20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég hafði byrjað ræðu mína hér í gærkvöldi og skýrt frá því hvernig að málinu hefði verið staðið, bæði í umræðu í hv. Nd., svo og í sjútvn. þessarar hv. deildar, og hafði bent á að það lægi ljóst fyrir að hér væri allt of hratt unnið og ekki hefði unnist neinn tími til þess að skoða þetta mál sem skyldi.

Það liggur náttúrlega ljóst fyrir að þetta frv. verður afgreitt sem lög héðan úr deildinni, sjálfsagt á morgun. Mér datt þess vegna í hug hvort við gætum ekki verið enn þá duglegri í þessari hv. deild - nú hefur verið lagt fram hér í hv. deild frv. um fiskmarkað - hvort við ættum nú bara ekki að taka okkur til hér í hv. deild og koma þessu máli með hraði í gegnum deildina svo að þetta mál verði samþykkt sem lög héðan frá Alþingi áður en við förum í jólafrí.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt einmitt í tengslum við það mál sem við e.rum að ræða hér og þá umræðu sem er í þjóðfélaginu um það að gefa fiskverð frjálst. Það væri alls ekki meiri tilætlun gagnvart hv. Alþingi að klára þetta mál hér í nótt og á morgun í báðum deildum og ganga frá því að í byrjun janúar sé hægt að stofna fiskmarkað til þess að tilætlun þeirra laga, sem hér er verið að leggja til að samþykkt verði, og hið frjálsa fiskverð, sem rætt er um að eigi að taka gildi 1. jan., geti notið sín. Það væri ekki meiri tilætlun við hv. Alþingi en sú tilætlun að við göngum frá því að leggja niður opinbert ferskfiskmat. Deildin gæti hér í nótt afgreitt málið með afbrigðum án þess að vísa því til nefndar og boðið Nd. upp á að ganga frá málinu í fyrramálið þannig að útvegsmenn og sjómenn gætu notið þess réttar að selja sinn afla á frjálsum fiskmarkaði hér í Reykjavík í upphafi vertíðar. Það er alls ekki meiri tilætlun en af þinginu er heimtuð í sambandi við þetta mál.

Það er reyndar svolítið skrýtið að hæstv. sjútvrh. telji sig þurfa að leggja fram þetta fiskmarkaðsfrv. nú á allra síðustu klukkutímum þinghaldsins. Það eru svolítið skrýtin vinnubrögð hjá hæstv. sjútvrh., bæði gagnvart því máli og því máli sem við ræðum hér, að vera með þetta allt á síðustu stundu. Ég hef haft fréttir af því að fiskmarkaðsfrv. mun vera tilbúið fyrir nokkru síðan. En af annarlegum ástæðum hefur ekki verið talin ástæða til þess að leggja það hér fram fyrr en í dag. (Gripið fram í.) Hv. 6. landsk. þm. bendir á að það muni hafa legið einhvers staðar hjá framsóknarmönnum. Ég hélt að þeir gerðu sér ekki neitt sérstaklega far um að liggja á sérstökum málum, varla málum sinna eigin ráðherra. En vera má að svo sé.

Það verður sjálfsagt ekki farið að taka fyrir frv. um frjálsan fiskmarkað þó æskilegt væri. Fyrst og fremst ber því að huga að því frv. sem hér er til umræðu.

