20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Það væri út af fyrir sig ástæða til þess að byrja að tala um það hvernig þetta vesalings frv. hefur velkst hér um í erfiðleikum í þinginu til þess að vera rætt nú um hánótt að fáum viðstöddum og engan veginn til fullnustu. Það var einkennilegt fannst mér á fimmtudagskvöldið þegar umræða um frv. var byrjuð eftir starfslítinn dag þessarar hv. deildar að þm. urðu skyndilega svo afskaplega þreyttir að ekki var nokkur leið að halda áfram fundi eftir kvöldmat.

Ég vil segja það til að byrja með að þetta mál hefur haft hér afskaplega skamman aðdraganda og er að ýmsu leyti ófullburða. Ég hef þó talið að það sé ekki nokkur leið annað en að samþykkja það. Ég viðurkenni að það er vissulega mikið verk óunnið og að því leyti get ég tekið undir að sú till. sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason o.fl. munu mæla fyrir hér á eftir eigi fullan rétt á sér, en því miður er erfitt að styðja hana þar sem málið væri þá óhjákvæmilega steindautt.

Það er ýmislegt sem ég hafði ætlað mér að gera athugasemdir við af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég veit þó ekki hvort ég geri það. Hins vegar getur að sjálfsögðu verið að eitthvað komi upp í hugann við 3. umr., ekki síst ef einhverjar umræður verða þá. Þó get ég ekki komist hjá því að víkja að nokkrum atriðum sem komið hafa fram í umræðunum og þá væri freistandi að byrja á því sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði, að enginn hefði búist við því að sjá frv. um breytingu á lögum um Ríkismat sjávarafurða koma svo fljótt hingað aftur.

Ég býst við að þetta sé rétt hjá hv. þm. Hins vegar vil ég leyfa mér að vitna í þingræðu sem ég, þá varaþm., flutti við 1. umr. þessa máls í Nd. haustið 1983, með leyfi forseta:

„En ég veit og viðurkenni það að í atvinnugreininni eru nú ekki forsendur, menn eru ekki tilbúnir til að taka upp þessa starfshætti.“ - Og þá var vitnað til þess að ferskfiskmat yrði lagt niður. „Það bíður síns tíma og ég er sannfærður um að það verður endurskoðað síðar.“

Það var sem sagt misskilningur hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni að ég hefði verið höfundur eða meðhöfundur að þessum tillögum. Svo var ekki. Það var skipuð nefnd af þáv. sjútvrh. 1979 sem skilaði áliti til eftirmanns þess ráðherra, sem nú er hæstv. sjútvrh., haustið 1980. Þar var lagt til, hv. þm. Skúli Alexandersson, þar var lagt til í tillögum þeirrar nefndar sem ég veitti forstöðu að Ferskfiskmat yrði lagt niður og öll ríkisafskipti af fiskmati stórlega dregin saman. Ég bið hv. þm. að taka eftir þessu.

Það var þessi nefnd, sem var lögð niður af núverandi hæstv. forsrh., sem ekki fékk sínu máli framgengt heldur önnur, sem núv. hæstv. sjútvrh. tók í arf frá fyrirrennara sínum haustið 1983 eða skilaði áliti haustið 1983 og það nál. varð síðan lítið breytt að lögum. Þar var ekki, illu heilli, gert ráð fyrir afnámi skyldumats á ferskum fiski þó að ýmsar aðrar breytingar í þeim lögum væru til batnaðar.

Eins og hér hefur margoft komið fram í umræðum þá minnkaði mannahald og umsvif Ríkismats sjávarafurða alls ekki og það fór svo að mjög magnaðar deilur upphófust strax veturinn eftir og hafa staðið linnulítið síðan.

Það hefur verið rifjað upp hér að samþykktir allra hagsmunaaðila sjávarútvegs frá síðustu mánuðum hafa snúist um þessi mál og flestir, ég segi flestir, hafa orðið sammála um það að ferskfiskmat á vegum ríkisins megi leggjast af alfarið þó að sumir, eða hluti sjómanna, í Sjómannasambandi Íslands, vilji ekki að stofnunin sem slík hverfi alveg.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera orð hæstv. ráðh. um góða fjármálastjórn að umtalsefni. Ég tek hana með fyrirvara meðan ég hef engar sérstakar sannanir fyrir því aðrar en lægri útgjöld. Það fer auðvitað eftir tekjum og umsvifum hvort lægri útgjöld bera vott um góða fjármálastjórn. En hitt er miklu áhugaverðara að allir hagsmunaaðilar vilja nú taka saman höndum og taka málið að sér og geta það að mestu leyti eins og ég vil reyna að rekja hér.

