20.12.1986
Neðri deild: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ævinlega fyllist ég andúð og vonbrigðum þegar ég verð vitni að slíkum vinnubrögðum og hér eru viðhöfð á síðustu dögum þingsins fyrir jól. Hér eru á nokkrum sólarhringum teknar ákvarðanir um ráðstöfun þess fjár sem Íslendingar hafa aflað. Reyndar eru hér einnig og ekki síður teknar ákvarðanir um stórfelldar og vaxandi erlendar lántökur sem ríkisstjórnin ætlar að ráðstafa fyrir hönd landsmanna til fjárfestinga og eyðslu þrátt fyrir marggefin loforð og yfirlýsingar um hið gagnstæða og þrátt fyrir yfirlýstan vilja þjóðarinnar í skoðanakönnunum um vilja til að minnka erlendar lántökur. Aðeins tveir sólarhringar gefast t.d. hér í Nd. til að gaumgæfa flóknar samverkandi tölur og talnarunur sem tekið hafa stöðugum breytingum undanfarna daga og milli umræðna vegna breyttra forsendna. Nýgerðir kjarasamningar og sívaxandi góðæri og sívaxandi halli á ríkissjóði krefjast endurskoðunar talnanna en þm. eiga að leggja nótt við dag þessa tvo daga, setja sig inn í dæmið og taka síðan stóru ákvarðanirnar, ég mundi segja í raun oft af talsverðum vanefnum þó að tölur séu ótt og títt matreiddar fyrir þá af sérfræðingum ríkisstjórnarinnar, svo og fulltrúum ýmissa peningastofnana, sjóða og annarra stofnana. Sú tímaþröng sem þessi stóru og afdrifaríku mál lenda í eða eru reyndar sett í og þau vinnubrögð sem af þeim leiða eru hreinlega ósæmileg. Hve margir landsmenn vita í raun hvernig staðið er að þeim stóru ákvörðunum um fjárafla þeirra sem móta efnahagslíf þjóðarinnar? Ætli þeim mundi ekki mörgum blöskra ef þeir ættu kost á að fylgjast með háttalaginu?

Margir hafa haft á orði að þessi fjárlög sem hér hafa verið til umræðu, svo og lánsfjárlög, séu marklaus plögg. Og hafa sumir haft á orði að þeir nenntu varla að ræða þau eða gera brtt. við þau. Ég mun þó hafa um þau nokkur orð, þar sem ég á áheyrnaraðild að hv. fjh.- og viðskn. en skila þar ekki nál.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða að ríkissjóður verði rekinn með halla sem næst 3 milljörðum kr., og hefur hann vaxið ört á undanförnum dögum og þinghaldið því orðið dýrara með hverjum deginum. Þrátt fyrir óvanalegt góðæri eru erlendar lántökur auknar svo um munar eða upp í 8,2 milljarða kr. þannig að ný lán verða um 2 milljörðum hærri en afborganir af eldri lánum eru þegar.

Fram kom á fundum fjh.- og viðskn. að fulltrúar VSÍ og ASÍ voru sammála um það að þessar erlendu skuldir stefndu nýgerðum kjarasamningum í hættu og töldu að stjórnvöld hefðu lofað því að draga úr þessum skuldum, minnka þær niður í ekki neitt nánast. Orðrétt var sagt: „Hver erlend króna sem kemur inn í landið kemur í bakið á samningunum og veldur þenslu.“ Sömuleiðis töldu þessir samningsaðilar að verðlagshorfur á árinu 1987 væru orðnar mjög veikar þegar halli ríkissjóðs hefði aukist svo mjög og samningunum væri beinlínis stefnt í hættu ef afgreiðsla fjárlaga yrði á þann hátt sem horfði.

Auk erlendrar lántöku er svo áætlað að taka að láni allt að 85% af svonefndu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Þessi aukna byrði sem lífeyrissjóðunum er ætlað að taka til að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs er um tvöfalt meiri en ætlast var til í fyrstu, og er ástæða til að hafa áhyggjur af hag lífeyrissjóðanna og reyndar einnig af hag ríkissjóðs sjálfs því þegar farið er að reka ríkissjóð fyrir lífeyri fólksins í landinu þá er ástandið orðið slæmt. Margir óttast að þessar auknu innlendu lántökur geti leitt til ískyggilegrar vaxtahækkunar sem síðan reki enn frekar til erlendrar lántöku.

