20.12.1986
Neðri deild: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Till. meiri hlutans, till. ríkisstjórnarflokkanna um fjárlög og lánsfjárlög gera ráð fyrir því að ríkissjóður verði rekinn með nærfellt 3 milljarða kr. halla og að þjóðarbúið í heild eins og það birtist í lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun taki ný löng erlend lán upp á 8,2 milljarða kr. á árinu 1987. Það þýðir að ný erlend lán fara nær 2 milljörðum kr. fram úr afborgunum af eldri lánum. Þetta er geigvænleg þróun í einhverju því mesta góðæri sem yfir landið hefur gengið.

Ef við hins vegar lítum til baka þá sjáum við að í upphaflegu frv. til lánsfjárlaga var gert ráð fyrir að nettólántökur samtals erlendis yrðu 1,5 milljarðar kr. Það var þetta sem menn höfðu fyrir framan sig þegar gengið var til seinustu kjarasamninga. Og einmitt við þá kjarasamninga settu aðilar vinnumarkaðarins fram þá eindregnu ósk að úr þessum halla yrði dregið og honum yrði nánast eytt og þannig ekki aukið á erlendar skuldir þjóðarbúsins á næsta ári og sköpuð þau þensluáhrif sem af innstreymi erlends fjármagns mundi leiða. Þetta var talin ein af undirstöðum kjarasamninganna. Þessi málaleitan var borin til ríkisstjórnarinnar sem undirstöðuþáttur kjarasamninga. Ríkisstjórnin tók þessu vel. En hverjar eru svo efndirnar? Efndirnar eru að auka enn á erlendar lántökur frá því sem hafði verið fyrirhugað í upphaflegum lánsfjárlögum. Ekki að draga úr þeim, ekki að eyða þessum 1,5 milljörðum króna eins og hafði verið heitið þegar gengið var til kjarasamninga, heldur að auka þær upp í næstum 2 milljarða.

Ábendingu verkalýðshreyfingarinnar um það að nýta mætti að einhverju leyti fjármagn lífeyrissjóðanna, eitthvað á annan milljarð króna, til þess að eyða þessum halla á ríkisbúskapnum, þeim halla sem sneri að erlendri skuldasöfnun, hvernig var henni tekið? Jú, ábendingunni var þannig tekið að samkvæmt fyrirliggjandi áformum ríkisstjórnarflokkanna eiga byrðarnar sem lífeyrissjóðirnir eiga að taka á sig að vera meira en tvöfalt meiri en aðilar vinnumarkaðarins gerðu ráð fyrir þegar þeir komu með málaleitan sína til ríkisstjórnarinnar. Á þriðja milljarð hefur verið bætt við sem ætlast er til að lífeyrissjóðirnir veiti til hins opinbera og sjóðakerfisins.

Með þessum áformum er niðurstöðum kjarasamninganna og markmiðum um lága verðbólgu á næsta ári stefnt í mjög mikla hættu. Að þeim sé stefnt í mjög mikla hættu eru akkúrat þau orð sem fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands notuðu á fundi fjh.- og viðskn. í morgun og þeim var greinilega brugðið. Þeir orðuðu það svo að skilyrðin fyrir því að þeir skynsamlegu samningar, sem hafa verið gerðir, gætu haldist væru einkum tvö:

Í fyrsta lagi að verðbólga yrði lág þannig að freisting atvinnufyrirtækja til þess að velta af sér út í verðlagið launahækkunum eða slíku væri ekki mikil. Og í annan stað að ekki yrði með neinum hætti hvatt til launaskriðs. En hvatning til launaskriðs á sér venjulega stað í þenslu og orsök þenslu er innstreymi fjármagns, erlends fjármagns. Þess vegna var líka óskin borin fram um að þjóðarbúið yrði rekið nánast í jafnvægi.

Sú þensla sem stafar af því að auka erlendar lántökur er auðvitað hættulegust fyrir útflutningsatvinnuvegina, hættulegust fyrir sjávarútveginn. Ef sú þensla birtist í launaskriði einhvers staðar í þjóðfélaginu lendir hún fyrr eða síðar á sjávarútveginum og þá er markmiðið um fast gengi hrunið. Þetta eru hættumerkin. Þetta er það sem aðilar vinnumarkaðarins eru að tala um þegar þeir segja að markmiðum kjarasamninganna sé stefnt í mikla hættu ef hér sé haldið fram sem horfir.

Við í Alþfl. teljum hins vegar nauðsynlegt og mikilvægt að treysta undirstöður kjarasamninganna og fyrirætlanir um hjaðnandi verðbólgu. Við teljum að þetta sé meginmarkmið. Við erum sammála aðilum vinnumarkaðarins um það í fyrsta lagi að hlaða ekki enn frekar á þjóðina erlendum skuldum og í öðru lagi og ekki síður að það verði að hamla gegn þenslu með því að reka þjóðarbúið hallalaust.

Það er sannarlega mikið í húfi. Það er svo mikið í húfi að það er skylda þingsins að taka á þessu verkefni. Þetta má ekki svo fram ganga að undirstöður kjarasamninganna séu skertar og verðbólgumarkmiðum sé stefnt í voða. Ég vara ríkisstjórnina og þá flokka sem hana styðja alvarlega við að halda við áform sín í þessum efnum.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að það eru engar léttar eða sársaukalausar leiðir til í aðhaldsaðgerðum af því tagi sem nauðsynlegar eru. Það sem nauðsynlega þarf að gerast getur ekki gerst öðruvísi en annars vegar með niðurskurði frá þeim áformum sem uppi eru og hins vegar með tekjuöflun. En það er of mikið í húfi til þess að menn geti leyft sér að flýja frá þessu verkefni eins og afstaða meiri hlutans gefur til kynna að gera eigi. Menn mega ekki láta vaða á súðum og menn mega ekki láta kosningaár villa fyrir sér þannig að menn fáist ekki til þess að stjórna þjóðarbúinu eins og því í heild er best og þannig að þau markmið náist sem að er stefnt og eru okkur mikilvæg. Víð höfum áður fengið að þola verðbólgusprengingar hér á landi.

Það er við þessar aðstæður sem við Alþýðuflokksmenn nú flytjum brtt. annars vegar við frv. til fjárlaga, brtt. sem miða að því að draga úr rekstrarhalla ríkissjóðs um nærfellt 2 milljarða kr., og jafnframt flyt ég fyrir hönd Alþfl. till. um breytingar á frv. til lánsfjárlaga sem eiga að geta tryggt jöfnuð í rekstri þjóðarbúsins.

Ef við skoðum þessar till. í heild þá fela þær í sér aukna tekjuöflun til ríkissjóðs, aukna skatta um 1650 millj. kr. sem verða að berast að mestu leyti af atvinnuvegunum. Það er augljóst að hjá atvinnuvegunum, í áformum þeirra liggur mesta hættan á þenslu, mesta hættan á þrýstingi sem gæti orðið til þess að hér yrði verðbólgusprenging vegna launaskriðs. Þegar af þeirri ástæðu er eðlilegt og rétt að skattbyrðin lendi fyrst og fremst þar. Í annan stað fela þessar till. í sér niðurskurð á útgjaldaáformum í ríkisbúskapnum um 500 millj. kr. Þetta mundi bæta stöðu ríkissjóðs, draga úr halla ríkissjóðs um 2150 millj. kr.

Till. að því er lánsfjárlögin varðar fela það þó í sér að erlend lántaka ríkissjóðs er lækkuð um 900 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir í meirihlutaáliti, þ.e. úr 1700 millj. kr. niður í 800 millj. kr.

Í annan stað fela þær í sér að lífeyrissjóðunum er ekki gert að fjármagna neinn halla hjá ríkissjóði, en í till. meiri hlutans er lífeyrissjóðunum ætlað að mæta 1300 millj. kr. af halla ríkissjóðs.

Í þeim till. okkar Alþýðuflokksmanna sem ég flyt hér fyrir hönd flokksins er í þriðja lagi að lántökur ríkissjóðs innanlands munu lækka um 1300 millj. kr. frá áformum meiri hlutans eða í 3150 millj. kr.

Í fjórða lagi að erlendar lántökur lánastofnana og sjóða eru einungis 650 millj. kr. en ekki nærfellt 1600 millj. kr. eins og ríkisstjórnin áformar.

Áform lánastofnana og sjóðakerfis í heildarlántökum eru í fimmta lagi lækkuð um nálægt 400 millj. kr. en að öðru leyti er það svigrúm sem fæst á innlendum lánamarkaði þegar ríkissjóður hirðir það ekki í halla sinn nýtt til þess að mæta þörfum sjóðanna.

Í sjötta lagi eru verðbréfakaup lífeyrissjóða um 800 millj. kr. lægri en samkvæmt till. stjórnarliðsins, um 800 millj. kr. lægri í þessum till. okkar Alþýðuflokksmanna.

Í samræmi við þetta þarf engin erlend lán til Byggðastofnunar, Iðnþróunarsjóðs eða Iðnlánasjóðs og þess vegna falla brott 6. og 8. og 9. gr. í frv. til lánsfjárlaga sem fjalla einmitt um erlenda lánsfjáröflun til þessara þriggja sjóða og stofnana.

Heildarniðurstaðan samkvæmt tillögum okkar Alþýðuflokksmanna er þá sú í erlendum lántökum að opinberir aðilar taka 1325 millj. kr. minna í erlend lán en nemur afborgunum af eldri lánum; og í annan stað að erlendar lántökur þjóðarbúsins í heild eins og þær birtast í lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun verða 6400 millj. kr., en afborganir eru taldar verða 6300 millj. kr. þannig að nánast er um jöfnuð að ræða þar eð nettólántaka samkvæmt þessum till. okkar er einungis 100 millj. kr.

Brtt. í samræmi við það sem ég hef hér rakið birtast á sérstöku þskj. 480. Þær eru mjög einfaldar, einungis í fjórum liðum, og taka til þess að 6., 8. og 9. gr. falli brott og að lántökuheimildir ríkissjóðs verði lækkaðar eins og ég hef hér lýst. Nánara yfirlit yfir lántökur skv. þessum till. eru á fylgiskjali með nál.

Ýmsir kunna að segja að hér sé hart fram gengið í till. Alþfl. En sannleikurinn er hins vegar sá að till. stjórnarliða eru aðhaldslausar og bera bragð af kosningaplaggi þar sem menn treysta sér ekki til þess að neita því sem neita þarf, en láta þjóðarhag lönd og leið, skrifa víxil á framtíðina og láta sig undirstöðu kjarasamninga og verðbólguframvindu á næsta ári litlu varða.

Við í Alþfl. teljum að þetta viðhorf sé bæði rangt og hættulegt og till. okkar miða að því að ná jafnvægi og treysta undirstöður kjarasamninga og stefna að hjaðnandi verðbólgu. Það er meginmarkmiðið og það má ekki gleymast.