Eins og ég nefndi hér í ræðu minni í fyrradag og hv. þm. muna eftir, þá var samþykktur heilmikill lagabálkur um Fiskmat ríkisins hér á vordögum 1984. Það fyrirheit var gefið að verið væri að breyta lögum um það fyrirtæki á þann veg að það yrði miklu skilvirkara eftir en áður, það yrði ódýrara í rekstri og ýmsir fleiri kostir áttu að fylgja þeim breytingum sem þá voru samþykktar. En kannske var aðalbreytingin þó fólgin í því að ferskfiskmatið átti að verða miklu virkara, ferskfiskmatið sem verið er að leggja til með því frv. sem hér er til umræðu að leggja niður. Þannig hefur þessi tilætlun hæstv. sjútvrh. og hv. stuðningsmanna hans við afgreiðslu þessa máls hér á hv. Alþingi 1984 farið fyrir bí. En það er ekki vegna þess að það hafi ekki verið gerðir ýmsir hlutir til þess að reyna að standa við þetta fyrirheit? Jú, jú, það voru gerðir ýmsir hlutir, m.a. mun hafa verið sett á stofn ansi mikið tölvuapparat hjá Fiskmatinu. Gaman væri nú að sjá hæstv. sjútvrh. hér í deildinni svo hægt væri að leggja fyrir hann eina og eina spurningu. (Gripið fram í: Hann er í atkvæðagreiðslu.) Ja, það liggur ekkert sérstaklega á. Við erum ekki það mikið að flýta okkur. (Gripið fram í: Nei, nei, það liggur ekkert á.) Nei, það liggur ekkert á.

Meðan við bíðum eftir ráðherra skal ég aðeins lofa mönnum að heyra um ýmsa þá þætti sem Ríkismatið hafði á prjónunum í sambandi við það að styrkja ferskfiskmatið. Ég held að það sé nauðsynlegt að hv. þm. geri sér aðeins grein fyrir því hversu rösklega hefur verið unnið að því á undanförnum árum, eða síðan lagabreytingin var gerð 1984, að styrkja þessa grein Ríkismatsins. Ég held því að rétt sé að ég lesi hér ávarpsorð fiskmatsstjóra, Halldórs Árnasonar, í blaði sem Fiskmatið gaf út, hóf útgáfu á m.a. til þess að leggja áherslu á og gefa upplýsingar um það hvernig ferskfiskmatið væri framkvæmt hjá stofnuninni og hvernig stofnunin er að búa sig í stakk til að vinna að þessu verkefni. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þessi ávarpsorð fiskmatsstjóra.

Fyrirsögnin er „Aukin gæði og bætt meðferð afla.“ Og svo kemur sjálft ávarpið:

„Með þessu fréttabréfi er hafinn nýr þáttur í starfsemi Ríkismats sjávarafurða. Það sem eftir er vetrarvertíðar munu koma út átta fréttabréf með yfirskriftinni „Aukin gæði og bætt meðferð afla.“ Þau koma út á þriðjudögum með upplýsingum um gæðamat frá laugardegi til föstudags. Með því að koma fram með nýjar upplýsingar vill Ríkismatið beina athygli þeirra sem við sjávarútveg starfa að þeim mikilvæga þætti sjávarútvegs sem góð meðferð afla er og stuðla að auknum gæðum hans. Áður birti Ríkismatið samantekt á gæðamati vertíðarinnar 2-3 mánuðum eftir að henni lauk. Nú er verið að tölvuvæða starfsemi stofnunarinnar til að öll gagnavinnsla verði fljótvirkari.“ - Sem innskot vil ég undirstrika þetta, að þarna nefnir fiskmatsstjóri að verið sé að tölvuvæða stofnunina til þess að gagnavinnslan verði virkari og það sé auðveldara að koma upplýsingum til viðskiptamanna stofnunarinnar. Og áfram held ég, virðulegi forseti, með ávarpsorð fiskmatsstjóra:

„Hvergi er til á einum stað jafnmikið af gögnum um gæði íslensks sjávarafla og hjá Ríkismatinu. Úr þessum gögnum má vinna upplýsingar um mikilvæga þætti sjávarútvegs. Samkvæmt lögum skal Ríkismat sjávarafurða taka sýni af, meta og skrá gæði afla úr hverri veiðiferð. Á grundvelli þessara gagna er hægt að vinna upplýsingar um breytingu á gæðum landaðs afla frá degi til dags eftir verstöðvum og veiðiskipum.“ - Hérna hefði ég nú reyndar þurft að spyrja virðulegan og hæstv. sjútvrh. um það hvað yrði gert við öll þessi gögn. (VI: Hann kemur strax og atkvæðagreiðslu er lokið.) Já. Þá er nú ekki annað að gera en bíða með spurninguna en halda áfram með lesturinn:

