20.12.1986
Efri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Virðulegur forseti. Það var beint hér til mín mjög ákveðnum spurningum áðan og ég get ekki komist hjá því að svara þeim. Hvort ég ætli að lengja þetta þinghald eða ekki? Þar spyr sá þm. úr þeim flokki sem hélt uppi málþófi klukkutímum saman í nótt og kvöld með formann þingflokks í fararbroddi. Þessi sami formaður þingflokks þingmannsins mælti harðlega gegn því að haldið yrði áfram umræðu hér snemma á fimmtudagskvöldi. (Gripið fram í: Hver var það?) Ég áskil mér rétt til þess að taka til máls við 3. umr. Mér dettur ekki í hug að afsala mér þeim rétti. Það væri nánast hlálegt að fara að afsala sér rétti að taka til máls við 3. umr. Og ég vísa því alfarið á bug að ég megi ekki tala svona eins og í hálftíma um mál sem hér hefur verið í allt of stuttan tíma og ég tel að sé mjög mikilvægt.

Ég sé að hv. þingflokksformaður Alþfl. er genginn í salinn. Ég rifjaði það aðeins upp (EG: Ég heyrði það, hv. þm.) að hann hefði mælt gegn því mjög harðlega að hér yrði haldið áfram fundi á fimmtudagskvöld. (EG: Það er bara alrangt.) Við sjáum það í þingtíðindum.

Svo spurði hv. 8. landsk. þm. að því hvort ég hefði breytt skoðun minni varðandi fiskmarkaði. Fiskmarkaðir voru ekki til umræðu. Um það munum við ræða síðar. Ég er alveg óviss um það hvort fiskmarkaðir eiga rétt á sér og alls ekki á öllu Íslandi. Ég sé ekki að þeir eigi rétt á sér nema á nokkrum stöðum.

Um frjálst fiskverð hef ég líka miklar spurningar. Ég efast ekki um að þeir, sem nú eru að vinna að því máli, hafi hugsað það mál djúpt, en ég skil ekki enn hvernig þeir ætla að koma því við, hvernig þeir ætla að slíta sambandi milli kaupenda og seljenda þegar helmingurinn af seljendunum er sami maðurinn.

Á sínum tíma fluttu þm. Bandalags jafnaðarmanna tillögur um að leggja niður oddamann Verðlagsráðs og yfirnefnd Verðlagsráðs stundum. Yfirnefnd Verðlagsráðs var á sínum tíma, í því kerfi sem þá gilti og gildir reyndar enn, nauðsynlegur hlekkur, liður til þess að skera úr deilumálum sem hlutu að koma upp. Og það hafa því betur á því tímabili sem Verðlagsráð hefur starfað oftar en ekki tekist samningar og um það eru til gögn.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta núna. En ég endurtek það að ég afsala mér ekki rétti til að taka til máls við 3. umr.