Þessi fjárlög og lánsfjárlög sem hér liggja fyrir eru þensluhvetjandi og þau bjóða jafnframt eftirkomendum okkar upp á enn einn víxilinn til að greiða.

Nú er komið fram yfir óttu og ekki ástæða til að lengja mál úr hófi. Þó eru nokkur atriði enn sem ég vil nefna. Erfitt er að horfa upp á ranga forgangsröð í byggingarframkvæmdum og er æ erfiðara að stöðva þær, eftir því sem þær byggjast upp. Má sem dæmi nefna Flugstöðina sem við lýstum andstöðu við allt frá fyrstu byrjun og er nú senn fullgerð og áætlað er að taka 520 millj. kr. að láni til að fullgera hana. Þetta hefur okkur ævinlega þótt óþörf bygging og reyndar margar aðrar sem hefðu átt að rísa fyrr eða þá öllu heldur að byggingarfé hennar hefði mátt nota á annan hátt.

Ég lýsi mikilli óánægju með það hvernig farið er með Framkvæmdasjóð fatlaðra, eins og ég hef áður minnst á hér í kvöld þegar ég mælti fyrir brtt. við fjárlög, en hann er skertur eina ferðina enn. Sömuleiðis Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem líka er skertur en á þó að fjármagna skólaakstur í dreifbýli. Atvinnuleysistryggingasjóð á að skerða um 42 millj. kr. en hann hefur aldrei áður verið skertur eins og kom fram hér áðan. Fulltrúi sjóðsins og forseti ASÍ mótmæltu báðir þessari skerðingu og sama mun Kvennalistinn gera. Það er mikil forsmán hvernig farið er með Ríkisútvarpið, og er nú allt að koma fram í þeim efnum sem Kvennalistaþingkonur spáðu fyrir við umræður um útvarpslög fyrr á þessu þingtímabili bæði við umræður um stjórnarfrv. og eins um frv. Kvennalistans. Við mótmælum harðlega þeirri skerðingu á tekjuöflun Ríkisútvarpsins sem hér er verið að gera. Sama er að segja um Ferðamálaráð og reyndar öll framlög til ferðamála. Afstaða ríkisstjórnarinnar og fyrirhyggjuleysi í þessum efnum, þar sem um er að ræða vaxandi atvinnugrein, er ekki bara afleit, hún er illskiljanleg þegar litið er til þess hversu arðbær þessi atvinnugrein er.

Ástæða væri að minnast á Lánasjóð ísl. námsmanna, en hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur þegar gert það ítarlega í máli sínu er hún mælti fyrir brtt. við 3. umr. fjárlaga svo ég mun ekki ítreka það frekar.

Það er undarlegt að mitt í þeirri kreppu sem hitaveitur og raforkukaupendur eiga í um þessar mundir skuli skattgreiðendum öllum ekki ætlað að greiða sitt. Auðvitað eiga stórkaupendur raforku að greiða sinn skatt eins og aðrir og á ég þar við fyrirtækið Alusuisse. Um 500 millj. eiga nú að fara í Blöndu en samt er a.m.k. 5 ára forði af umframorku í kerfinu og enginn stórkaupandi raforku í augsýn. Óhóflegar virkjunarframkvæmdir vegna stóriðju hafa valdið mestu um skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins en þessar framkvæmdir hafa þó enn ekki skilað þeim arði sem vonir stóðu til. Í stað þess að læra af fenginni reynslu skal enn haldið áfram á sömu braut.

Það eru þrjár leiðir færar til að eiga við þann gífurlega halla á fjárlögum sem við blasir: Aukin skattheimta, frekari niðurskurður á útgjöldum ríkisins og svo auknar lántökur innanlands og utan með þeim þensluhvetjandi áhrifum sem þær hafa. Það er augljóst að þriðja leiðin hefur verið valin og hún verður áfram notuð til að mæta rekstrarhallanum. Fyrstu leiðinni hefur verið hafnað að mestu, og þeirri seinni beitt af handahófi.

Það er ljóst að þetta eru kosningaársfjárlög og ólánsfjárlög, og munum við hvorug styðja. Það þarf ákveðnari, hugrakkari og mannúðlegri fjárlagagerð en hér er lögð fram. Þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt sig færa um að sýna slíka efnahagsstjórn. Þess vegna er líka mál að linni og sér stjórnarskráin til þess