22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar stefnuræða forsrh. var lögð fram var lagður fram með stefnuræðunni listi yfir milli 90 og 100 þingmál sem stjórnarráðið ætlaði að koma frá sér til meðferðar á þessu löggjafarþingi. Vafalaust eru málin misjöfn eins og gengur. Sum þeirra mættu sjálfsagt missa sig og fækka nokkuð í þessum flokki. En ég vek athygli á því að það eru tillögur stjórnarandstöðunnar sem halda uppi störfum þingsins þessa dagana og fer vel á því. Það væri fróðlegt að vita hvort það er ætlun ríkisstjórnarinnar að láta áður en mjög langur tími líður sjá í eitthvað af því málaflóði sem hún hyggst leggja hér fyrir þingið þannig að það sé hægt að fjalla um mál með eðlilegum hætti í vetur.

Okkur hefur verið stillt upp við vegg á undanförnum þingum aftur og aftur með þeim hætti að stjórnin hefur komið með mál á handahlaupum á síðustu stundum og heimtað að stjórnarliðið og stjórnarandstaðan í þinginu afgreiddu málin án þess að þau fengju nægilega skoðun. Hefur það komið fyrir aftur og aftur að það hefur orðið að taka upp mál á næsta þingi vegna þess hversu flausturslega þau hafa verið unnin í þinginu. Hefur þetta ágerst mjög hin seinni ár og má segja að keyrt hafi um þverbak á næstsíðasta þingi. Ég held að miðað við þá miklu umræðu sem fram fór um bætt þingsköp og breytt og bætt vinnubrögð Alþingis fyrir tveimur þingum sé nauðsynlegt að ítreka að þá kom fram að allir þm. voru þeirrar skoðunar að hérna þyrfti að bæta úr, en það virðist ekki vera að ríkisstjórnin hafi hug á því að stuðla að eðlilegri meðferð þeirra stjórnarfrumvarpa sem hún hyggst leggja fyrir þingið.

Ef það fer svo sem horfir að ríkisstjórnin og ráðherrarnir, með leyfi forseta, sauðar ekki frá sér þessum málum fljótlega, þá er alveg augljóst mál að það er ekki nokkur leið að gera kröfu til þess að þm. afgreiði þessi mál á handahlaupum á örfáum dögum eins og gert hefur verið á undanförnum þingum vegna þess að á undanförnum þingum hefur því verið lofað af núverandi stjórn, sem hefur stóran þingmeirihluta, að standa sig betur á næstu þingum. Ég sé engin merki þess, herra forseti, en vek athygli á þessu vegna þess að á undanförnum fundum hefur það verið þannig hér í hv. deild að það hafa fyrst og fremst verið mál stjórnarandstöðunnar sem hafa haldið uppi störfum í deildunum, sem er vel út af fyrir sig, en ef stjórnin ætlar að koma þessum málum frá sér væri skynsamlegt að hún færi að sýna þau áður en mjög langur tími líður.