Ég lít svo á að þetta frv. sem hér liggur fyrir sé aðeins stutt skref í þá átt að leggja Ríkismat sjávarafurða alfarið niður. Ég er þar sennilega á svipaðri skoðun og fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna og fleiri sem hv. sjútvn. þessarar deildar ræddi við s.l. fimmtudag. Það er mín sannfæring að það komi að því að svo verði gert, þ.e. að ríkismat á ferskum fiski verði alfarið lagt niður. En ég segi það að ég er ekki á móti þessu stutta skrefi, þessu hænufeti sem nú er tekið. Ég tel þetta skinnsprettu í stað þess holskurðar sem fram þyrfti að fara á þeirri stofnun sem nú er rekin og kallast Ríkismat sjávarafurða. Því má við bæta að ef þeir samningar sem nú standa yfir um frjálst verð á fiski, fiskmarkaði og þess háttar, verða að veruleika þá stendur auðvitað ferskfiskmat eftir sem nátttröll í kerfinu.

Ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vænti að verði nú á morgun, um hádegi eða eftirmiðdag, þá býst ég við því að eins og sýnt hefur verið fram á og

rætt var í umræðum hv. sjútvn. þessarar deildar þá verði það í mörgum tilfellum sömu mennirnir sem sjá um matið á ferska fiskinum en eru nú á launum hjá kaupendum og seljendum, báðum eða öðrum hvorum. En hitt kemur undarlega fyrir sjónir, eins og kom fram hér við 1. umr., að skrifstofuhald Ríkismats sjávarafurða virðist eiga að haldast að mestu óbreytt.

Það var nefnt hér við 1. umr. og hafa ekki fengist við því svör að ég held enn þá að kontóristarnir við Nóatúnið eiga að halda áfram fullri vinnu og yfirvinnu eins og ekkert hafi í skorist. Það var reyndar dregið fram hér við 1. umr. að nýjustu yfirmenn Ríkismats sjávarafurða hefðu betri reynslu í ýmsum öðrum sökum en mati á ferskum fiski, en á það skal ég ekki leggja neinn dóm.

Ég held að það sé nauðsynlegt vegna orða sem hér komu fram, sérstaklega við umræðu í hv. Nd., að fara nokkrum orðum um fiskmat og eftirlit í Kanada eins og það er nú. Um það hef ég að vísu þykkar skýrslur og gæti vitnað í þær og lesið en ég skal reyna að fara að stytta mál mitt mjög þar sem nú er liðið á nótt. Aðalatriði ferskfiskmats þar eru eftirfarandi:

Ferskfiskmat í Kanada er ekki skylda enn þá. Það var ætlunin að svo yrði en það hefur af ýmsum orsökum ekki orðið, m.a. af pólitískum ástæðum. Ferskfiskmat þar er núna sjálfviljugt en stærstu fyrirtækin, National Sea Products og Fishery Products, nota sjálfstætt fiskmatskerfi sem er svipað og það punktakerfi sem hér var reynt veturinn 1984. Þessi fyrirtæki greiða sínum kaupendum verð eftir þessu kerfi en önnur fyrirtæki nota kerfið aðeins til viðmiðunar. Starfsmenn fiskvinnslustöðva framkvæma ferskfiskmatið, en þeir þurfa að hafa próf frá fiskvinnsluskóla, College of Fisheries and Navigation. Hið opinbera sá til þess á sínum tíma að punktakerfið varð til en það framkvæmir ekki sjálft matið og það mun ekki gera það þótt það verði skylda sem enginn veit um enn þá. Verði ágreiningur um ferskfiskmat er unnt að kalla til opinbera yfirmatsmenn sem skera úr deilum.

Varðandi annað fiskmat í Kanada er það að segja að eftirlit með búnaði fiskvinnslustöðva er reglulegt. Framleiðsluleyfi eru gefin út af ráðuneyti eða sérstakri ráðuneytisdeild. Þessi stofnun hefur miklu víðtækari verkefni en Ríkismatið íslenska og gæti þess vegna verið eins konar Vinnueftirlit eða Hollustuvernd ríkisins hér.

