20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 3. minni h1. fjh.- og viðskn. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj . 466 frá 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Eins mæli ég hér fyrir brtt. á þskj. 484 sem verið var að útbýta. Bæði nál. og brtt. eru samhljóða nál. og brtt. sem mælt var fyrir í Nd. og þess vegna er ekki ástæða til þess að orðlengja mikið um þær. Ég ætla í mjög stuttu máli að fjalla aðeins um þetta frv., nánast í símskeytastíl.

Framsögumaður meiri hl. nefndarinnar talaði um að þetta frv. væri einfalt í sniðum og einfalt mál. Vissulega má það til sanns vegar færa því að hér er í raun og veru bara um uppfærslur á einstökum töluliðum að ræða. En eins mætti líka segja að þetta frv. væri næsta einfeldningslegt vegna þess að með flutningi þess felst í raun og veru nokkurs konar samþykkt á þeim ágöllum og götum sem komin eru á okkar skattkerfi og með flutningi þess horfa menn algjörlega fram hjá ýmsum þeim atriðum sem jafnvel flm. sjálfir hafa verið að gera athugasemdir við að undanförnu og á undanförnum árum.

Menn horfa fram hjá rangindum álagningar, sem m.a. kemur fram í því að fólk með mjög venjulegar tekjur, og þá er ég hér að vitna til þeirra upplýsinga sem fram komu á þskj. 466 um dreifingu mánaðartekna hjá opinberum starfsmönnum, en þetta er niðurstaða sem þar kemur fram úr könnun á tekjum þeirra, að fólk með mjög venjulegar meðaltekjur borgar mjög stóran hluta af umframtekjum sínum, umfram annars vegar 42 þús. kr. og svo hins vegar 73 þús. kr., í skatta. Eins og segir þar í þskj.: Venjulegt fullfrískt vinnandi fólk lendir að stórum hluta í þessum efstu skattþrepum og greiðir þannig 40 eða 50% af jaðartekjum sínum í tekjutengda skatta. Hér er einungis tekið dæmi af einstaklingum en það er auðvitað hliðstætt fyrir hjón því tekjur hjóna eru skattlagðar sitt í hvoru lagi.

Af þeim sökum er flutt sú brtt. sem hér er á þskj. 484 og fjallar hún einungis um þann einfalda hlut að lækka jaðarprósentur skattþrepanna um 4% og reyna þannig að draga úr þessum mjög svo slæmu áhrifum þessarar álagningar eins og hún fer fram í dag og fyrirhugað er að láta hana fara fram á næsta ári.

Hins vegar vil ég líka í þessari umræðu benda á að menn hafa enn eina ferðina kinokað sér við að taka á skattsvikamálunum, en 18. apríl í vor var lögð fyrir þingið viðamikil skýrsla um skattsvik á Íslandi þar sem í fyrsta sinn er virkilega rannsakað og skoðað hvert umfang skattsvika er. Það verður að viðurkennast að jafnvel þeim, sem þekkingu þóttust hafa á þessum málum og þóttust geta gert sér grein fyrir því hvert ástand þeirra væri, þeim m.a.s. brá þegar þeir sáu þessa skýrslu. Og það er ekki hægt annað en lýsa furðu sinni á því að fjmrh. skuli ekki hafa séð sóma sinn í því að taka á þessu máli því að ekki getur hann borið því fyrir sig að hann hafi ekki haft tímann. Eins og ég minntist á í byrjun kom þessi skýrsla út 18. apríl í vor, var mikið rædd á þingi í vor, og síðan höfðu menn allt sumarið til þess að kanna hug sinn um það hvernig ætti að bregðast við þeim staðreyndum sem fram koma í þessari skýrslu. En ekkert er gert. Ég tel að í því felist einfaldlega það að hér séu ráðamenn, og þá á ég við ráðamenn í stjórnarflokkunum, að samþykkja skattsvikin og náttúru þeirra með því að gera ekki neitt til þess að reyna að draga úr þeim, en með því hefði auðvitað mátt færa ríkissjóði miklar tekjur.

Einnig vil ég í lok míns máls, frú forseti, benda á brtt. Alþýðuflokksþingmanna við frv. til fjárlaga þar sem lagt er til að skera niður um 70% skattaívilnanir fyrirtækja viðvíkjandi ýmsum frádráttarliðum, þ.e. fyrningum, afskriftum og skattfrjálsum framlögum í fjárfestingarsjóði, og hækka neikvæðar viðmiðunartekjur einstaklinga í sjálfstæðum atvinnurekstri sem núna eru um 18 þús. kr. taldar á mánuði, hækka þær um 50%, og skerða ökutækjastyrki sem nema nú að því ætlað er um milljarði. Að þessum tillögum samþykktum mætti lækka tekjuskatt einstaklinga um ca. 420 millj. kr., þ.e. það mætti nota tekjuskattinn til þess sem ætlast var til í upphafi, til tekjujöfnunar.

Frú forseti. Ég á náttúrlega ekki von á því frekar en fyrri daginn að neitt af þessum tillögum verði samþykkt, en það er þó hlutverk stjórnarandstöðunnar og verður það alltaf, hverjir sem í stjórnarandstöðu eru, að koma fram gagnrýni sinni á stjórnvöld hverju sinni með málflutningi og tillöguflutningi. Það sem maður vonast til að einhvern tíma gerist, þó það gerist ekki í dag eða á morgun, er að upp komi sú staða hér á Alþingi að stjórnvöld hlusti á stjórnarandstöðuna og hugsanlega, í þeim tilvikum þar sem mikið á ríður, taki gagnrýni og tillögur stjórnarandstöðunnar alvarlega og skoði þær sem möguleika til lausnar á þeim vandamálum sem menn standa frammi fyrir hverju sinni.

Ég endurtek það sem ég reyndar orðaði í umræðu um fjárlög hér fyrr í dag að ég tel það mikinn ábyrgðarhlut hjá stjórnarþingmönnum að hafna tillögum sem draga úr halla ríkissjóðs um 2 milljarða. Ég fullyrði enn og aftur að þessar tillögur eru raunhæfar og raunsæjar og alls ekki flóknar og ég tel að til þess verði horft í framtíðinni hvaða menn það voru sem höfnuðu því að draga með jafnstórfenglegum hætti úr halla ríkissjóðs eins og fram kemur í þessum tillögum.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað