20.12.1986
Neðri deild: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem birt er á þskj. 467. Þar segir að nefndin hafi rætt málið á fundum sínum. Á fund nefndarinnar komu eftirtaldir aðilar til viðræðna: Magnús Pétursson og Gunnar Hall frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Bolli Þór Bollason og Maríanna Jónasdóttir frá Þjóðhagsstofnun, Bjarni Bragi Jónsson og Jakob Gunnarsson frá Seðlabanka Íslands, Halldór Jónatansson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Hrafn Magnússon og Pétur Blöndal, fulltrúar lífeyrissjóðanna, Hilmar Þórisson og Katrín Atladóttir frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Bragi Hannesson og Gísli Benediktsson frá Iðnlánasjóði, Svavar Ármannsson og Hinrik Greipsson frá Fiskveiðasjóði, Guðmundur Malmquist frá Byggðastofnun, Birgir Þorgilsson frá Ferðamálaráði, Ólafur Davíðsson og Gunnlaugur Sigmundsson frá Þróunarfélaginu, Pétur Sigurðsson alþm. frá Atvinnuleysistryggingasjóði, Magnús E. Guðjónsson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Ásmundur Stefánsson og Björn Björnsson frá ASÍ og Vilhjálmur Egilsson frá VSÍ.

Gestir nefndarinnar svöruðu spurningum nefndarmanna greiðlega og greindu frá skoðunum sínum um málið.

Nefndin vill árétta að framlagið skv. 22. gr. eigi að renna til Ferðamálaráðs. Meiri hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frv. en mun flytja við 3. umr. lánsfjárlaga breytingartillögur í samræmi við afgreiðslu fjárlaga.

Undir þetta ritar meiri hl. nefndarinnar, þ.e. Páll Pétursson, Guðmundur Bjarnason, Friðrik Sophusson, Ólafur G. Einarsson og Halldór Blöndal.

Ég hefði gjarnan viljað mæla fyrir öðruvísi lánsfjárlögum. Það er ýmislegt sem má að þessum lögum finna. Það eru bjartsýnar áætlanir um innlenda lánsfjáröflun. Það gæti reynst torvelt að afla innanlands þess fjár sem áætlað er og gæti það enda haft þau áhrif að vextir hækkuðu óhóflega en vaxtasprenging er ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og þess vegna verður að treysta því að Seðlabankinn grípi inn í lögum samkvæmt.

Í 4. gr. seðlabankalaganna mælir fyrir um að peningamálastefna Seðlabankans verði í sem nánustu samræmi við stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma.

Erlendar skuldir þjóðarinnar eru of miklar. Þess vegna væri skynsamlegra að afla hinu opinbera meiri tekna innanlands með skattheimtu. Samstaða hefur ekki myndast í stjórnarflokkunum um aukna skattheimtu og þess vegna afgreiðum við nú fjárlög með halla, allt of miklum halla og lánsfjárlög sem eru í hærri kantinum.

Ég tel að ekki geti gengið svo til lengdar að meiru sé eytt en aflað og ekki munum við framsóknarmenn skorast undan því að gera okkar til þess að ríkistekjur verði auknar svo sem þarf, hvort heldur sem er með því að leggja skatta á stóreignir ellegar með öðrum hætti.

Ef við ætlum að lifa farsællega hér í þessu góða landi þá verðum við að koma ríkisfjármálunum í lag.