„Nú er verið að efla starfsemi Ríkismatsins til þess að það geti fljótt veitt staðgóðar upplýsingar um hvernig staðið er að nýtingu okkar mikilvægustu auðlinda. Í þessu sambandi skal haft í huga að verðmæti auðlindarinnar ræðst af því verði sem við fáum fyrir afurðirnar. Verð á mörkuðum ákvarðast hins vegar að verulegum hluta af gæðunum. Þess vegna þurfum við ætíð að hafa sem gleggstar upplýsingar um gæði sjávarafla og afurða.“ - Hér hefði ég náttúrlega þurft að spyrja ráðherra um hvernig skuli staðið að geymslu þessara upplýsinga líka. Áfram heldur fiskmatsstjóri:

„Í hugum margra er hlutverk Ferskfiskmatsins eingöngu það að meta afla í gæðaflokka svo ákvarða megi hvaða verð skuli greiða fyrir hann. M.ö.o. að það sé hluti af verðlagningarkerfi sjávarútvegsins. En Ferskfiskmatið hefur annað og ekki síður mikilvægt hlutverk sem ætlunin er að varpa ljósi á með útgáfu þessara fréttabréfa. Þess vegna er ákveðið að safna upplýsingum um gæði þess afla sem á land berst og koma þeim á framfæri við aðila sjávarútvegsins.“ - Kannske þetta sé markmiðið, virðulegi forseti, sem er orðið dautt og ógilt þó að það hafi verið svona mikilsvert fyrir rúmu ári síðan. Og svo er feitletrað:

„Upplýsingar um gæði afla eru forsenda fyrir ákvörðunum um gæðamál og skynsamlegri nýtingu fiskistofnanna.“ - Vera má, virðulegi forseti, að þetta séu rök sem séu nú úr sér gengin. Og áfram segir fiskmatsstjóri:

„Ferskfiskmatið er oft gagnrýnt fyrir það að það sé ekki samræmi í matinu milli verstöðva og það sé á ýmsan hátt ekki nógu áreiðanlegt. Við sem störfum hjá Ríkismati sjávarafurða gerum okkur fulla grein fyrir að þessi fréttabréf munu kalla fram slíka gagnrýni. En við teljum nauðsynlegt að fá hana upp á yfirborðið.“ - Virðulegi forseti. Skyldi þessi gagnrýni hafa komist upp á yfirborðið? Ef svo er ekki, er þá ekki þörf á að halda þessu fréttabréfi áfram og leita að og ná þessu markmiði? (Gripið fram í: Ertu ekki sammála þessu?) Jú, jú, alveg sammála þessu.

„Að hluta til er eðlilegt að mönnum sýnist sitt hvað um framkvæmd ferskfiskmatsins því að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Að því marki sem gagnrýnin beinist að þáttum sem betur mega fara í starfi Ferskfiskmatsins munum við reyna að bregðast sem skjótast við og bæta þar um. Með góðum vilja og samstarfi allra sem tengjast Ferskfiskmatinu er það trú okkar að fréttabréfið muni leiða til mun áreiðanlegra mats.

Oft heyrist sagt að Ferskfiskmatið verðfelli afla þegar hann lendir í lægri gæðaflokka. Þá er gjarnan sagt að matið sé gott þegar matið lendir í háum gæðaflokki. Nauðsynlegt er að hafa í huga að Ferskfiskmatið er eingöngu til þess að segja til um hvert ástand fisksins er. Hafi verðmæti fisksins rýrnað er það vegna þeirrar meðferðar sem hann hefur hlotið áður en hann kom í matið. Það eina mat er gott sem sýnir raunverulegt ástand fisksins. Mat þar sem fiskur lendir í hæsta gæðaflokki, þegar í raun er um lélegan fisk að ræða, er slæmt mat. Það sama gildir ef góður fiskur lendir í lágan gæðaflokk.“ - Gæti nú verið, virðulegi forseti, að menn hafi komist fyrir það sem hér er verið að lýsa vegna útgáfu þessa bréfs eða að menn hafi von um og trú á því að hinir nýju aðilar, sem eiga að taka á sig þetta mat, leysi þetta betur en gert hefur verið? En enn heldur fiskmatsstjóri áfram:

