétt gaf hann mér ekki nokkra ádrepu með þessu augnatilliti. En ég veit ekki hvort ég á að nenna að tefja umræðuna lengur. Mér sýnist að hún sé komin í ónýtt efni, eins og sagt var í gamla daga. Þið eruð hættir að tala um það sem í raun og veru á að tala um í alvöru. Þetta er bara bull og rugl! En þetta Alþingishúsmál líst mér illa á, mjög illa. Ég held að þið ættuð að fara ykkur hægt í því.

En það skulu verða lokaorð mín að þetta er búið að þvælast fyrir ykkur í nokkur ár og þið eruð búnir að kaupa hús hringinn í kringum Alþingishúsið á þeim forsendum að þið séuð að bæta aðstöðu fólksins í kringum ykkur sjálfa. Guð minn almáttugur! Það situr hérna niðri á sama stað. Þið hafið ekkert gert fyrir það. Þetta er nákvæmlega sama og þegar verið er að tala um að hækka láglaunahópana. Þeir sitja alltaf eftir. Og þið megið skammast ykkar!