Afurðaeftirlitið er þannig framkvæmt að opinberir eftirlitsmenn skoða reglulega en fyrirvaralaust allar afurðir fiskvinnslustöðva með tilliti til lágmarkskrafna, þ.e. varan má ekki verða úldin, ekki heilsuspillandi og ekki upplituð svo áberandi sé. Eftirlitsmennirnir eiga sem sagt aðeins að tryggja það að kanadískar fiskafurðir uppfylli lágmarksskilyrði til útflutnings, en framleiðendur og seljendur eiga það við kaupendur um önnur gæði vörunnar. Hugmyndafræði starfsins er mjög skýr. Hreinar mælingar á efnum og gerlum eru látnar oft og tíðum skera úr. Eiginlegt vörumat er ekki orðin staðreynd enn þá í Kanada, en það ríkir um það mikill ágreiningur. Það veit enginn hvort það verður nokkurn tíma framkvæmt af hinu opinbera en það er það ekki nú. Spurningin um það hvað sé gott, betra eða best er algerlega á snærum fyrirtækjanna sjálfra, þ.e. sjálf gæðaflokkunin.

Þessi stutta lýsing sem ég hef hér lesið er að miklu leyti samin upp úr viðtali sem var haft við dr. Botta, sem nú vinnur á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem gestur, vísindamaður sem gestur frá Kanada og starfaði í kanadíska fiskmatinu um tíma.

Bent hefur verið á að það þurfi að verða til einhver aðili sem fiskkaupendur og -seljendur geta skotið deilumálum til, a.m.k. til úrskurðar. Þetta er sennilega rétt og væntanlega m.a. það sem þing Sjómannasambands Íslands átti við með samþykkt sinni. En það þarf ekki að vera til heil stofnun sem bíður eftir því að upp komi deilumál eða ágreiningur um fiskmat. Það þarf heldur ekki að vera til stofnun til þess að stimpla útflutningsvottorð um gæðamat sem starfsmenn sölusamtakanna hafa þegar framkvæmt.

Menn hafa talað um þá hættu að eftirlit sölusamtakanna veiktist ef ekki væri til eitthvað sem þeir kalla óháð ríkismat. Með síðustu breytingum á fiskmatslögunum og með þeim lögum sem nú gilda er gert ráð fyrir því að framleiðendur og samtök þeirra beri ábyrgð á gæðunum. Þeir borga brúsann hvort sem er ef tjón hlýst af lélegum gæðum og það þýðir ekkert að skjóta sér á bak við Ríkismatið. Það hefur aldrei viðurkennt mistök sín hvort sem er. Það hefur aldrei borgað fyrir mistök sem þó hafa greinilega orðið í þessu starfi.

Ég tel að það þurfi einnig að stíga þetta skref til fulls. Ábyrgðin verður að vera þeirra sem framleiða vöruna, ekki einhvers ríkisbákns sem allir leika sér að og plata og benda svo á sökudólg fyrir eigin afbrot. Það er eitt í Ríkismatinu sem kallast hreinlætis- og búnaðareftirlit. Ég álít að það sé til nóg af eftirlitsstofnunum í þjóðfélaginu þó ekki sé haldið úti sérstakri stofnun til þess arna.

Ég held sem sagt að það sé tiltölulega auðvelt að leggja Ríkismat sjávarafurða niður og . . . (SkA: En Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins?) Ég get svarað hv. þm. því að ég er mjög hlynntur því að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verði lögð niður og gerð að sjálfstæðri stofnun nákvæmlega eins og verkfræðiskrifstofa og starfi á eigin ábyrgð og ég er sannfærður um að það gengi miklu betur, þar yrði miklu skilvirkari starfsemi heldur en nú er. Um það hef ég ásamt forstjóra þeirrar stofnunar unnið tillögur sem að vísu eru ekki til umræðu hér en ég væri mjög fús að ræða hvenær sem er.

Ég get sagt það að ef ég væri ekki svona dyggur og trúr stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar þá hefði ég sennilega lagt fram frv. sem gengi alla leið, stigi skrefið til fulls og legði Ríkismat sjávarafurða alfarið af. Það frv. gæti hljóðað eitthvað á þessa leið:

1. gr.: Öllum sem flytja út unnar sjávarafurðir er skylt að framvísa við útflutning vottorði um gæðamat sem sé í samræmi við kröfur kaupenda vörunnar og þess lands sem varan á að fara til. Vottorðið sé undirritað af manni sem til þess hefur hlotið viðurkenningu frá sjávarútvegs- eða viðskiptaráðuneytinu og ber ábyrgð á gæðamatinu. Ráðuneytið getur falið öðrum aðilum að ganga úr skugga um hæfni matsmanna hvenær sem er og enn fremur gengið úr skugga um það fyrirvaralaust að gæðamat sé framkvæmt í samræmi við útgefið vottorð.