„Þar sem hér er um frumraun að ræða í útgáfu svo nýrra upplýsinga um ferskfiskmat reyndist nauðsynlegt að takmarka umfang verkefnisins svo að það yrði viðráðanlegt. Því eru hér eingöngu birtar upplýsingar um . . .“ - (VI: Eigum við ekki að hvíla okkur aðeins?) Það getur nú verið kominn dálítill svefngalsi í mannskapinn þannig að það getur verið að ýmsir hlutir verði til þess að menn verði svona heldur léttari í tóni en efni standa til í sambandi við umræðu þessa máls. En það verður bara að hafa það. Við verðum að búa við það að vera hér á áliðinni nóttu að ræða þessi mál, þannig að ýmsir skemmtilegir hlutir koma vonandi upp og er allt í lagi með það. Þá held ég áfram lestrinum:

„Heildarniðurstöður um aflamagn og gæðamat í einstökum verstöðvum eru birtar en ekki upplýsingar um einstaka báta. Hins vegar er stefnt að því að . . . - (Gripið fram í.) Já, ætli það sé nú ekki rétt að haldið sé áfram lestrinum, en ég er hér að lesa úr ávarpsorðum Halldórs Árnasonar fiskmatsstjóra í 1. tölublaði Fréttabréfs Ríkismats sjávarafurða þar sem fiskmatsstjóri bendir á tilgang bréfsins og verkefni Ríkismatsins. Áður en ég beini spurningu minni til ráðherra held ég að sé rétt að ég klári að lesa þessa grein til enda þar sem ég hljóp yfir þá þætti sem ég ætlaði að spyrja ráðherrann sérstaklega um. Ég var þar kominn sem segir svo: „Hins vegar er stefnt að því að frá og með öðru fréttabréfi fái hver einstakur bátur töflu með upplýsingum um mat á sínum afla þannig að áhöfnin geti borið það saman við heildarniðurstöður.“ - Nú mundi ég vilja spyrja ráðherra (VI: Það er búið að hringja í hann aftur.) Nú, er búið að hringja í hann aftur. Þá reynum við að komast áfram með þetta.

„Viðmiðun varðandi verðmæti afla er fengin með því að nota lágmarksverð Verðlagsráðs sjávarútvegsins eins og þau eru í tilkynningu ráðsins nr. 5/1986. Hvorki er tekið tillit til greiðslna til sjóða sjávarútvegsins né kostnaðarhlutdeildar. Að lokinni vertíð mun Ríkismatið gefa út 9. fréttabréfið“ - þau voru númeruð öll fyrir fram - „þar sem niðurstöður verða dregnar saman og mat lagt á árangurinn. Til að meta árangurinn munum við fylgjast með hversu mikið verður fjallað um gæði og meðferð afla á grundvelli upplýsinga frá Ríkismatinu. Við teljum það góðan árangur ef þessum málum verður sýnd aukin athygli. Einnig verður fylgst með því hvort merkja megi bætta meðferð afla eftir því sem líður á vertíðina. Ekki síst munum við telja það árangur ef Ríkismatinu tekst að ávinna sér traust þeirra sem við sjávarútveg starfa.“

Það er greinilegt út frá því frv. sem við erum að fjalla um hér að ekki hefur nú tekist að vinna traustið. En í fyrri hluta þessara ávarpsorða segir fiskmatsstjóri að innan fiskmats Ríkismatsins sé safnað saman upplýsingum sem hvergi séu til annars staðar og safnist ekki annars staðar en hjá Ríkismatinu, og hann leggur áherslu á að til þess að hægt sé að stjórna og skipuleggja fiskveiðar og nýta þær auðlindir sem við eigum í fiskistofnunum, þá sé það höfuðatriði að hafa þessi gögn og vinna út frá þeim. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvernig eigi að halda þessari gagnasöfnun áfram eftir að Ríkismatið hefur verið lagt niður og hvort einhver von sé til þess að þeir aðilar sem eiga og munu taka þetta að sér, þ.e. seljendur og kaupendur, geti skilað slíkum upplýsingum til opinberra aðila.

