20.12.1986
Efri deild: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að taka undir það sem Helgi Seljan var að segja. Það liggur fyrir till. um það að verja allhárri fjárhæð til reiðhallar hér í Reykjavík, sem er knúið fram af stjórnarsinnum á sama tíma og fátæku fólki, fólki sem á bágt, fötluðu fólki er neitað um eðlilegar fjárveitingar. Ég lýsi andstyggð minni á þeim mönnum sem láta hafa sig í það að greiða því atkvæði í samanburði við það sem ég var að segja áðan, mönnum sem greiða því atkvæði að það rísi reiðhöll í Reykjavík.

Það er hægt að nefna mörg dæmi um neyðina sem ríkir hjá fötluðu fólki hér í Reykjavík og um allt landið. Ég ætti kannske að nefna það en ég geri það ekki á þessari stundu. En ég vil nefna nöfn þeirra manna sem hafa greitt því atkvæði að fatlað fólk fái ekki þær umbætur sem lofað var og heitið: Jón Helgason, Albert Guðmundsson, Jón Kristjánsson, ég sleppi Haraldi í von um að hann hafi döngun í sér til þess að greiða öðruvísi atkvæði en honum er sagt annars staðar, Eyjólfur Konráð Jónsson, Björn Dagbjartsson, (Forseti: Nú vill forseti gjarnan biðja hv. þm. að sleppa slíkum atkvæðaupptalningum í ræðu sinni en halda sig frekar við efnislega þáttinn.) jú, þetta eru allt efnisatriði og það hlýtur að snerta samvisku manna, það sem er að ske nú.

Ég ætla að hætta þessari upptalningu vegna þess að ég held að þeir sem á eftir eru muni sjá að sér, en þetta er meira mál en nokkurn grunar. Það er meira mál að greiða svona atkvæði, það er meira mál að leggjast gegn fötluðu fólki en nokkurn grunar, á sama tíma og menn ætla í sportmennsku og vitleysu að verja fjármunum til reiðhallar í Reykjavík.