2. gr.: Hráefni til fiskvinnslu skal vera ferskt, laust við hvers konar mengun og aðskotahluti og ekki hafa aflagast í meðferð. Kaupendur og seljendur að óunnu sjávarfangi semja um verð þess í samræmi við gæði - og taki menn eftir því, þetta er nákvæmlega það sem menn eru að berjast um nú í Verðlagsráði - en verði ekki samkomulag má skjóta ágreiningi til úrskurðar sjútvrn. sem kveður til yfirmatsmenn. Deiluaðilar greiða að jöfnu allan kostnað af yfirmatinu.

3. gr.: Skipaskoðun ríkisins gengur úr skugga um að lestar og búnaður fiskiskipa standist þær kröfur sem gerðar eru og Hollustuvernd eða Vinnueftirlit ríkisins eða hvort tveggja hefur eftirlit með hreinlæti og búnaði í fiskvinnslustöðvum.

4. gr.: Lög þessi öðlast gildi einhverja ákveðna dagsetningu og jafnframt falla önnur lög úr gildi um Ríkismat sjávarafurða og þá þarf að taka fram að um réttarstöðu starfsmanna Ríkismats sjávarafurða fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Meira held ég að þurfi ekki í raun og veru að segja um þetta mál.

Ég á von á því að þessum málum verði komið fyrir á þennan hátt áður en mjög langt um líður. Það kann að taka eitt eða tvö þing í viðbót. Við rifjuðum það upp, þó sérstaklega hv. 4. þm. Vesturl., hann rifjaði það rækilega upp, að það hefðu ekki liðið nema 2 1/2 ár frá því að síðustu fiskmatslögum var breytt. Í tilefni af orðum hans fletti ég í gegnum nærri 50 ára sögu fiskmats á Íslandi og að jafnaði á sex ára fresti hefur lögum um fiskmat verið breytt, en nú er orðið ansi stutt síðan.

Ég hjó eftir því að hv. 4. þm. Vesturl. vitnaði hér í fréttabréf Ríkismats. Það hafði ég reyndar hugsað mér að vitna í líka og lesa nokkra kafla. (SkA: Vill ekki þm. lofa mér að ljósrita tillöguna að lögunum sínum?) Ég vil benda hv. þm. á það að þessi ræða mun væntanlega birtast í þingtíðindum og jafnvel þó letrið sé smátt má lesa það þar. Enn fremur vil ég benda hv. þm. á það að þessi till. var skrifuð sem drög og á að sjálfsögðu eftir hina hátæknilegu fínpússun sem hið virðulega Alþingi krefst eins og við höfum séð svo glögg dæmi um í kvöld og nótt. En þar höfum við líka séð að svo getur skýrum skjöplast sem öðrum.

Ég ætlaði að lesa hér upp úr þessu fréttabréfi svo sem eins og heila blaðsíðu um það til hvers ferskfiskmatið er. Ég held ég láti það nú vera. Menn geta dundað sér sjálfir við það. Hins vegar langar mig til að lesa úr því bréfi nokkur skilgreiningaratriði sem hér eru sett mjög skýrt fram og ég skil ekki hvers vegna breyst hafa svo mjög síðan, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Tilgangur Ferskfiskmatsins er:

Að stuðla að sem bestri meðferð afla í veiðarfærum og um borð í fiskiskipum og í landi.

Að afla sem áreiðanlegastra upplýsinga um ástand þess hráefnis sem að landi berst og meðferð þess í landi.

Að veita upplýsingar um ástand afla sem er forsenda fyrir ákvörðun um gæðamál.

Að veita kaupendum og seljendum upplýsingar um ástand þeirrar vöru sem verið er að versla með. Þær upplýsingar eru lagðar til grundvallar við verðlagningu hennar.“

Nú er ég alls ekki sammála þessu en hins vegar þykir mér það nokkuð skrýtið og bera einkennilega að ef höfundar þessa frv., sem hér liggur fyrir, hafa varpað þessum markmiðum öllum fyrir róða á aðeins nokkrum mánuðum, þ.e. frá því að þetta fréttabréf kom út.

Ég reikna með því að tækifæri gefist til frekari umræðu um málið eftir nokkra klukkutíma við 3. umr. og læt þessu lokið í bili.