Það segir hér í þessu ávarpi fiskmatsstjóra: „Upplýsingar um gæði afla eru forsenda fyrir ákvörðun um gæðamál og skynsamlegri nýtingu fiskistofnanna.“ Er ráðherra sammála þessari skoðun fiskmatsstjóra og er þetta ekki jafnt í gildi í dag eins og það var í fyrra?

Eins og kom fram í þessu, þá var ekki aðeins að verið væri að gefa út svokallað fréttabréf, sem ég held að hafi að mörgu leyti verið mjög gott, heldur hafa ýmsir hlutir aðrir verið að gerast hjá Ríkismatinu og í 7. tölublaðinu eru gefnar upplýsingar um það að enn hafi Ríkismatið sótt á og endurbætt aðstöðu sína. Þar er sagt frá því að Ríkismatið hafi nú fengið Easylink og Ríkismatið hafi tengst Fishnet. (Gripið fram í.) Fishnet, já og Easylink. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. - hann er að greiða atkvæði núna - hvort þessir tveir þættir séu áfram nauðsynlegir fyrir matið og hvort þessu hafi ekki tengst einhver ákveðinn kostnaður og einhver fjárfesting og hvort hún komi matinu áfram að gagni. Og til viðbótar vil ég einnig spyrja ráðherra um það sem kom fram í ávarpi fiskmatsstjóra, að þessi stofnun hafi verið tölvuvædd, að mjög fullkomin tölvuvæðing hafi átt sér stað til þess að sinna ferskfiskmatinu. Hvað verður um þessa tölvuvæðingu og að hvaða gagni kemur þessi tölvuvæðing? Má kannske segja um þetta verkefni, sem hrint var af stað í sambandi við útgáfu fréttabréfsins og uppbyggingu tölvuvinnslunnar, að það hafi mistekist? Að svarið við því felist raunverulega í þessu frv. sem við erum hér að fjalla um? Að vegna þess að það sem farið var út í, tilætlunin með lagabreytingunni 1984 um að herða og byggja betur upp ferskfiskmatið, hafi alveg mistekist, sé þessarar lendingar leitað?

Ég mun ekki lengja ræðu mína að sinni öllu meira. Ég vil aðeins vekja athygli á því að hæstv. ráðh. nefndi það í ræðu sinni við 1. umr. að kostnaður við Fiskmatið hefði verið undir áætluðum kostnaði samkvæmt fjárlögum. Ekki ætla ég að bera á móti því. En ég held að það segi okkur óskaplega lítið um það hvers lags fjármálastjórn hafi verið hjá fyrirtækinu. Það er ekki aðeins vegna þess að fyrirtækið er allt, allt annað fyrirtæki en það var 1984. Það er líka vegna þess að eftir lagabreytinguna 1984 fór Fiskmatið að taka greiðslur fyrir ákveðna þætti sinnar starfsemi þannig að það stóð að hluta undir rekstrarkostnaði sínum. Það segir okkur sáralítið hvort einhver afgangur er af þeim gjöldum sem áætluð voru til fyrirtækisins í gegnum fjárlög.

