20.12.1986
Efri deild: 29. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

252. mál, fangelsi og vinnuhæli

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nál. þetta með fyrirvara. Sá fyrirvari byggist fyrst og fremst á því að ég hef litla sannfæringu fyrir því að þessi lagabreyting sé nauðsyn. Fangaverðir hafa hingað til aldrei farið í verkfall og hafa aldrei óskað eftir því að gera verkfall. Það liggur í hlutarins eðli að innan BSRB verður að gera ýmsar undanþágur varðandi öryggisgæslu þegar verkfall er háð og fangaverðir eru í þeim hópi sem allir sjá að hljóta að vera undanþegnir. Þetta hefur allt gengið fyrir sig með eðlilegum hætti fram að þessu og aldrei verið ágreiningur, hvorki við fangaverði né við forustumenn BSRB að svo skyldi vera. Af þeirri ástæðu verður ekki séð í fljótu bragði að nein nauðsyn hafi verið til að gera þessa lagabreytingu. Manni virðist í fljótu bragði að það væri þá eðlilegra að breyting af þessu tagi væri gerð í tengslum við einhverja meiri háttar breytingu aðra sem gerð væri á kjarasamningalögum.

En sem sagt, ég skrifa undir nál. með fyrirvara vegna þess að ég sé ekki að nein nauður hafi rekið til að gera þessa breytingu og á margan hátt er óeðlilegt að fara að undanþiggja með svona formlegum hætti margar stéttir frá samningsrétti. En þar sem þetta er gert í fullu samráði við fangaverði, þá hef ég ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir þessari breytingu og mun því greiða frv. atkvæði.