Ég ætla ekki að fara að halda því fram að þetta fyrirtæki, Fiskmatið, hafi verið rekið eitthvað illa og fjármálastjórnin hafi ekki verið þar góð, en ég ætla ekki heldur að taka undir það að þar hafi hlutirnir verið á einhvern betri veg en áður. Frekar held ég að þar megi telja ýmsa hluti, kostnaðarlega séð, eins og kom hér fram við 1. umr., að vissu leyti vafasama, fjölgun yfirmanna og annað eftir því sem þar var bent á. Það bendir ýmislegt til þess að á síðustu fjórum árum hafi fyrirtækinu ekki verið stjórnað sérstaklega vel. Það er nú svo að frá 1904, en þá minnir mig að Fiskmat ríkisins hafi verið stofnsett, og til 1984 eru fimm forstjórar yfir fyrirtækinu. En frá 1984 hafa verið ráðnir að fyrirtækinu þrír forstjórar og einn mun hafa verið þá fyrir, reyndar talinn í hinni tölunni, Jóhann Guðmundsson var líkast til við það að fara frá fyrirtækinu þegar lögin voru samþykkt, en þá eru það Einar Jóhannsson, Jónas Bjarnason og nú Halldór Árnason. Það er a.m.k. oft viss ábending um að ekki sé allt í lagi með útgerð skips ef mjög oft þarf að skipta um skipstjóra á því. Eins er það viss ábending um að þarna hafi ekki verið stjórnað með sérstakri festu, að forstjóraskipti hafi verið svona ör. Og á hinn veginn að þarna hafi verið einhver sérstök stjórnun fyrst bæta þurfti við í toppstjórnunina eins og fram kom við 1. umr.

Til viðbótar skal ég aðeins benda á einn þátt í lögunum, um það að þegar þarf að grípa til yfirmats og búið er að leggja Ferskfiskmatið niður hjá Ríkismatinu og Ríkismatið verður fyrst og fremst yfirmatsaðili, þá skulu þeir greiða þann kostnað, kostnað yfirmatsins, sem óska eftir yfirmatinu. Mér finnst þetta vera, ef ég má orða það svo, ansi mikill „lapsus“ í lögunum að ef sjómenn óska eftir yfirmati - og svo kemur kannske í ljós að þeir hafi verið að óska eftir yfirmati sem síðan verður þeim hagstætt - að þeir eigi að borga kostnaðinn af því. Ég tel að lögin ættu frekar að gera ráð fyrir því að þeir sem yfirmatið úrskurðar vanhæfa ættu að greiða það.

Það gefur náttúrlega auga leið að yfirmat hlýtur alltaf að kosta þó nokkurn pening, ekki síst ef sækja þarf yfirmatsmenn kannske langar leiðir, sein getur orðið vegna þess að yfirmatsmenn eru aðeins á einum stað í stóru héraði. T.d. ef við tökum lítinn róður af netabát, ef sjómenn verða óánægðir með það samkomulag sem kaupandi og seljandi hafa orðið ásáttir um, útgerðarmaður og fiskkaupandi, þá held ég að sjómenn vænta þurfi að vænta ansi mikillar breytingar á því mati til þess að þeir fari að hætta á það að leggja í fyrirframvitaðan kostnað vegna yfirmats. Það er sjálfsagt erfitt að breyta þessu núna en ég vil minna hv. þm. á þennan þátt. Ég held að það sé nauðsynlegt, ef þetta frv. verður að lögum, að þetta atriði verði tekið upp um leið og við komum saman aftur hér eftir jólafrí og þessum þætti laganna breytt, ja, ég segi ekki endilega á þann veg sem ég hef verið að stinga upp á, en alls ekki að þeir sem óska eftir yfirmati þurfi endilega að vera ábyrgir fyrir greiðslunni fyrir það. (Gripið fram í.) Nei, nei, það eru þeir sem óska eftir yfirmatinu sem eiga að greiða.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða miklu lengri tíma deildarinnar að sinni til umræðu um þetta en ég undirstrika það sem ég hef sagt hér áður. Eg tel að við höfum haft allt of lítinn tíma til að ræða þetta mál hér og að nauðsynlegt væri, eins og ég nefndi í fyrri hluta ræðu minnar, að við hefðum getað sent þetta frv. til umsagnar vítt um landið og heyrt afstöðu manna, bæði sjómanna, útvegsmanna og fiskkaupenda til þess, láta ekki nægja að topparnir í kerfinu hér í Reykjavík segi til um það hvernig þessir hlutir skuli vera. En um það þýðir sjálfsagt ekki að deila. Hér er greinilega meiri hluti fyrir því að þetta frv. verði samþykkt. En ég óttast það að reynslan af þessu, a.m.k. í upphafi, verði sú að hér hafi verið allt of hratt unnið og enginn undirbúningur hafi farið fram fyrir þá sem eiga að taka við þessu verkefni.